Verndum börnin okkar og sýnum aðgætni í umferðinni
Nú þegar líður að hausti og skólastarf senn að ganga í garð beinir lögreglustjóri Vestfjarða þeim tilmælum til ökumanna jafnt sem foreldra að þeir sýni aðgát og fyrirhyggju. „Nú er sá tími ársins að hefjast að mikið er af ungum vegfarendum í umferðinni og getur slysahætta aukist því samfara. Því miður hafa þegar orðið nokkur slys þar sem börn og ökutæki koma við sögu og bendir lögreglan á Vestfjörðum bæði foreldrum og ökumönnum á að sýna sérstaka aðgát. Ökumenn, vinsamlegast sýnið aðgát í umferðinni og gætið sérstaklega að ungum vegfarendum. Foreldrar, gætið að börnum ykkar og útbúið þau vel, hvort sem þau eru gangandi eða hjólandi", segir Kristín Völundardóttir lögreglustjóri í orðsendingu með þeirri yfirskrift sem fram kemur hér í fyrirsögninni.