Vestfirðingar að mestu að glíma við sömu verkefnin
Þingmenn Norðvesturkjördæmis héldu í dag fund með fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum. Nokkuð á fjórða tug fólks sat fundinn, sem haldinn var á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum, þar á meðal allir átta þingmenn kjördæmisins. Þetta er árlegur fundur þar sem þingmönnum gefst tækifæri að ræða við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum og fulltrúa samtaka sveitarfélaganna, Fjórðungssambands Vestfirðinga, um hagsmunamál landshlutans. Áður en fundurinn hófst bauð Reykhólahreppur mannskapnum upp á súpu en síðar voru kaffiveitingar í boði Fjórðungssambandsins.
Leitað var til nokkurra af þeim sem sátu fundinn og beðið um umsögn að honum loknum. Svörin fara hér á eftir í stafrófsröð svarenda.
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga:
Á þessum fundi á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum hittu þingmenn Norðvesturkjördæmis sveitarstjórnarmenn af Vestfjörðum í kjördæmaviku. Þar var rætt um ýmis mál og viðfangsefni sem helst brenna á íbúum Vestfjarða og snýr að ríkisvaldinu að leysa.
Þung áhersla var lögð á úrbætur í fjarskiptamálum í dreifbýli og hringtengingu ljósleiðara um Vestfirði, auk tengingar þeirra þéttbýlisstaða við ljósleiðarakerfið sem ekki njóta þeirra sjálfsögðu lífsgæða í dag. Einnig var fjallað um nauðsyn á jöfnun raforkuverðs, annars vegar í þéttbýli og dreifbýli og hins vegar á heitum og köldum svæðum.
Úrlausnir í húsnæðismálum voru einnig ofarlega á baugi, en mikill munur er á byggingarkostnaði og markaðsverði á Vestfjörðum. Skortur á íbúðarhúsnæði er því víða orðinn vandamál, ekki síst á þeim svæðum þar sem vöxtur er, og mjög vantar að lánastofnanir og þá sérstaklega Íbúðalánasjóður vinni í takt við hækkandi markaðsverð. Á þeim svæðum fannst fundarmönnum ennfremur verulega vanta upp á að ríkið væri samstíga heimamönnum við uppbyggingu. Þá var þung áhersla lögð á úrbætur í samgöngumálum, svo sem úrlausn mála vegna Vestfjarðavegar nr. 60 og að staðið verði við áætlaðar framkvæmdir í samgönguáætlun.
Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar:
Ég er ánægð með fundinn og þakklát fyrir góða mætingu þingmanna kjördæmisins, sem og fulltrúa sveitarfélaganna. Allir átta þingmenn Norðvesturkjördæmis mættu til leiks, hlustuðu á kynningar fulltrúa Fjórðungssambandsins sem og sveitarfélaganna og ágætis samtal átti sér stað á milli aðila. Áhersla var lögð á að þingmenn gengju í takt við sveitarfélögin á Vestfjörðum og tækju þar með þátt í framförum og uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu. Að sama skapi var áhersla lögð á að sveitarfélög á Vestfjörðum kæmu fram sem samstæð heild og styddu hvert annað í lífsbaráttunni.
Mér fannst þingmenn hlusta á heimamenn og sýna skilning. Áhersluatriði Vestfirðinga eru nokkuð áþekk, óháð staðsetningu innan svæðisins, og mikil áhersla lögð á grunnþætti eins og samgöngumál, fjarskiptamál og jöfnun orkukostnaðar, auk málefna smábátasjómanna, en þar eru blikur á lofti, meðal annars vegna mikillar ýsugengdar á svæðinu og ófáanlegs ýsukvóta. Einar K. Guðfinnsson upplýsti fundarmenn um að verið væri að skoða lausnir varðandi smábátasjómenn og er það vonandi að lausn finnist hið fyrsta.
Haraldur Benediktsson er vongóður um að hringtenging ljósleiðara á Vestfjörðum komist í framkvæmd á komandi ári og eru það góðar fréttir, enda eru nútíma- og samkeppnishæfar nettengingar forsenda þess að byggðir fái þrifist í framtíðinni.
Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis og fyrrv. ráðherra:
Þetta var eins og endranær góður fundur með sveitarstjórnarmönnunum. Sumt sem þarna kom fram eru gamlir kunningjar frá fyrri fundum. Mál sem í sjálfu sér eru eilífðarviðfangsefni, eða mál sem ekki hafa gengið nægjanlega vel. Önnur eru nýrri af nálinni. Það er til dæmis athyglisvert, að fjarskiptamálin eru orðin eitt af stærstu baráttumálunum og áherslan á þau mikil. Þess vegna er það ánægjulegt að nú hillir undir farsæla lausn á þeim, eftir að ríkisstjórnin tók þau mál föstum tökum undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns. Það er líka ánægjulegt að sveitarstjórnarmenn hvöttu okkur til að ríkisvaldið herti sig og gengi í takt við þá uppbyggingu sem á sér stað á mörgum sviðum atvinnulifsins, svo sem í fiskeldi og ferðaþjónustu.
Hinu er þó ekki að neita, að sveitarstjórnarmenn hafa eðlilegar áhyggjur af mörgum málum sem enn eru ekki í höfn. Þar má nefna samgöngur. Gott er hins vegar að samstaða er um meginmarkmiðin, svo sem um vegagerðina í Gufudalssveitinni, Dýrafjarðargöng, veginn um Dynjandisheiði og leiðina norður í Árneshrepp.
Mikil vandræði steðja nú að vegna niðurskurðar í ýsuveiðum og minnkandi heimilda í línuívilnun. Mér er kunnugt um að í sjávarútvegsráðuneytinu er verið að yfirfara þau mál. Svo má líka nefna mál sem nauðsynlegt er að leysa úr, mál á borð við húshitunarkostnaðinn, en þar er verið að stíga skref með jöfnun raforkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli. Loks vil ég nefna að ákaflega athyglisverðar upplýsingar komu fram sem sýna að mjög hefur hallað á Vestfirði varðandi uppbyggingu opinberra starfa. Það vissum við í sjálfu sér, en tölulegar staðreyndir sem komu fram á fundinum sýndu þetta alveg svart á hvítu.
Guðbjartur Hannesson, alþingismaður og fyrrv. ráðherra:
Þessir fundir eru ávallt gagnlegir. Jafnvel þó að oft sé talað um sömu málin ár eftir ár, þá er nauðsynlegt að þingmenn og sveitarstjórnarmenn hittist og fari yfir málin.
Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga, ræddi stöðuna í fjórðungnum varðandi samskipti ríkis og sveitarfélaga, ræddi um sóknaráætlun, sértæk úrræði í byggðamálum, verkefni hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar og fleira.
Sjálfur vakti ég athygli á þingsályktunartillögu Samfylkingar í byggðamálum. Það eru ellefu atriði, þar sem meðal annars er fjallað um stærstu hagsmunamál fjórðungsins, það er samgöngumál, fjarskipti og netöryggi, raforkuöryggi og jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningskostnaðar.
Mikill samhljómur var meðal þingmanna og heimamanna um að lokaáfangi á Vestfjarðavegi 60 (Teigsskógur) hafi forgang í samgöngumálum og að ekki megi víkja frá áætlun um Dýrafjarðargöng. Ég lýsti áhyggjum yfir því að fjárframlög til nýframkvæmda í vegagerð skuli hafa verið lækkuð um þrjá milljarða króna frá fyrri áætlun og því fara engar nýjar framkvæmdir af stað samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.
Gagnrýnt var harðlega að ekki var staðið við áform fyrri ríkisstjórnar um Sóknaráætlun landshluta og óljóst um framhaldið. Þá kom fram gagnrýni á sameiningu heilbrigðisstofnana, en ég benti á að ég hefði ávallt lagst gegn því að sameina stofnanirnar á meðan að samgöngur væru ekki komnar í lag. Líka má nefna, að lögð var áhersla á að rannsóknir og þjónusta við fiskeldi verði á Vestfjörðum.
Haraldur Benediktsson alþingismaður:
Fundurinn á Reykhólum er mikilvægur fyrir samskipti alþingis- og sveitarstjórnarmanna. Þingmenn kjördæmisins fá góða innsýn í þau mál sem landshlutinn setur á oddinn við fjárlagagerð. Nú hef ég ekki langa reynslu í starfinu, en ég get sagt að bæði fundir með landshlutasamtökum og heimsóknir sveitarfélaga til fjárlaganefndar hafa veruleg áhrif á endanlega niðurstöðu við gerð fjárlaga.
Auk þess sem við Einar Kristinn Guðfinnsson reynum að halda sem flesta almenna fundi í kjördæmavikunni, og reyndar á öðrum tímum, nýtist okkur þetta gríðarlega vel við að fá sýn á forgangsröðun og áherslur íbúa kjördæmisins. Þannig get ég sagt að reynslan frá því í fyrrahaust var sú, að fjárlagafrumvarpið tók verulegum breytingum í meðferð fjárlaganefndar, einmitt vegna góðrar þátttöku sveitarstjórna og annarra íbúa á þessum fundum.
Það er nefnilega þannig, að allir geta haft mikil áhrif á störf Alþingis með því að nýta sér þann vettvang sem hér um ræðir og að hitta alþingismennina. Þetta finnst mér oft vanmetið, og þegar ég heyri viðhorf um að þingið sé ekki í neinum tengslum við almenning, þá verð ég að segja að ég er ósammála því. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins reynum í það minnsta að rækta slíkt tengsl sem best.
Fjárlagagerðin snertir okkur öll, og ekki síður er slíkt samtal nauðsynlegt til að fólk átti sig á þeim verkefnum sem þarf að gæta að í sameiginlegum rekstri okkar landsmanna. Við leggjum fyrst og fremst áherslu á að treysta stöðugleika, því að stöðugleikinn er forsenda þess að heimili og fyrirtæki geti gert framtíðaráætlanir og þannig byggt upp kaupmátt.
Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps:
Fundurinn fór afskaplega vel fram og endaði í fjögurra tíma yfirferð yfir málefni sveitarfélaganna. Mér þótti vænt um það hversu margir sóttu fundinn, bæði sveitarstjórnarmenn og þingmenn, en sá sem þurfti lengst að aka kom frá Bolungarvík. Það segir dálítið um þær aðstæður sem við búum við innan fjórðungsins.
Fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga fóru yfir okkar sameiginlegu málefni og drógu saman helstu tölur og fleira og fengu þingmenn til að tjá sig á milli hvers efnisflokks. Að síðustu fóru fulltrúar sveitarfélaganna yfir þau málefni sem þeim eru brýnust hverju og einu.
Vestfirðingar eru að mestu að glíma við sömu verkefnin, samgöngumál, gagnaflutningsmál, húsnæðismál, raforkumál. Málefni fatlaðra voru rædd, það er yfirfærslan á málaflokknum. Rætt var um samgöngur á Vestfjarðavegi um Teigsskóg og voru flestir þingmenn á því að einhvers konar lög þurfi að setja á framkvæmdina.
Það var gaman að bjóða þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum á Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum. Starfsfólk safnsins og Kvenfélagið Katla verðskulda bestu þakkir fyrir sitt framlag.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður:
Mér fannst umræðan vera hreinskiptin á fundi þingmanna með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum, enda verða menn að tala um hlutina eins og þeir eru, jafnt það sem vel hefur tekist til með sem og þann mikla niðurskurð sem birtist í fjárlögunum og ógnar byggðinni. Verkefnin eru næg, til dæmis í samgöngum og að byggja upp aðra innviði Vestfjarða, sem setið hefur allt of lengi á hakanum. Við þurfum öll að leggjast á eitt og vinna saman og sýna samtakamátt, burtséð frá flokkslínum.
Staða sjávarútvegsins á Vestfjörðum er ekki nógu góð í samanburði við uppgang greinarinnar í öðrum landshlutum. Hvað veldur? Eigum við það á hættu að útgerðarrisarnir í landinu yfirtaki hana eins og gerðist á Seyðisfirði? Og hvað þá með framhaldið þegar þessi óvissa vofir alltaf yfir og skapar mikið óöryggi með hrikalegum afleiðingum eins og ástandið á Þingeyrir sýnir og Flateyri þar á undan? Óánægja er líka með lítið samráð um sameiningu heilbrigðisstofnana og sýslumannsembætta. Það veit ekki á gott um samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Sveitarstjórnarfólk kallar eftir því að stjórnvöld taki á með heimamönnum í baráttunni fyrir byggðinni, sem er í varnarbaráttu, þó að vissulega séu margir góðir hlutir að gerast sem snúa að uppbyggingu í fiskeldi og ferðaþjónustu og annarri nýsköpun. Mikil áhersla kom að sjálfsögðu fram á fjarskipti, samgöngur og raforkuöryggi og að fjölgun opinberra starfa á Vestfjörðum væri í takt við fjölgun þeirra á landsvísu.
Það er líka kallað eftir stuðningi ríkisins við að byggja upp íbúðarhúsnæði. Þörfin er til staðar víða, en erfitt er að fá lánsfjármagn þar sem mikill munur er á byggingarverði og endursöluverði íbúðarhúsnæðis.
Mér fannst vera þungt hljóð í fólk varðandi fjárlögin, enda eru þau fjandsamleg landsbyggðinni. Þegar þau eru rýnd með landsbyggðargleraugum, þá blasir við meðal annars niðurskurður til samgöngumála og sóknaráætlana, niðurskurður á framlögum í framkvæmdasjóð ferðamannastaða og til framhaldsskólanna. Líka blasir við fækkun opinberra starfa og hærri virðisaukaskattur á mat og rafmagn og heitt vatn, svo eitthvað sé nefnt.
Við þingmenn fórum vel nestaðir af þessum fundi. Vonandi getum við sameinast um að taka á með heimamönnum í uppbyggingu Vestfjarða, sem verður að setja í forgang og þolir enga bið.
__________________________
Á mynd nr. 1 er hópurinn sem sat fundinn á Reykhólum en á mynd nr. 2 eru þingmennirnir átta ásamt fjórum af fulltrúum sveitarfélaga á Vestfjörðum. Talið frá vinstri: Aðalsteinn Óskarsson, frkvstj. Fjórðungssambands Vestfirðinga, Elsa Lára Arnardóttir (B), Jóhanna María Sigmundsdóttir (B), Gunnar Bragi Sveinsson (B), Elías Jónatansson, bæjarstjóri í Bolungarvík, Lilja Rafney Magnúsdóttir (V), Ásmundur Einar Daðason (B), Haraldur Benediktsson (D), Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, Einar Kristinn Guðfinnsson (D), Andrea Kristín Jónsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar, og Guðbjartur Hannesson (S).
Hinar myndirnar sem hér fylgja eru svipmyndir frá fundinum sem Sveinn Ragnarsson tók.