Vestfirðir verði settir í forgang í vegaframkvæmdum
Fjórðungssamband Vestfjarða ítrekaði nauðsyn þess að Vestfirðir yrðu settir í forgang í samgöngumálum á Íslandi, á fundi stjórnar sambandsins með Kristjáni Möller samgönguráðherra á Ísafirði á föstudag. Fjórðungssambandið boðaði til fundarins með ráðherra, sem staddur var á Ísafirði, til að ræða samgöngumál Vestfjarða og hverjar áherslurnar væru í þeim efnum. „Þetta var mjög góður fundur“, sagði Birna Lárusdóttir, varaformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. „Við lögðum þunga áherslu á að Vestfirðir yrðu settir í forgang í samgöngumálum á Íslandi. Brátt munum við reka lestina hvað landið varðar í samgöngum. Hingað til höfum við nokkurn veginn verið jöfn Norðausturlandi í samgöngum en með framkvæmdum á því svæði núna er ljóst að við drögumst aftur úr.“
Birna sagði að auk forgangs í samgöngum hafi flugsamgöngur og fjarskiptamál svæðisins verið rædd, en Fjórðungssambandið hafi lagt áherslu á veginn milli Þorskafjarðar og Vatnsfjarðar. „Það er númer eitt, tvö og þrjú að farið sé í framkvæmdir við Vestfjarðaveg frá Flókalundi að Bjarkalundi“, sagði Birna, en vegurinn er eina tenging íbúa í Barðastrandarsýslu við aðalþjóðveg landsins.
Einnig lagði Fjórðungssambandið áherslu á að unnið yrði að hönnun og undirbúningi jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, en að sögn Birnu var óskað eftir því að útboð þeirrar framkvæmdar hefjist sem allra fyrst og að framkvæmdir hefjist strax og framkvæmdum Óshlíðarganga lýkur.
Að sögn Kristjáns Möller samgönguráðherra var fundurinn afar jákvæður. Hann sagði einnig að rætt hefði verið að setja Vestfirði í forgang hvað varðar samgöngumál og þegar væru framkvæmdir við Vestfjarðaveg í farvegi. „Síðastliðin ár hafa umfangsmestu vegagerðarframkvæmdir Íslandssögunnar átt sér stað og áttu Vestfirðingar stóran hlut í því, hingað fóru 2,8 milljarðar eitt árið og tveir milljarðar það næsta. Þannig að við ætlum okkur að halda þessu áfram á fullri ferð“, sagði Kristján.
Aðspurður um göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sagði ráðherra að ekki væri hagstætt að ráðast í svo stórar framkvæmdir eins og ástandið væri í dag. „Meðal annars hvernig gengið er í dag, þá eru útboð í gangagerð afar óhagstæð. Bæði kostar þetta mikið af erlendu efni og einnig hefur hingað til verið notast mikið við erlent vinnuafl sem er afar dýrt þessa dagana. Hvenær ráðist verður í þessar framkvæmdir er erfitt að segja, en það er alveg á hreinu að þetta verða næstu göng sem verða gerð á Vestfjörðum“, sagði Kristján L. Möller.