Vestfirska forlagið komið með rafbækur
Vestfirska forlagið, sem hefur í áratugi safnað saman og gefið út vestfirskt efni af nánast öllu tagi, hefur nú komið á fót rafbókadeild. Þar geta allir sem fylgjast með þessari vistvænu tækniþróun fengið eldri bækur forlagsins, segir í kynningu frá forlaginu. Þar á meðal verður helsta flaggskip forlagsins, ævisaga sr. Baldurs Vilhelmssonar í Vatnsfirði, sem Hlynur Þór Magnússon færði í letur. Auk þess eru meðal annars fjölmörg rit sem snerta fólk og viðburði í Austur-Barðastrandarsýslu fyrr og síðar.
Guðrún Steinþórsdóttir á Brekku í Dýrafirði er deildarstjóri hinnar nýju rafbókadeildar Vestfirska forlagsins. Stofnandi forlagsins og útgefandi alla tíð er Hallgrímur Sveinsson, sem í marga áratugi var forstöðumaður Safns Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð og jafnframt lengi kennari og skólastjóri á Þingeyri við Dýrafjörð. Nina Ivanova annast tæknivinnu við rafbækur Vestfirska forlagsins, en hún hefur í nokkur ár séð um umbrot á mörgum útgáfubókum þess.
► Vestfirska forlagið (lengi á Hrafnseyri við Arnarfjörð, nú á Brekku í Dýrafirði)