Tenglar

30. apríl 2011 |

Vestfjarðabæklingur á ensku kominn í prentun

Bæklingurinn Westfjords of Iceland, The Official Tourist Guide 2011, er kominn í prentun. Þetta er fyrsti bæklingur Markaðsstofu Vestfjarða á erlendu tungumáli, sem hefur að geyma allar helstu upplýsingar um ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Upplagið er 20 þúsund eintök. Að sögn Gústafs Gústafssonar forstöðumanns Markaðsstofunnar eru sjálfsagt einhver atriði sem betur mega fara og myndir vantar við sum atriði. Markmiðið er að út komi bæklingur á hverju ári og á næsta ári bætast þýska og franska við.

 

Yfir hundrað athugasemdir komu vegna bæklingsins og munum við reyna að koma öllum lagfæringum inn í gagnagrunn Ferðamálastofu sem svo birtist á vefnum okkar, segir Gústaf í tilkynningu. Vefurinn inniheldur miklar upplýsingar og þarfnast sífelldra breytinga og uppfærslu gagna. Markaðsstofan leitar því eftir samstarfsaðilum sem vilja og geta hjálpað til við að halda upplýsingum réttum og jafnvel skjóta inn fréttamolum og slíku fyrir sitt svæði. „Vefurinn er gríðarlega mikilvægt tæki fyrir vestfirska ferðaþjónustu og því mikilvægt að ferðaþjónar á öllu svæðinu skoði hann reglulega og hjálpi til við að halda honum réttum og gagnlegum fyrir ferðamenn sem og aðra sem leita eftir upplýsingum. Hér má einnig hugsa sér að starfsmenn og fulltrúar sveitarfélaga komi að, enda eru sveitarfélögin stærstu ferðaþjónarnir á svæðinu.“

 

Þjónustukort fyrir Vestfirði er nú í umbroti og verður það með öðru sniði en verið hefur. Nú bætast við bæjakort og flokkarnir verða aðlagaðir gagnagrunni Ferðamálastofu. Upplagið er 17 þúsund eintök. Þeir sem vilja fá auglýsingu á kortið verða að hafa samband fljótlega. Hafa skal í huga að þetta kort er gríðarlega mikið notað af erlendum gestum og því um góðan kost að ræða fyrir þá sem vilja koma sér betur á framfæri.

 

Gústaf minnir á Íslandsperlur, ferðasýningu sem haldin verður í Perlunni í Reykjavík 20.-22. maí. Gert er ráð fyrir yfir tíu þúsund gestum. Þeir sem vilja taka þátt í sýningunni verða að hafa samband við info@vesturferdir.is og skrá sig. Sýningin verður með þemað Vatn. „Það er nú aldeilis nóg af því hérna hjá okkur enda erum við með titillinn European Destionation of Excellence for Aquatic Tourism, eða Eden.“ Sjá nánar hér (enska).

 

Markaðsstofa Vestfjarða var á faraldsfæti alla páskana með erlenda blaðamenn í tengslum við rokkhátíðina Aldrei fór ég suður, sem gekk mjög vel. „Þarna er verið að lyfta Grettistaki, öllu svæðinu til heilla. Farið var á Þingeyri, í Súðavík og Bolungarvík í samvinnu við ferðaþjóna með erlendu gestina, auk þess að dagskrá var á Ísafirði. Blaðamenn eru ein besta markaðsfjárfesting sem ferðaþjónustan getur nýtt sér. Ég hvet alla ferðaþjóna sem hafa áhuga á að taka þátt í slíku samstarfi að hafa samband við Markaðsstofuna og láta af sér vita“, segir Gústaf.

 

„Ekki má gleyma því að t.d. Lonely Planet umfjöllunin er afrakstur slíkrar vinnu og kom ekki af sjálfsdáðum. Markaðsstofan fjárfestir í slíkum ferðum nokkrum sinnum á ári en það er ekki hægt án samvinnu við ykkur. Frá því undirritaður tók við sl. haust hafa eftirfarandi áfangastaðir verið heimsóttir: Látrabjarg, Breiðavík, Hnjótur, Rauðasandur, Patreksfjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörður, Bolungarvík, Súðavík, Heydalur og Hólmavík, auk fjölda annarra viðkomustaða eins og Selárdalur, Dynjandi og miklu fleiri.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30