Vestfjarðaleiðin - The Westfjords Way
Í dag var hulunni svipt af nýju nafni og merki ferðamannaleiðarinnar sem hefur gengið undir vinnuheitinu Hringvegur 2. Nafnið sem varð fyrir valinu var Vestfjarðaleiðin eða á ensku The Westfjords Way. Nafnið hefur skemmtilega tvíþætta merkingu, bæði sem leið - ferðamannaleið en einnig sem vísun í það að Vestfirðingar og þeirra leiðir séu frábrugðnar öðrum. Mörkunaráætlun, nafn og merki var unnin af alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Cohn & Wolfe á Íslandi, en vinna við þróun leiðarinnar er unnin í samstarfi við breska ráðgjafafyrirtækið Blue Sail.
Vinna við þróun ferðamannaleiðarinnar hefur verið í gangi í rúmlega eitt ár hjá Vestfjarðastofu og var það frábær viðbót þegar Vesturlandsstofa gekk til liðs við verkefnið fyrir hönd Dalamanna. “Þetta er í ákveðnum skilningi kalt ferðaþjónustusvæði, en það á mikið inni og ljóst að Vestfjarðaleiðin verður öflugur segull fyrir svæðið. Nú þegar hefur skapast töluverður áhugi fyrir leiðinni, bæði hjá erlendum blaðamönnum og ferðaheildsölum”, segir Díana Jóhannsdóttir sviðsstjóri hjá Vestfjarðastofu.
Vestfjarðaleiðin er ferðamannaleið sem er um 950 km löng og liggur um átta sveitarfélög á Vestfjörðum og Dalabyggð á Vesturlandi. Lagt er upp með að Vestfjarðaleiðin verði aðdráttarafl fyrir svæðið allt árið um kring en fyrsti áfangi þess verður opnun Dýrafjarðarganga, en í framhaldi af því er gert ráð fyrir vinnu við heilsársveg um Dynjandiheiði. Vestfjarðaleiðin verður formlega opnuð samhliða Dýrafjarðargöngum, sem reiknað er með að opni um miðjan september þessa árs.