Vestfjarðalistinn kveður sér hljóðs
„Þegar umræður standa sem hæst um landsins gagn og nauðsynjar viljum við undirritaðir blanda okkur lítillega í þær og benda á nokkur atriði til umhugsunar fyrir Vestfirðinga og vini þeirra, ekki síst þá sem eru að bjóða sig fram til þjónustu. Vestfirðingar berjast nú fyrir tilveru sinni. Ef þeir standa saman, þá stenst ekkert fyrir þeim heima fyrir. Þeir eru þar sjálfir í lykilstöðu. Svo einfalt er það. Okkur finnst að grundvöllurinn sé að Vestfirðingar fái að bjarga sér sjálfir. Við erum ekki að heimta auknar fjárveitingar úr ríkissjóði, en bendum á að stjórnvöld þurfa að búa nokkuð í haginn með markvissari hætti en verið hefur um sinn.“
Þannig hljóðar inngangur að hugvekju eða herhvöt, sem nokkrir Vestfirðingar hafa sent frá sér undir nafni „Vestfjarðalistans“ núna þegar kosningar til Alþingis fara í hönd. Brýning þessi er ekki síst ætluð frambjóðendum og væntanlegum þingmönnum þó að henni sé jafnframt beint til Vestfirðinga sjálfra.
Í þessari stefnuskrá Vestfjarðalistans, ef svo má kalla, er bæði fjallað um vestfirsk málefni og það sem á fólki brennur á landsvísu. Meðal þess sem þar kemur fram eru tillögur um Vestfjarðasjóð og sérstakan Vestfjarðaráðherra. Yfir herhvöt Vestfjarðalistans svífur andi Jóns forseta frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Að ósk þeirra sem að honum standa fylgir hér mynd af Jóni og textann undir henni sömdu þeir.
Herhvötina, hugleiðingarnar eða stefnuskrána eða hvað svo sem ætti að kalla þetta plagg Vestfjarðalistans má lesa hér og líka undir Sjónarmið - Hvaða ráð eru til viðreisnar á Vestfjörðum? í valmyndinni vinstra megin.