Tenglar

25. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Vestfjarðalistinn með fjóra menn 2017?

Þær fréttir berast úr Dýrafirði, þar sem höfuðstöðvar svokallaðs Vestfjarðalista eru, að listinn telji sig nokkuð öruggan með fjóra menn inn í Alþingiskosningunum 2017. Þar sem baráttumál Vestfjarðalistans hafa vakið nokkra athygli var slegið á þráðinn til Hallgríms Sveinssonar, sem er í senn bátsmaður og léttadrengur listans. - Er þetta ekki bara einhver della, Hallgrímur?

 

Það er nú síður en svo. Í fréttum Stöðvar 2 um daginn, þar sem Spaugstofan er til húsa um þessar mundir, kom fram að Framsóknarflokkurinn væri nú kominn með 120% stuðning. Hluti af því væri svokallaður framvirkur stuðningur, á erlendu máli kallað ambivalence, sem gerði það að verkum að flokkurinn væri kominn með fjóra til fimm menn örugga inn í kosningunum 2017. Samkvæmt þessu lögmáli og kosningalögum að hluta má þá segja, samkvæmt hinum mikla framvirka stuðningi við Vestfjarðalistann, að við séum nokkuð öruggir með fjóra menn á landsvísu í kosningunum 2017.

 

- Hverju þakkar þú þennan mikla árangur, sem hvorki Capacent Gallup né Félagsvísindastofnun hafa mælt að því er séð verður?

 

Það eru auðvitað okkar góðu baráttumál sem hinir listarnir ýmist láta liggja í láginni eða hreyfa lítið sem ekki við.

 

- Eins og?

 

Ég nefni þessi svona í fljótheitum:

  • Bankaleyndin burt – Gjörbreytt Ísland. Þarf ekki að rökstyðja. Venjulegt fólk skilur þetta.
  • Ríkisjarðir sem ekki eru nýttar í dag verði leigðar til notkunar í ýmsu atvinnuskyni. Tækifærin blasa við öllum sem vilja sjá. Það á að opna landið fyrir fólkinu. Við segjum til dæmis að það séu hrein og klár forréttindi að fá að umgangast sauðkindina.
  • Við viljum stofna sjóð, Vestfjarðasjóðinn, með 20 milljarða króna stofnfé. Það eru eins og hverjir aðrir strætópeningar miðað við þau hundruð milljarða sem gæludýr bankanna vaða þar út og inn með á skítugum skónum í skjóli bankaleyndar. Lána svo heiðarlegu fólki þolinmóða peninga til sjálfshjálpar, ýmist verðtryggt eða óverðtryggt. Bannað verði að lána úr sjóðnum út á íbúðarhús lántaka.
  • Í dag virðist enginn hafa heildaryfirsýn yfir málefni Vestfjarða.Við stingum upp á að sérstakur Vestfjarðaráðherra, eða til vara Umboðsmaður Vestfjarða, fari með málefni Vestfirðinga meðan verið er að snúa vörn í sókn og koma í veg fyrir að örlög Hornstranda færist yfir fjórðunginn.
  • Alþingi: Stytta ræðutíma þingmanna miskunnarlaust og fækka þeim niður í 40 að minnsta kosti. Alþingismenn ættu að taka sér Vestfirðinginn Jón Sigurðsson til fyrirmyndar og læra af honum kurteisi, þinglega framkomu og vinnusemi.
  • Parkinson gamli sagði: „Ekkert samband er á milli vinnuafkasta og fjölda embættismanna.“ Í dag eru opinberir starfsmenn á þessu landi um 70.000 sé allt talið. Því fleiri embættismenn, þess lakari stjórnsýsla? Getur það verið, spyrjum við.
  • Hverjum var verið að borga, hve mikið og fyrir hvað? Sumir ganga um ríkiskassann eins og hann sé þeirra heimilisbudda. Þessu viljum við breyta og það strax.
  • Þeir sem eru svangir og eiga engan að. Velferðarráðherra verði gerður ábyrgur fyrir því að finna þetta fólk og veita því aðstoð.

 

Að lokum sagði Hallgrímur Sveinsson, bátsmaður listans, að þótt Vestfjarðalistinn sé ekki formlegt stjórnmálaafl enn sem komið er sé hann kominn til að vera. Hann muni ekki leggja upp laupana strax á sunnudaginn heldur berjast áfram fyrir hagsmunamálum Vestfirðinga og landsins alls.

 

17.04.2013 Vestfjarðalistinn: Hvaða ráð eru til viðreisnar á Vestfjörðum?

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29