Vestfjarðavegur: Suðurverk hefst þegar handa
Fulltrúar Vegagerðarinnar og Suðurverks hf. skrifuðu í dag undir samning um vegagerð á tæplega 16 km kafla Vestfjarðavegar nr. 60 (Eiði - Þverá). Suðurverk hefst þegar handa og má búast við að til starfsmanna sjáist á verkstað með tæki sín og tól eftir 10-14 daga. Prammi sem notaður verður við þveranir fjarða er nú þegar á leiðinni frá Noregi, en Suðurverk hefur lánað hann til verka þar.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Núverandi vegur á þessari leið er 24 km malarvegur. Nýlögn verður 10 km en 8 km stytting verður vegna þverunar tveggja fjarða, Kjálkafjarðar og Mjóafjarðar, sem er innfjörður Kerlingarfjarðar. Verkið verður unnið á þremur árum. Vegagerð þessi er að langmestu leyti innan Reykhólahrepps.
Suðurverk átti næstlægsta boð í verkið en lægstbjóðandi stóðst ekki kröfur Vegagerðarinnar til verks af þessari gerð. Suðurverk bauð tæplega 2,5 milljarða króna en áætlaður verktakakostnaður var tæpir 2,6 milljarðar króna. Verktakakostnaður er sem endranær aðeins hluti kostnaður við verkið. Heildarkostnaður er talinn verða um 3 milljarðar króna.
► 12. apríl 2012 Vegagerðin metur Ingileif ekki hæfan til verksins