Tenglar

16. maí 2012 |

Vestri býður til söngveislu á Reykhólum

Karlakórinn Vestri.
Karlakórinn Vestri.

Karlakórinn Vestri í Vestur-Barðastrandarsýslu kemur í heimsókn á Reykhóla á morgun, uppstigningardag (fimmtudag 17. maí). Kórinn býður öllum sem áhuga hafa, hvort heldur er fólki í Reykhólahreppi, á Ströndum, í Dalabyggð eða öðrum, á tónleika í íþróttahúsinu á Reykhólum, þannig að aðgangur er ókeypis. Systurnar Maria Jolanta (Mariola) og Elzbieta Anna Kowalczyk hafa frá upphafi annast kórstjórn og undirleik hjá Vestra.

 

Tónleikarnir hefjast kl. 14.

 

Dagskrá kórsins er mjög fjölbreytt og úr ólíkustu áttum. Meðal höfunda laganna eru Sigfús Halldórsson, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Sigfús Einarsson, Jón Þórarinsson, Morley, Evert Taube og Bellman, auk þess sem nefna má negrasálm, Elvis-smell og erlend þjóðlög. Fyrir utan kórsöng verða á dagskránni einsöngur og dúett.

 

Karlakórinn Vestri er rétt fjögurra ára gamall, stofnaður 1. maí 2008 á Bjargtöngum, vestasta odda Evrópu.

 

Systurnar Elzbieta og Mariola Kowalczyk eru pólskar að uppruna en hafa verið búsettar á Vestfjarðakjálkanum og starfað þar að tónlist hátt í tvo áratugi. Þær fluttust til Íslands árið 1994 og settust að á Hólmavík. Árið 2000 fluttust þær á norðursvæðið og störfuðu á Ísafirði og í Bolungarvík en fóru síðan til Patreksfjarðar í árslok 2007. Á öllum þessum stöðum hafa þær gegnt tónlistarkennslu og skólastjórn, stjórnað ýmsum kórum og iðkað tónlist á fleiri vegu.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31