Vesturferðir selja ferðaþjónustu um alla Vestfirði
Engar tímamótaákvarðanir voru teknar á aðalfundi ferðaskrifstofunnar Vesturferða í Bjarkalundi í Reykhólasveit núna um helgina eftir miklar hræringar á síðasta ári. „Við ætlum okkur einfaldlega að standa við þau fyrirheit sem gefin voru við breytt eignarhald - að selja ferðaþjónustu á öllum Vestfjarðakjálkanum,“ segir Guðmundur Helgi Helgason á Núpi í Dýrafirði, stjórnarformaður Vesturferða.
Yfir sextíu ferðaþjónar á Vestfjarðakjálkanum eru nú meðal eigenda Vesturferða eftir róttækar breytingar á eignarhaldi á síðasta ári. Þá um vorið keyptu Ferðamálasamtök Vestfjarða 70% hlut í skrifstofunni af Hótel Ísafirði og Flugfélagi Íslands. Samtökin ákváðu svo að selja 45% af eignarhlut sínum til ferðaþjóna og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Ferðamálasamtök Vestfjarða eru nú stærsti einstaki hluthafinn í Vesturferðum með fjórðungshlut og sá eini sem á meira en tíu prósent. Reykhólahreppur keypti á síðasta hausti 100 þúsund króna hlut í Vesturferðum.
Nokkrar breytingar urðu á stjórn Vesturferða á aðalfundinum um helgina. Hana skipa nú Guðmundur Helgi Helgason, Núpi í Dýrafirði, Arinbjörn Bernharðsson, Norðurfirði á Ströndum, Ingi Þór Jónsson frá Flugfélagi Íslands, Jón Þórðarson á Bíldudal og Keran Stueland Ólason í Breiðavík. Varamenn eru Harpa Eiríksdóttir í Reykhólasveit og Birna Mjöll Atladóttir í Breiðavík.
Í vetur var Nancy Bechtloff ráðin framkvæmdastjóri Vesturferða.
Sjá nánar:
► Reykhólahreppur kaupir hlut í Vesturferðum (Reykhólavefurinn 24. september 2011)
► Framkvæmdastjóri Vesturferða ráðinn til bráðabirgða (Reykhólavefurinn 31. ágúst 2011)
► Sameiginleg sölusíða allra ferðaþjóna á Vestfjörðum? (Reykhólavefurinn 18. ágúst 2011)
► Vestfirsk ferðaskrifstofa með dreifðri eignaraðild? (Reykhólavefurinn 25. mars 2011)