Vetrarstarfið í Reykhólaprestakalli að hefjast
Sunnudagaskólinn í Reykhólakirkju verður í fyrsta sinn á þessu hausti kl. 11 á morgun, sunnudag, og verður síðan annan hvern sunnudag í vetur. Þar verður sitt af hverju í boði, svo sem bíósunnudagaskóli, bangsasunnudagaskóli og náttfatasunnudagaskóli. „Lofa miklu fjöri og skemmtilegheitum, hlakka til að sjá sem flesta,“ segir sr. Hildur Björk Hörpudóttir sóknarprestur. Æskulýðsfélagið byrjar síðan starfsemi sína í Reykhólakirkju á þriðjudagskvöldið.
Sitthvað fleira af ýmsu tagi verður á dagskránni hjá sr. Hildi Björk í vetur og má sérstaklega nefna kirkjubrallið, þar sem óskað er eftir sjálfboðaliðum. Kóræfingar verða á þriggja vikna fresti og leitað er eftir fleira söngfólki í hópinn.
Á vef Reykhólaprestakalls gerir sr. Hildur Björk nánari grein fyrir starfinu í vetur.