Tenglar

5. maí 2008 |

„Við búum í sveitarfélagi með bjarta framtíð ...“

Hluti fundargesta í matsal Reykhólaskóla.
Hluti fundargesta í matsal Reykhólaskóla.
1 af 4

„Ég tel að þjónustustig í Reykhólahreppi sé mjög gott miðað við stærð", sagði Gústaf Jökull Ólafsson oddviti á almennum borgarafundi í Reykhólaskóla í kvöld. Efnt var til fundarins til kynningar á málefnum sveitarfélagsins og sátu hann yfir tuttugu manns auk hreppsnefndar og sveitarstjóra. Í framsögu fór oddviti yfir hinn fjölþætta rekstur sem þetta fámenna og dreifbyggða sveitarfélag hefur með höndum, en þar má einkum nefna leikskóla, grunnskóla, sundlaug, íþróttahús, félagsþjónustu, hjúkrunar- og dvalarheimili og höfn.

 

Fram kom í máli oddvita, að í sumar verða Grettiströð og Reykjabraut klæddar með olíumöl, Hellisbraut löguð og lagt bundið slitlag á botnlanga. Enn er óvíst með Hólatröð í sumar. Einnig stendur til að byrja á að klæða afleggjara heim að sveitabæjum. Það verkefni mun þó taka nokkur ár.

 

Í eldhúsi Reykhólaskóla á að endurnýja aðstöðu og tæki til uppþvotta. Ætlunin er að skipta út heitu pottunum við Grettislaug jafnframt árlegu viðhaldi.

 

Leikskólinn Hólabær býr við ófullnægjandi húsnæði og hafa hönnuðir verið fengnir til að gera tillögur um úrbætur, annað hvort með viðbyggingu eða nýbyggingu. Sömu hönnuðir munu einnig skoða húsnæðismál bókasafnsins, sem þarfnast úrbóta.

 

„Hvað varðar fjárhagsstöðu Reykhólahrepps tel ég að hún sé viðunandi, ekki síst að teknu tilliti til þess að ýmislegt hefur verið gert undanfarin ár. Má þar meðal annars nefna byggingu íþróttahússins og lagningu kaldavatnslagnar niður í Þörungaverksmiðju og út á bryggju", sagði Gústaf Jökull. „Það er skoðun mín að við búum í sveitarfélagi með bjarta framtíð. Hér er gott að búa og sést það best á því, að ungt fólk er farið að koma heim aftur til að styrkja innviði samfélagsins."

 

Að lokinni framsögu oddvita svöruðu hann og Óskar Steingrímsson sveitarstjóri og aðrir hreppsnefndarmenn fyrirspurnum fundargesta um hin ólíkustu mál. Ekki síst var rætt um skort á íbúðarhúsnæði, sem stendur Reykhólaþorpi nokkuð fyrir þrifum. Einnig var nokkuð rætt um ásýnd sveitarfélagsins hvað snyrtimennsku varðar.

 

Fundurinn stóð hátt í tvo tíma en eftir að honum var slitið hélt fólk áfram að ræða hreppsins gagn og nauðsynjar.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31