Viðhorf Vestfirðinga til ferðaþjónustunnar kannað
Um þessar mundir er verið að kanna viðhorf Vestfirðinga til ferðaþjónustunnar í þessum landshluta. Markmiðið er að fá að vita hvort heimamenn séu ánægðir með uppbyggingu ferðaþjónustunnar, hvort þeir vilji leggja meiri áherslu á ferðaþjónustu sem atvinnugrein á Vestfjörðum eða hvort þeir vilji leggja áherslu á einhverjar aðrar atvinnugreinar. Spurningarnar voru sendar til þúsund Vestfirðinga eða nánast á annað eða þriðja hvert heimili að jafnaði. Að sögn Írisar Hrundar Halldórsdóttur, sem vinnur könnunina ásamt Öldu Davíðsdóttur fyrir Rannsókna- og fræðasetur HÍ á Vestfjörðum, hefur ekki borist nóg af svörum og hefur skilafrestur því verið lengdur til 30. nóvember. Íris hvetur þá sem lentu í úrtakinu að skila inn svörunum.
Frá þessu er greint á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.