Viðurkenningar á Reykhóladögum 2016
Það nýmæli var á Reykhóladögum að þessu sinni að velja sveitunga ársins, eins og það kallaðist fyrst þegar hugmyndin kom upp. Niðurstaðan varð síðan sú, að bæði Ingibjörg Kristjánsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hlynur Þór Magnússon sagnfræðingur hlutu útnefninguna „Íbúi ársins 2016“ og fallega bikara til staðfestingar. Í áletrun hjá Ingibjörgu segir að viðurkenningin sé fyrir ævistarfið en hjá Hlyni að hún sé fyrir framtak í þágu sveitarfélagsins á undanförnum árum.
Ingibjörg Kristjánsdóttir kom haustið 1973 til starfa sem héraðshjúkrunarkona, eins og það hét þá, rétt að verða 23 ára. Hún bjó allan sinn búskap í Garpsdal við Gilsfjörð ásamt Hafliða Ólafssyni eiginmanni sínum, eða þangað til þau brugðu búi og fluttu sig um set í Króksfjarðarnes núna fyrir stuttu. Þrátt fyrir það verður hún trúlega áfram Ingibjörg í Garpsdal í huga og munni héraðsfólks, eins og alla tíð hefur verið.
Þegar sú hugmynd kom upp að byggja dvalarheimili á Reykhólum, sem tekið var í notkun vorið 1988 og hlaut nafnið Barmahlíð, var Ingibjörg með í þeim ráðagerðum frá upphafi. Árið eftir, þegar María Björk Reynisdóttir hjúkrunarforstjóri fór í barneignarleyfi leysti Ingibjörg hana af og tók nokkru síðar við starfinu og gegndi því í nokkur ár. Aftur leysti hún þar af sem hjúkrunarforstjóri um tíma kringum árið 2000. Þessu gegndi hún jafnframt heilsugæslustarfinu í héraðinu. Hjúkrunarforstjóri Heilsugæslustöðvar Búðardals var Ingibjörg í nokkur ár fyrir og um miðjan síðasta áratug. Frá sumri 2006 og þangað til síðla árs 2011 var hún hjúkrunarforstjóri í Silfurtúni í Búðardal.
Öll þessi ár var Ingibjörg á sólarhringsvakt í héraðinu og reyndar allt fram á þennan dag hefur hún verið boðin og búin til liðsinnis hvar og hvenær sem er, sama hvort hún hefur verið í launuðu starfi eða ekki. Ekki aðeins sú hjúkrun og bráðahjálp sem hún hefur veitt ótalmörgum á liðnum áratugum, heldur kannski ekki síður það öryggi að vita af henni reiðubúinni hvenær sem er þegar mikið lægi við, hefur verið héraðsfólki ómetanlegt.
„Án Hafliða mannsins míns hefði ég ekki getað sitt starfi mínu eins vel. Hann hefur verið mín stoð og stytta í öllu og fór til dæmis með mér í fjölmörg útköll,“ segir Ingibjörg.
Hlynur Þór Magnússon kom við á Reykhólum 2006 á leiðinni suður eftir tveggja áratuga dvöl á Ísafirði. Þar hafði hann annast jöfnum höndum kennslu við menntaskólann, einkum íslenskukennslu, og blaðamennsku og ritstjórn. Einar Örn Thorlacius þáverandi sveitarstjóri hér spurði hvort hann væri ekki til í að annast Hlunnindasýninguna og Upplýsingamiðstöð ferðafólks á Reykhólum þá um sumarið, og það varð úr. Þegar Hlynur fór vestur á Ísafjörð til að kenna var ekki ætlun hans að vera þar nema eitt ár. Á sama hátt er sumarið eina á Reykhólum orðið áratugur.
Vorið 2008 tók Hlynur að sér umsjón með vef Reykhólahrepps, sem í daglegu tali er kallaður Reykhólavefurinn. Hann tók það upp hjá sjálfum sér að reyna að gera í því efni heldur meira en til var ætlast með venjulegan sveitarfélagsvef. Hann hafði orðið þess áskynja að fólk í öðrum landshlutum vissi iðulega furðulítið um lífið og starfið í þessu fagra héraði og margir vissu ekki einu sinni að á Reykhólum væri myndarlegt þorp.
Hlynur ákvað að nota Reykhólavefinn til þess að koma héraðinu og þorpinu „betur á kortið“ með nokkuð öflugri fréttaflutningi en almennt tíðkast á vefjum sveitarfélaga. Sjálfur vill hann ekki dæma hvernig til hafi tekist, en tölurnar segja sitt. Auk efnis sem varðar starf sveitarfélagsins, svo sem fundargerða, tilkynninga og annarra gagna sem birta skal á slíkum vef, þá eru fréttir í almennum fréttadálki komnar nokkuð á sjötta þúsund, auk aðsends efnis og ýmiss fróðleiks. Innlit á vefinn á dag eru orðin að meðaltali nánast tvöfaldur íbúafjöldi Reykhólahrepps, mikill meirihluti frá fólki utan héraðsins.
Á myndunum sem hér fylgja eru þau Ingibjörg og Hlynur og bikararnir. Tilkynnt var um útnefningarnar í mannfagnaði á Reykhóladögum og þá tók Ingibjörg við sínum grip. Hins vegar misfórst að taka mynd við það tækifæri. Núna er Ingibjörg á ferðalagi og þess vegna er hér mynd af henni þar sem mynd af bikarnum hefur verið skeytt inn. Þau Vilberg Þráinsson oddviti sveitarstjórnar Reykhólahrepps og Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri heimsóttu svo Hlyn og færðu honum hans bikar.
Nokkru fyrir Reykhóladaga óskaði Jóhanna Ösp Einarsdóttir umsjónarmaður hátíðarinnar eftir tilnefningum um sveitunga ársins ásamt rökstuðningi. Dómnefnd skipuð lykilfólki á ýmsum sviðum samfélagsins í Reykhólahreppi fór síðan yfir tilnefningarnar og var einróma í vali sínu.
Dæmi um tilnefningar sem bárust, tvær í hvoru tilviki:
- Okkur langar til að tilnefna Ingibjörgu í Garpsdal sem sveitunga ársins, en hún hefur á allri sinni starfsævi hjálpað svo mörgum, bæði sveitungum og öðrum. Hún var alltaf tilbúin að koma, sama hverjar aðstæður væru, og á hún okkar bestu þakkir fyrir það sem hún hefur gert fyrir okkar fjölskyldu.
- Mér finnst við hæfi að tilnefna besta hjúkrunarfræðinginn okkar hana Ingibjörgu Kristjánsdóttur sem bjó lengst af í Garpsdal. Enga veit ég óeigingjarnari en hana, alltaf var hún reiðubúin að koma og aðstoða, sama hvenær sólarhringsins var. Hún veitti okkur íbúum Reykhólahrepps ómetanlegt öryggi.
- Ég tilnefni Hlyn vefstjóra sem íbúa ársins fyrir frábæran vef. Held að þessi vefur sé mjög framarlega og jafnvel besti vefurinn í litlu bæjarfélögunum. Hef heyrt fólk tala um að það hafi aldrei vitað af svo góðum vef í svona litlu krummaskuði.
- Hann hefur borið hróður sveitarinnar lengra en aðrir, með elju sinni við umsjón Reykhólavefsins.
– Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri.
Sólrún Ósk Gestsdóttir, mnudagur 01 gst kl: 13:47
Til hamingju með að hafa valið frábærustu manneskju sem ég hef nokkru sinni hitt og átt samskipti við.
Ingibjörg hefur hjálpað og bjargað svo mörgum mannslífum, og er eitt af mínum börnum þar með talið.
Sama hvernig veður var og færð. (Fólk sem ekki hefur upplifað snarvitlaust veður í sveitinni getur ekki gert sér það í hugarlund). Alltaf mætti hún og Hafliði með í verstu veðrunum.
Hlyn þekki ég minna en er samt ástæða þess að ég sé þessar fréttir alltaf og nýt þess að fylgjast með.
Til hamingju með útnefninguna Ingibjörg og Hlynur.