Viðvörun vegna ferða um hálendið
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum vill koma því á framfæri við ökumenn sem hyggjast ferðast um hálendið, að þeir taki tillit til þess að snjó er farið að leysa og frost að fara úr jörðu. Vakin er athygli á því að bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vegar í náttúru Íslands. Þó er heimilt að aka þeim á jöklum, svo og snævi þakinni og frosinni jörð, svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.
Sumarvegir um hálendið með lélegu slitlagi eru ekki undanþegnir þessu. Verulegar skemmdir geta orðið á þeim þegar hlýnar en klaki er enn í jörð. Síðast í gærkvöldi bárust fréttir af því að björgunarsveit hefði sótt fólk sem festi bíl sinn í snjó og drullu á Uxahryggjaleið syðra. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram á korti hvaða leiðir eru lokaðar fyrir umferð.