Tenglar

14. apríl 2011 |

Vikulöng Jörfagleði hafin í Dalabyggð

Leikið var á langspil á gleðifundum fyrri tíða og dansað uns dagur rann.
Leikið var á langspil á gleðifundum fyrri tíða og dansað uns dagur rann.
Jörfagleði Dalamanna hófst í gær með tónleikum Megasar, Rúnars Þórs og Gylfa Ægissonar. Þétt og fjölbreytt dagskrá stendur allt fram á miðvikudag þar sem ótalmargt er til skemmtunar og menningarauka. Jörfagleði á fyrri tíð var vinsæl hjá almenningi en geistleg og veraldleg yfirvöld höfðu á henni illan bifur vegna siðleysis og þar kom að hún var bönnuð. Nú eru aðrir tímar. Svo merkilegt sem það er í ljósi sögunnar, þá var sjálfur sýslumaður Dalamanna helsti hvatamaður þess að Jörfagleði var endurvakin.

 

Dagskrá Jörfagleði 2011 er að finna hér á vef Dalabyggðar.

 

 

Jörfagleði fyrr og nú

 

Jörfagleðin er kennd við Jörfa í Haukadal í Dalasýslu. Þar var um árabil kringum aldamótin 1700 haldinn árlegur vikivakadansleikur um jólin. Fólk kom víða að og fór í ýmsa leiki og dansað var í baðstofunni á Jörfa. Skemmtanir þessar voru vinsælar meðal almennings en guðsmenn og sýslumenn höfðu á þeim illan bifur vegna siðleysis sem þeir töldu iðkað. Dansinn í Hruna syðra mun hafa verið af svipuðum toga. Þar var gleðskapurinn haldinn í sjálfri kirkjunni og endaði með því að jörðin gleypti hana og gestina með.

 

Sagt var að mikið hefði verið um barnsfæðingar í Dölum og næstu héruðum níu mánuðum eftir hverja Jörfagleði og stundum erfitt að feðra börnin með vissu. Á síðustu Jörfagleðinni sem haldin var á fyrri tíð munu nítján börn hafa komið undir, aðrar heimildir segja þrjátíu. Ekki síst var góðbændum þyrnir í augum þegar vinnukonur þeirra voru barnaðar. Svo fór að sýslumenn unnu fullnaðarsigur í baráttu sinni gegn þessum ósóma og Jörfagleðin var bönnuð með öllu.

 

Það var ekki fyrr en á dögum Péturs Þorsteinssonar sýslumanns í Dalasýslu fyrir fáeinum áratugum sem Jörfagleði var endurvakin - ekki síst með stuðningi og hvatningu sjálfs sýslumannsins, jafnvel að frumkvæði hans. Hvort með Jörfagleði nútímans verður eitthvað spornað við fólksfækkun í héraðinu, hvort afleiðingarnar verða í fyllingu tímans eins og fyrrum, skal ekki sagt neitt um. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30