Tenglar

6. janúar 2014 | vefstjori@reykholar.is

Vilhjálmur Sigurðsson fyrrum bóndi og oddviti látinn

Vilhjálmur Sigurðsson.
Vilhjálmur Sigurðsson.

Vilhjálmur Sigurðsson frá Straumi við Hafnarfjörð, fyrrum bóndi og oddviti á Miðjanesi í Reykhólasveit, andaðist 2. janúar, 81 árs að aldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur börn. Vilhjálmur og Halldóra Játvarðardóttir (Lóa á Miðjanesi) gengu í hjónaband í árslok 1963 og tóku árið eftir við búi á Miðjanesi af foreldrum Lóu. Börn þeirra eru Sigrún Rósa (f. 1964), Hjördís Dröfn (f. 1969) og Játvarður Valdimar (f. 1970). Fyrir átti Vilhjálmur soninn Hörð Vigni (f. 1958) með Sólbjörtu Kristjánsdóttur. Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Sunna Guðmundsdóttir. Þau voru búsett í Hveragerði.

 

Vilhjálmur var oddviti Reykhólahrepps 1978-1986 en hafði áður átt sæti í hreppsnefnd. Hann starfaði í félögum af ýmsu tagi, nefndum og ráðum, og var áhugasamur og dugmikill varðandi málefni héraðsins eins og hvarvetna þar sem hann kom við sögu í félagsmálum.

 

Bóndi í Reykhólahreppi sem var barn að aldri þegar Vilhjálmur kom í héraðið minnist þess hve hugsunarsamur og nærgætinn þessi ókunnugi maður var og áhugasamur að spyrja og spjalla í rólegheitum um heima og geima. Þannig hafi hann verið gagnvart öllum, látið sig málefni náungans varða og látið sér fátt mannlegt óviðkomandi.

 

Vilhjálmur og Lóa bjuggu saman á Miðjanesi fram um miðjan tíunda áratuginn þegar leiðir þeirra skildust. Hann fluttist suður en Lóa býr enn búi sínu á Miðjanesi.

 

Áður en Vilhjálmur settist að í Reykhólasveit var hann sjómaður og bílstjóri syðra. Ásamt búskapnum á Miðjanesi vann hann í Þörungavinnslunni á Reykhólum í nokkur ár upp úr 1980. Frá 1987 og þangað til hann fluttist úr héraðinu var hann bílstjóri hjá Kaupfélagi Króksfjarðar. Eftir það ók hann strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu.

 

Vilhjálmur heitinn verður jarðsunginn í Garðakirkju þriðjudaginn 14. janúar kl. 13.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30