Vilja að Flatey fari undir Stykkishólm
Flateyingar hafa óskað eftir því að stjórnsýsla eyjarinnar verði færð frá Vestfjörðum yfir á Snæfellsnes og að hún verði hluti af Stykkishólmsbæ. Núna heyrir Flatey eins og allur Flateyjarhreppur hinn gamli undir Reykhólahrepp. Flatey er eina eyjan á Breiðafirði sem nú er með fasta búsetu allt árið. Enda þótt hún sé hluti Reykhólahrepps liggja einu samgöngurnar um Stykkishólm og Brjánslæk með ferjunni Baldri, sem jafnan kemur við í Flatey í ferðum sínum yfir Breiðafjörð.
Fyrir rúmri öld bjuggu yfir 400 manns í Flateyjarhreppi*), þar af yfir tvö hundruð í sjálfri Flatey, en í dag eru sjö manns með lögheimili í eynni. Yfir sumartímann dvelja þó að jafnaði yfir eitt hundrað manns í Flatey í 35 húsum, sem teljast íbúðarhæf.
Ofanritað kom fram í frétt Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð 2 í kvöld.
*) Í fréttinni þar varð sú missögn, að fyrir rúmri öld hefðu yfir 400 manns búið í Flatey. Þetta hefur verið leiðrétt í textafrétt á visir.is, sbr. ofanritað, en á þeim tíma var eitthvað um helmingur íbúa Flateyjarhrepps búsettur í Flatey. Aðrir voru búsettir í ýmsum eyjum á Breiðafirði, þar á meðal oddviti Flateyjarhrepps þegar hann var fjölmennastur, Guðmundur Jóhannesson bóndi í Skáleyjum.
Fram kemur í fréttinni, að Flateyingar hafi í fyrravetur komið ósk sinni um flutning stjórnsýslunnar á framfæri við forsvarsmenn Stykkishólmsbæjar. Hins vegar hefur formlegt erindi varðandi þetta ekki borist Reykhólahreppi.
► Hér má lesa og sjá og heyra frétt Kristjáns Más Unnarssonar á Stöð 2, þar sem m.a. er rætt við Magnús Jónsson í Flatey og Ingibjörgu Birnu Erlingsdóttur, sveitarstjóra Reykhólahrepps.
Sjá einnig:
► 17. maí 2015 Kynnisferð sveitarstjórnar út í Flatey á Breiðafirði