Vilja endurbætur á Vestfjarðavegi sem fyrst
Reykhólahreppur vinnur nú að því að ljúka allri skipulags- og umhverfismatsvinnu vegna legu Vestfjarðavegar (60) svo hægt verði að koma góðu og greiðu vegasambandi á um sunnanverða Vestfirði hið fyrsta. Verið er að skoða tvo legukosti sem báðir þykja raunhæfir, annars vegar láglendisveg um Reykhóla með um 800 m langri brú yfir Þorskafjörð og hins vegar veg yfir Teigsskóg og áfram um fjarðarmynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar.
Miklar kröfur eru gerðar til stjórnsýslu sveitarfélaga í málum sem þessum, eins og sjá mátti í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á dögunum vegna framkvæmdaleyfa um fiskeldi á Vestfjörðum sem ekki þóttu byggja á nægilega góðri kostagreiningu. Sveitarstjórn er því mikið í mun að vanda vel til verka, svo að hún verði ekki gerð afturreka með ákvörðun sína, afgreiðslu í skipulagsmálum og framkvæmdaleyfi.
Reykhólahreppur hefur notið góðrar leiðsagnar Skipulagsstofnunar um málsmeðferð. Það skref sem Reykhólahreppur er að vinna að núna, er að ganga frá þeim legukosti sem Reykhólahreppur velur í aðalskipulagi Reykhólahrepps. Nú er því verið að vinna svokallaða valkostaskýrslu, þar sem óháður aðili hefur verið fenginn til að útbúa samanburðarhæft yfirlit um vegkostina tvo;
-kostnað vegna byggingar þeirra,
-öryggismál m.t.t. öryggis vegfarenda,
-umhverfisáhrif,
-samfélagsáhrif m.a. á Reykhóla.
Gert er ráð fyrir að valkostaskýrslunni verði skilað innan þriggja vikna, háð því þó hvenær Vegagerðin skilar niðurstöðum úr fjölgeislamælingum sem fram þurfa að fara áður, til að hægt sé að meta nánar umfang efnistöku og verð á brúarkosti.
Þegar valkostaskýrslan liggur fyrir getur Reykhólahreppur ákveðið endanlega hvort vegur um Reykhóla eða Teigsskóg verður fyrir valinu. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir verður tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps auglýst.
Verði Reykhólakosturinn fyrir valinu, má skv. upplýsingum frá Skipulagsstofnun gera má ráð fyrir því að ferlið við umhverfis- og skipulagsmálin gæti hugsanlega seinkað veglagningu um 0,5 til 1 ár miðað við Teigsskógarleiðina, án þess að mögulegar kærur séu teknar með í reikninginn.
Ekkert er þó því til fyrirstöðu að Vegagerðin geti hafist handa nú þegar við lagfæringar á veginum um Ódrjúgsháls, Brekkubarm og Gufudal, þar sem sú vegalagning mun nýtast alveg óháð þeim kosti sem fyrir valinu verður.
Tryggvi Harðarson,
sveitarstjóri Reykhólahrepps
Jón Atli Játvarðarson, rijudagur 20 nvember kl: 22:53
Gott að vita að verið er að vinna í málinu. Þó kemur nokkuð á óvart síðasti hluti fréttarinnar um Odrjúgshálsinn og Brekkubarminn. Sá hluti vegarins núna nýtist aðeins við R leiðina, ef ég skil þetta rétt. Þ-H leiðinni fylgdi veglagning austanvert í Djúpafirði fyrir vegsamband í Djúpadal. Þessar síðustu tvær línur í fréttinni eru því miðað við það sterkar vísbendingar um að fara eigi R leið. En spenningurinn eykst og Vesturbyggð og Tálknafjörður fá sitt vegsamband.