Tenglar

20. nóvember 2018 | Sveinn Ragnarsson

Vilja endurbætur á Vestfjarðavegi sem fyrst

Þessi mynd var tekin síðastliðinn föstudag, 16.11.2018, þegar Vegagerðin fundaði með Reykhólahr. og Multiconsult til að fara yfir stöðu mála.
Þessi mynd var tekin síðastliðinn föstudag, 16.11.2018, þegar Vegagerðin fundaði með Reykhólahr. og Multiconsult til að fara yfir stöðu mála.
1 af 2

Reykhólahreppur vinnur nú að því að ljúka allri skipulags- og umhverfismatsvinnu vegna legu Vestfjarðavegar (60) svo hægt verði að koma góðu og greiðu vegasambandi á um sunnanverða Vestfirði hið fyrsta. Verið er að skoða tvo legukosti sem báðir þykja raunhæfir, annars vegar láglendisveg um Reykhóla með um 800 m langri brú yfir Þorskafjörð og hins vegar veg yfir Teigsskóg og áfram um fjarðarmynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar. 

 

Miklar kröfur eru gerðar til stjórnsýslu sveitarfélaga  í málum sem þessum, eins og sjá mátti í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á dögunum vegna framkvæmdaleyfa um fiskeldi á Vestfjörðum sem ekki þóttu byggja á nægilega góðri kostagreiningu. Sveitarstjórn er því mikið í mun að vanda vel til verka, svo að hún verði ekki gerð afturreka með ákvörðun sína, afgreiðslu í skipulagsmálum og framkvæmdaleyfi. 

 

Reykhólahreppur hefur notið góðrar leiðsagnar Skipulagsstofnunar um málsmeðferð. Það skref sem Reykhólahreppur er að vinna að núna, er að ganga frá þeim legukosti sem Reykhólahreppur velur í aðalskipulagi Reykhólahrepps. Nú er því verið að vinna svokallaða valkostaskýrslu, þar sem óháður aðili hefur verið fenginn til að útbúa samanburðarhæft yfirlit um vegkostina tvo;

-kostnað vegna byggingar þeirra,

-öryggismál m.t.t. öryggis vegfarenda,

-umhverfisáhrif,

-samfélagsáhrif m.a. á Reykhóla.

 

Gert er ráð fyrir að valkostaskýrslunni verði skilað innan þriggja vikna, háð því þó hvenær Vegagerðin skilar niðurstöðum úr fjölgeislamælingum sem fram þurfa að fara áður, til að hægt sé að meta nánar umfang efnistöku og verð á brúarkosti.  

 

Þegar valkostaskýrslan liggur fyrir getur Reykhólahreppur ákveðið endanlega hvort vegur um Reykhóla eða Teigsskóg verður fyrir valinu. Þegar sú ákvörðun liggur fyrir verður tillaga að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps auglýst.

 

Verði Reykhólakosturinn fyrir valinu, má skv. upplýsingum frá Skipulagsstofnun gera má ráð fyrir því að ferlið við umhverfis- og skipulagsmálin gæti hugsanlega seinkað veglagningu um 0,5 til 1 ár miðað við Teigsskógarleiðina, án þess að mögulegar kærur séu teknar með í reikninginn.

 

Ekkert er þó því til fyrirstöðu að Vegagerðin geti hafist handa nú þegar við lagfæringar á veginum um Ódrjúgsháls, Brekkubarm og Gufudal, þar sem sú vegalagning mun nýtast alveg óháð þeim kosti sem fyrir valinu verður.

 

Tryggvi Harðarson,

sveitarstjóri Reykhólahrepps

Athugasemdir

Jón Atli Játvarðarson, rijudagur 20 nvember kl: 22:53

Gott að vita að verið er að vinna í málinu. Þó kemur nokkuð á óvart síðasti hluti fréttarinnar um Odrjúgshálsinn og Brekkubarminn. Sá hluti vegarins núna nýtist aðeins við R leiðina, ef ég skil þetta rétt. Þ-H leiðinni fylgdi veglagning austanvert í Djúpafirði fyrir vegsamband í Djúpadal. Þessar síðustu tvær línur í fréttinni eru því miðað við það sterkar vísbendingar um að fara eigi R leið. En spenningurinn eykst og Vesturbyggð og Tálknafjörður fá sitt vegsamband.

Leifur, mivikudagur 21 nvember kl: 08:03

Ėg hėlt að allar leiðir hefðu átt að fara í valkostagreyningu.
Og við íbúar í Djúpadal eigum aldrei eftir að sætta okkur við afleggjara vestur undir Skálanes, frekar viljum við nota Hjallaháls áfram heldur en að fara Ódrugsháls og snjóflóðasvæðið í brekkubarminum.

Guðný, mivikudagur 21 nvember kl: 17:19

Á Reykhólahreppur einn að ráða því hvaða leið verður valin? Hvað með okkur á sunnaverðum fjörðunum?

Helgi Jensson, mivikudagur 21 nvember kl: 21:20

Það vekur athygli mína að í fréttinni hér fyrir ofan er talað um að óháður aðili eigi að gera valkostagreiningu, en í bréfi Sveitarstjórnar til Vegagerðarinnar er sagt að Multiconsult eigi að gera það ásamt sveitarfélaginu. Multoconsult getur varla talist óháður aðili í þessu ferli.
Mér finnst einkennilegt að krafist er að þriðji aðili framkvæmi mælingar og athuganir svo einhver annar geti gert sína vinnu. Er ekki eðlilegt að sá sem telur sig vanta upplýsingar afli þeirra sjálfur á sinn kostnað?
Þó að það sé áhugavert að kostnaðaráætlun sé brotin niður í smærri þætti, þá er það óvirðing við þá sem málið varðar að bera ekki saman kostnað vegna heildar uppbyggingar vegarins á því formi að hann uppfylli staðla og öryggiskröfur. Það að búta niður framkvæmdina lyktar af því að verið sé að reyna að komast hjá heildstæðu umhverfismati á allri leiðinni strax í byrjun, þó svo að ljóst megi vera að slíkrar uppbyggingar verði krafist fyrr en seinna. Slíkt framferði er lítisvirðing við þá sem hafa hagsmuna að gæta varðandi legu vegarins.

Asgeir, laugardagur 24 nvember kl: 20:08

Er ekki kominn timi á að Reykhólahreppur fari að skammast sýn fyrir ofríki í þessu. Ef um umhvefis sjóna mið er í gangi þá skulum við ræða um þörungarvinsluna sem skefur upp alla fyrði og borgar ekkert fyrir. Nú skal þessi umræða fara í farveg.

Halldór Holt, sunnudagur 25 nvember kl: 18:49

alveg er það með eindæmum að nokkrir þverhausar geti staðið í vegi fyrir framförum í vegagerð og samgöngubótum heils landsfjórðungs, fyrir löngu síðan kominn tími á vitræna stjórnun í svona málum í stað þessara frumbyggja aðferða sem skila nákvæmlega ekki neinu nema pirringi.

Olafur Bjarni Halldorsson, sunnudagur 25 nvember kl: 22:45

Þetta er í besta falli hægt að kalla endurtekið efni, þvi Vegagerð ríkisins hefur fyrir löngu gert valkostagreininu um þennan veg og komist að niðurstöðu. Við eigum ekki aðra hæfari til að meta hvar hagstæðast og skynsamlegast er að leggja vegi.

Ef sveitastjórn Reykhólahrepps ætlar sér að hunsa niðurstöður þeirrar stofnunar sem ber að annast þetta verkefni fyrir hönd okkar allra og þvinga fram óhagkvæmari og tafsamari leið, þá á hún enga samleið með því fólki sem byggir þennan landshluta.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31