Vilja stórefla heilsárs ferðaþjónustu á landsbyggðinni
Átján þingmenn hafa flutt þingsályktunartillögu um nýsköpunarátak til að stórefla heilsárs ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Í tillögunni segir: „Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að hlutast hið fyrsta til um að hafið verði nýsköpunarátak í ferðaþjónustu úti á landi í þeim þríþætta tilgangi að fjölga erlendum ferðamönnum utan háannatíma, bæta við áfangastöðum á landinu svo að álag á ferðamannastaði dreifist betur og nýta betur og efla öll þau fjölmörgu samgöngu- og menningarmannvirki sem ríki og sveitarfélög hafa fjárfest í.“
Tillagan var einnig flutt á síðasta þingi en ekki náðist þá að afgreiða hana.
Ítarleg greinargerð fylgir tillögunni og hefst hún á þessa leið:
„Með þingsályktunartillögu þessari er ætlunin að bregðast við gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á síðustu árum og þeim spám að fjöldi þeirra muni tvöfaldast á næstu 10 árum. Ljóst er að margir helstu ferðamannastaðir á suðvestanverðu landinu, sem liggja næst Keflavíkurflugvelli, þola vart eða ekki meiri ásókn ferðamanna á háannatíma, nema gripið sé til aðgerða sem mögulega spilla ásýnd og yfirbragði þess sem ferðamenn sækjast eftir. Einn helsti veikleiki íslenskrar ferðaþjónustu er annars vegar mikið álag á ferðamannastaði yfir sumarið og hins vegar lítil dreifing erlendra ferðamanna utan höfuðborgarsvæðisins og Suðvesturlands utan sumartímans.
Það er af þessum sökum afar brýnt að fjölga áfangastöðum á landinu svo að álag af völdum ferðamanna dreifist betur en nú er. Hætt er við því að ella glatist upplögð sóknarfæri í þessari mikilvægu atvinnugrein.“
Tillöguna og greinargerðina í heild má lesa hér.