Tenglar

26. janúar 2011 |

Vilja uppbyggingu Vestfjarðavegar um Reykhólahrepp

Frá Teigsskógi. Mynd: Sævar Helgason.
Frá Teigsskógi. Mynd: Sævar Helgason.
Þrír þingmenn NV-kjördæmis hafa lagt fram lagafrumvarp um uppbyggingu á Vestfjarðavegi. Markmiðið er að stuðla að bættum samgöngum og umferðaröryggi. Í því felst að leggja veg frá Þórisstöðum í Þorskafirði, út með Þorskafirði vestanvert, um Teigsskóg og Hallsteinsnes, þvert yfir utanverðan Djúpafjörð vestur á Grónes og þaðan þvert yfir utanverðan Gufufjörð um Melanes og vestur fyrir Kraká, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Flutningsmenn eru Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson og Gunnar Bragi Sveinsson.

 

Frumvarpið var lagt fram á þingi síðasta sumar en var ekki rætt og er því flutt að nýju. „Brýnasta verkefnið í vegamálum á Íslandi, vegagerð um Vestfjarðaveg, er í fullkomnu uppnámi og hefur svo verið um árabil. Þetta er ekki sakir fjárskorts. Á síðustu samgönguáætlun, sem gilti frá 2007 til 2010, var verulegt fjármagn, alls um 3 milljarðar kr., veitt til framkvæmda á leiðinni Svínadalur - Flókalundur. Í tillögu til þingsályktunar um nýja samgönguáætlun (2009-2012,) sem liggur fyrir þinginu, er áhersla á vegagerð á þessu svæði, sem nær frá Þorskafirði að Þverá í Kjálkafirði“, segir í greinargerð með frumvarpinu. Þar er er bent á að dómur Hæstaréttar í máli 671/2008 um vegagerð í Þorskafirði með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar, ásamt ákvörðun Skipulagsstofnunar sem umhverfisráðherra staðfesti sjö mánuðum síðar, um að vegagerð frá Eiði í Vattarfirði að Þverá í Kjálkafirði færi í umhverfismat, hefur valdið því að ekkert liggur fyrir um vegagerð á þessu svæði þar sem þörfin er þó brýnust, að mati flutningsmanna.

 

„Við þetta verður ekki búið. Það er algjörlega óviðunandi að vegagerð á þessum slóðum geti ekki haldið áfram og það jafnvel þó að fjármagn sé til staðar. Markmið þess frumvarps sem er hér lagt fram er að rjúfa þennan grafalvarlega vítahring og heimila með lögum vegagerð á svæðinu út með Þorskafirði, með þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar, samkvæmt svokallaðri tillögu B frá Vegagerðinni með þeim skilyrðum sem þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, setti í úrskurði sínum 6. janúar 2007. Er það skoðun flutningsmanna að slíkur vegur þjóni hagsmunum vegfarenda best, tryggi heilsárssamgöngur Vestur-Barðastrandarsýslu með tengingu við meginþjóðvegakerfi landsins og sé í sátt við umhverfið.“

 

Frumvarpið í heild ásamt greinargerð

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30