Vill auka öryggi í afhendingu raforku á Vestfjörðum
Fullur vilji er hjá Össuri Skarphéðinssyni ráðherra orkumála að stuðla að auknu öryggi í afhendingu raforku á Vestfjörðum, eftir því sem fram kom í svari hans við fyrirspurn Einars Kristins Guðfinnssonar alþingismanns á þingi í fyrradag. Einar Kristinn vakti athygli á því að öryggisleysi í afhendingu raforku væri í senn mjög bagalegt og kostnaðarsamt fyrir heimili, fyrirtæki og atvinnulíf á Vestfjörðum.
„Ég hef undir höndum tölur sem segja að samfélagslegur kostnaður sem bitnar með beinum hætti á Vestfirðingum af þessu öryggisleysi nemi hundrað milljónum króna á ári, sem má segja að sé kostnaður sem lendi að ósekju á Vestfirðingum. Þetta er ástand sem ekki er hægt að búa við", sagði Einar Kristinn.
Össur tók vel í mál Einars og sýndi því jákvæðan skilning. Skýrsla um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum er ekki tilbúin. Ráðherra sagði hins vegar vera komin drög að henni þar sem búið er að leggja upp helstu atriði og leggja mat á þessa þætti.
Frá þessu var greint á fréttavefnum bb.is á Ísafirði.