Tenglar

27. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Vill virða hráefni og hefðir á hverjum stað

Hafliði Halldórsson frá Ögri.
Hafliði Halldórsson frá Ögri.

Hafliði Halldórsson frá Ögri við Djúp, formaður Klúbbs matreiðslumeistara, annast matseldina á hátíðarkvöldverðinum á Reykhóladögum í íþróttahúsinu á Reykhólum í kvöld og samdi jafnframt matseðilinn. Hvað matseðilinn varðar mætti segja, eins og fram kemur hér á eftir, að Hafliði hafi verið á undan sinni framtíð, svo notað sé orðalag ágæts manns á Flateyri á sínum tíma. Síðustu árin vinnur Hafliði minna í faginu en áður en kokkar þó á sumrin í veitingahúsinu í Ögri og tekur auk þess að sér einstök verkefni eins og núna á Reykhólum.

 

Yfir sumartímann er Hafliði núna mest á æskuslóðum sínum kærum í Ögri við Ísafjarðardjúp að sinna ferðaþjónustunni þar ásamt systkinum sínum. Af vissum ástæðum eldaði hann þó ekki rabarbaragrautinn margfræga á Ögurballinu um síðustu helgi. Í spjalli í gær sagðist hann hlakka til að skjótast suður að Breiðafirði og kokka á Reykhóladögum. „Já, það er gaman að koma á Reykhóla, fallegur staður og gott fólk að heimsækja.“

 

Eitt helsta verkefni Klúbbs matreiðslumeistara er að sinna faglegum áhugamálum og faglegu starfi matreiðslumanna en klúbburinn fæst ekki við kjarabaráttu eða neitt af því tagi. „Tilgangurinn er að efla fagið sem slíkt, ekki síst með keppnishaldi og með því að reka ungkokkalið og kokkalandslið. Við sendum liðin til keppni erlendis og efnum einnig til keppni hér heima, svo sem um Matreiðslumann ársins,“ segir Hafliði.

 

Aðspurður hvenær hann hafi byrjaði í faginu segir hann: „Ég var nú orðinn nokkuð þroskaður, orðinn tuttugu og fjögurra ára gamall þegar ég fór í námið og var áður búinn að vinna ýmis störf. Var meðal annars búinn að vera á sjó eins og allir góðir menn fyrir vestan þurfa nú að prófa og var á Páli Pálssyni þegar ég ákvað að fara í kokkanámið árið 1995.“

 

Eftir að Hafliði fór í fagið vann hann um tíma á Argentínu steikhúsi í Reykjavík, var eftir það nokkuð lengi í Grillinu á Hótel Sögu og kláraði námið þar. „Eftir það hef ég unnið á stöðum eins og Café Óperu sálugu í Lækjargötunni sem svo brann, ég hef unnið á stað sem heitir Café Bleu í Kringlunni og líka í Danmörku. Síðustu árin hef ég hins vegar stigið út úr eldhúsinu að mestu og hef verið að vinna í heildverslun sem heitir Garri og þjónustar veitingabransann.“

 

Því má bæta við, að um árabil var Hafliði matreiðslumaður hjá sendiráði Finnlands í Reykjavík. Þar bar hann ábyrgð á daglegum rekstri eldhúss á heimili sendiherrans þar sem eru móttökur og veislur. Á þeim tíma annaðist hann m.a. einnig veislur fyrir þýska, kanadíska, sænska og danska sendiráðið.

 

– Er það eitthvað öðru fremur sem þú hefur gaman af að elda?

 

„Já, það er að nýta það sem er í nærumhverfinu á hverjum stað, nýta þá bæði hráefni og hefðir og færa það í nútímabúning. Það finnst mér skemmtilegast. Þá kemur allt þetta góða íslenska hráefni fyrst upp í hugann, fiskurinn og lambið og að sjálfsögðu það sem hér getur vaxið í náttúrunni, það er mest spennandi. Ég er hrifinn af öllu því sem heitir norræn matreiðsla. Hún snýst mikið um einmitt þetta, að nota það sem hendi er næst en vera ekki að leita yfir í aðrar heimsálfur, hvort heldur hvað hráefni eða aðferðir varðar. Mitt hjarta slær einkum þarna.“

 

– Hefur þú komið fram með einhverjar nýjungar í matargerðarlist?

 

„Ég held að ég geti nú ekki eignað mér neitt slíkt. Yfirleitt er það nú þannig, að þótt maður ímyndi sér að maður hafi fundið eitthvað upp, þá er mjög líklegt að einhver sé búinn að gera það áður. Ég vil ekki fara að eigna mér eitthvað svoleiðis. Þó vil ég segja, að þessi lókal-food pæling, svo að ég sletti, er nokkuð sem ég var farinn að tala um fyrir tíu-fimmtán árum. Þetta er „in“ í dag en þótti mjög hallærislegt á þeim tíma þegar ég byrjaði að tala um það.“

 

Hafliði býr í Garðabæ ásamt konu sinni og fjórum börnum nema hvað yfir sumartímann er hann að mestu í Ögri. Þar eru þau Ögursystkinin á þriðja ári með ferðaþjónustu (Ögur Travel) eins og þau hafði dreymt um síðasta áratuginn eða svo að koma á fót. Þar er um að ræða kajakferðir og gönguferðir og mikið lagt upp úr matnum. Jafnframt reka þau veitingahús í gamla samkomuhúsinu í Ögri.

 

Þá verður ekki hjá því komist að spyrja hvort Hafliði eldi ekki rabarbaragrautinn sem hefur verið fastur liður á Ögurböllunum árvissu lengur en elstu menn muna. „Nei, réttindin til að elda grautinn ganga í beinan kvenlegg. Það var Halla María systir mín sem eldaði grautinn að þessu sinni eftir að móðir okkar féll frá. Hins vegar hefði ég sosum ekkert kviðið því verki!“

 

Og þá er rétt að birta hér að lokum matseðilinn sem formaður Klúbbs matreiðslumeistara samdi fyrir gesti í íþróttahúsinu á Reykhólum í kvöld og kokkar sjálfur. Kvöldskemmtunin ásamt hátíðarmáltíðinni hefst kl. 20. Dansleikurinn hefst síðan kl. 23 og stendur langt fram á nótt.

 

 

Aðalréttir og meðlæti

  • Ristað chili- og hvítlauksmarínerað lamb með villisveppasósu
  • Steiktur steinbítur og sinnepssósa
  • Koli og kaperssmjör
  • Kartöflusalat með papriku, rauðlauk og ólífum
  • Ferskt salat og graslauksdressing
  • Ristað rótargrænmeti
  • Íslenskt bygg og blóðberg
  • Tómatsalat

 

Eftirréttir

  • Frönsk súkkulaðikaka
  • Aðalbláberja-skyrmús

 

 

Sjá hér nánar varðandi rabarbaragrautinn fræga í Ögri:

Fólk ekki sent heim á fastandi maga (bb.is 23.07.2013)

 

Dagskrá Reykhóladaga 2013

 

Athugasemdir

Ásta Sjöfn Kristjánsdóttir, sunnudagur 28 jl kl: 01:26

Frábært matur! Allir á mínu borði voru rosalega ánægð. Bestu þakkir.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31