Viltu vinna hjá Norður & Co. á Reykhólum?
Saltvinnslan á Reykhólum (Norður & Co.) leitar að „allrahandamanneskju“ til starfa. Þetta hét löngum á góðri dansk-íslensku (málvöndunarmönnum til mikils ama) alltmúlígmann. Meðal þess sem umsækjendur verða að hafa til að bera eru tök á íslensku og ensku. Þó að þess sé alls ekki krafist væri trúlega ekki mjög slæmt ef þeir gætu líka bjargað sér á portúgölsku og dönsku hjá þessu fjölþjóðlega fyrirtæki við Breiðafjörðinn. Auk þess er ekki verra að hafa áhuga á matargerð.
Auglýsing Norður & Co. er á þessa leið:
Leitað að allrahandafólki
Við leitum að allrahandamanni eða allrahandakonu til starfa sem fyrst. Vegna aukinnar saltframleiðslu, kynngimagnaðar bjartsýni og almennrar lífsgleði leitum við hjá Norður & Co. að starfsmanni til að vinna við framleiðsluna okkar á Reykhólum. Við hvetjum alla, konur og kalla, sem hafa áhuga, til að sækja um starfið.
Starfssvið:
- Okkar fólk er í framleiðsluteymi Norður & Co. á Reykhólum. Starfsmaður sinnir framleiðslu á vörum fyrirtækisins, þar á meðal Norðursalti, ásamt öðrum tilfallandi verkefnum sem tengjast framleiðslunni.
Kröfur og óskir um hæfni:
- Praktísk kunnátta, sjálfstæð vinnubrögð og löngun til að læra nýja hluti eru skilyrði.
- Tækniþekking er mikill kostur.
- Tök á íslensku og ensku.
- Að eiga auðvelt með mannleg samskipti.
- Að geta bjargað sér að eigin frumkvæði og hræðast ekki að ganga í beint verk.
- Almenn kunnátta á viðgerðum.
- Aukalega: Mataráhugi og reynsla af tilraunaeldamennsku er kostur sem er ávallt vel þeginn. Annars kennum við þér bara að meta mat!
Umsóknarfrestur er til og með 17. febrúar 2014.
Upplýsingar veitir Garðar Stefánsson í netfanginu gardar@nordurco.com og síma 865 3620.