Tenglar

20. mars 2014 | vefstjori@reykholar.is

Vindhviður á Reykhólum 30-36 m/sek. í tólf tíma

1 af 3

Fróðir menn telja að ár og dagur séu síðan eins hvasst hafi verið á Reykhólum eins lengi samfellt og frá því í nótt og fram eftir degi. Í tólf tíma eða frá klukkan fjögur í nótt og til klukkan fjögur í dag fóru vindhviður á hverjum klukkutíma á sjálfvirku stöðinni neðan við Reykhólaþorp aldrei niður fyrir 30 metra á sekúndu og allt upp í 36 m/sek. milli klukkan ellefu og tólf. Þó var enn hvassara bæði á Hjallahálsi og Klettshálsi.

 

Á Hjallahálsi voru hviðurnar á þessum tíma frá 34 m/sek. og upp í 41 m/sek. og á Klettshálsi frá 31 m/sek. og upp í 41 m/sek.

 

Sjá meðfylgjandi skjáskot af vef Veðurstofunnar.

 

Varðandi vind á Klettshálsi má hnýta hér við broti úr viðtali sem birtist í Bæjarins besta á Ísafirði í dag. Þar er rætt við Kristján Rafn Guðmundsson, sem á sínum tíma keyrði flutningabíla milli Ísafjarðar og Reykjavíkur.

 

 

Keyrðu gegnum hliðið án þess að opna það

 

Kitti rifjar upp eitt óneitanlega sérstakt frá árunum hans sem bílstjóra hjá Gunnari og Ebeneser. „Það var aðferð sem við notuðum stundum á flutningabílunum á vetrum á mesta roksvæði landsins, á Klettshálsinum í núverandi Reykhólahreppi, þegar maður var einn á ferð. Við keyrðum í gegnum sauðfjárveikivarnahliðið á fullri ferð án þess að opna það. Keyrðum bara nógu hratt til að hliðið skylli ekki í bílinn aftur. Menn lentu í því að komast varla að bílnum aftur fyrir veðurhamnum ef stoppað var til að opna hliðið og loka því aftur. Stundum var svo hvasst þarna á Klettshálsinum að það var ekki nokkur einasta leið að fara út úr bíl.“

 – Hvernig mæltist þetta fyrir?

 „Það mæltist nú víst ekkert vel fyrir, held ég. En þetta var nú eftir að mæðiveikin var eiginlega úr sögunni.“

 

Sjá hér veffrétt um viðtalið í Bæjarins besta í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Mars 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31