Vinna við veginn í Þorskafirði að hefjast á nýjan leik
Ástand vegarins í Þorskafirði stendur til bóta, eftir því sem fram kom í útvarpsfréttum í kvöld, og sagði þar að vinna við nýbyggingu og endurbyggingu vegarins muni hefjast að nýju í þessari viku. Útlögn klæðningar á að vera lokið núna um mánaðamótin. Eins og hér kom fram hefur vegurinn verið herfilegur í sumar og í raun óboðlegur enda hafa vegfarendur þurft að aka á egghvössu grjóti. Að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, hefur vinna við veginn í Þorskafirði legið niðri í sumar á meðan verktakinn var að störfum við vegarkafla í Kollafirði.
Pétur segir verkið vera innan tímamarka útboðs. Ástand vegarins í sumar megi rekja til þess að notað var sprengt grjót í undirlag og ekkert sé óeðlilegt við það. Hins vegar beri verktakanum að halda veginum í viðunandi horfi. Verktakinn er KNH ehf. á Ísafirði.