10. febrúar 2010 |
Vinnufundur hjá Breiðafjarðarfléttunni
Breiðafjarðarfléttan efnir til vinnufundar að Langaholti á Snæfellsnesi á föstudag og laugardag. Fléttan hefur fengið í lið með sér færa sérfræðinga á sviði fugla og fuglaskoðunar og hefur komið glöggt í ljós við undirbúningsvinnuna hversu mikið er af færum sérfræðingum á þessu sviði á Vesturlandi og Vestfjörðum. Vinnufundurinn sjálfur hefst kl. 9 á föstudeginum og stendur til kl.17. Að honum loknum gerir mannskapurinn sér glaðan dag. Á laugardeginum er gert ráð fyrir að ræða innanbúðarmál í Fléttunni og þá er ekki gert ráð fyrir öðrum en félagsmönnum.
Fólk er hvatt til að láta verkefnastjóra vita varðandi mætingu og fyrirkomulag dvalar fyrir kl. 15 í dag, miðvikudag.
Breiðafjarðarfléttan er samstarfsverkefni ferðaþjónustuaðila á Snæfellsnesi, í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum eða allt í kringum náttúruperluna Breiðafjörð. Þessi landsvæði hafa að bjóða margt það besta í íslenskri náttúru, menningu og mannlífi.
Formaður stjórnar Breiðafjarðarfléttunnar er Svanborg Siggeirsdóttir hjá Sæferðum í Stykkishólmi. Verkefnastjóri Fléttunnar er Guðrún Eggertsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.