Vinnuskólafólkið hefur nóg að starfa
Vinnuskóli Reykhólahrepps hefur starfað á hverju sumri í mörg ár. Þar gefst ungmennum kostur á því að vinna margvísleg störf, einkum við fegrun og lagfæringar á hinu og þessu. Lengi var Jón Þór Kjartansson á Reykhólum umsjónarmaður og verkstjóri en núna hefur Jóhanna Ösp Einarsdóttir í Kaplaskjóli það hlutverk með höndum. Á fatnaðinum á myndunum sem hér fylgja sést vel hversu mikið hefur hlýnað í veðri. Mynd nr. 2 var tekin 9. júní en sú fremsta var tekin í rjómablíðunni í dag.
Ekki er að öllu leyti sami mannskapurinn á báðum myndunum. Á eldri myndinni var verið að stinga torf þar sem núna er kominn malarstígur upp að Hólabúð. Á myndinni sem tekin var í dag voru ungmennin að störfum við Barmahlíð. Á myndinni framan við búðina er Jóhanna Ösp lengst til hægri, á nýju myndinni er hún lengst til vinstri.
Fyrir nokkru birtist í einhverjum fjölmiðli samanburður á kaupi ungmenna í vinnuskólum í helstu kaupstöðum landsins. Samkvæmt því eru krakkarnir í Vinnuskóla Reykhólahrepps mun betur launaðir en þar kom fram.
Til gamans flýtur hér með mynd (nr. 3) sem tekin var sumarið 2011 af þáverandi ungmennum ásamt Jóni Þór Kjartanssyni. Í rjómablíðu, rétt eins og nú.