Tenglar

24. apríl 2010 |

Vissi ekki af áætlunum samgönguráðherra

Ráðhúsið í Vesturbyggð.
Ráðhúsið í Vesturbyggð.
Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segist ekki vera sáttur við ekkert fjárframlag sé ætlað til Dýrafjarðarganga í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012. „Verst við þetta er að setja eigi framkvæmdirnar við Dýrafjarðargöng út af borðinu en ekki fresta þeim um óákveðinn tíma“, segir Ragnar. Hann segist ekki hafa vitað af áætlunum samgönguráðherra fyrr en tillagan var lögð fram, þrátt fyrir að hafa fundað með ráðherra ásamt öðrum fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu.

 

„Við áttum fund með samgönguráðherra á þriðjudag varðandi Vestfjarðaveginn í Austur-Barðastrandarsýslu. En það var ekkert rætt um þetta þar. Ég frétti síðan að hann hefði lagt tillöguna að samgönguáætlun seinnipart sama dags. Það hefði nú verið full ástæða til að ræða við okkur um þetta á þeim tímapunkti, en ástæðuna fyrir því af hverju hann gerði það ekki veit ég ekki. Ef til vill hefur honum fundist vont að ræða um þetta áður en tillagan var lögð fram“, segir Ragnar.

 

„Við stefnum að því núna að boða samgönguráðherra og fulltrúa Vegagerðarinnar fljótlega þar sem þetta mál verður tekið fyrir ásamt öðru. Ég býst við að þetta verði kynnt og tekið fyrir hjá bæjarstjórn á miðvikudag og þá verður tekin ákvörðun um framhaldið.“

 

Ljósi punkturinn sé að fjármagn er ætlað til samgöngubóta á Vestfjarðavegi sem lengi hafa setið á hakanum. Ragnar segir þó að ekki sé björninn unninn. „Vonandi getum við nýtt þessa fjármuni en þetta er erfitt mál varðandi svokallaða B-leið sem við höfum verið að berjast fyrir. Ef það á að fara að gera nýtt umhverfismat og fara í allt það ferli aftur sjáum við ekki fram á að farið verði í þann vegarkafla á næstu tveimur árum.“

 

Ragnar útskýrir að kaflinn þar sem framkvæmdirnar eru fyrirhugaðar er tvískiptur. „Kaflinn frá Vatnsfirði, rétt hjá Flókalundi yfir í Kjálkafjörð, er í umhverfismati og hinn kaflinn liggur um hinn margumrædda Teigsskóg. Við erum því í basli með hvernig nýta eigi peninginn þegar allt er stöðvað af mannavöldum annars staðar frá“, segir Ragnar. Hann bætir við að rætt verði um það á næstu dögum innan sveitarfélaganna á svæðinu, Vesturbyggðar, Tálknafjarðarhrepps og Reykhólahrepps.

 

bb.is

 

Sjá einnig:

rhol 24.04.2010  Dýrafjarðargöngum seinkar en ekki slegin af

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31