Tenglar

5. júlí 2013 | vefstjori@reykholar.is

Vonast eftir mörgum gestum með miða í vasanum

Bátakaffi - veitingaborð og gamlir bátar.
Bátakaffi - veitingaborð og gamlir bátar.
1 af 4

Fólk í Reykhólahreppi hefur fengið í pósti auglýsingu sem jafnframt er „hálfgerður happdrættismiði“ (mynd 4) frá Bátakaffi, litla kaffihúsinu sem opnað var um síðustu helgi á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum. Harpa Eiríksdóttir framkvæmdastjóri sýningarinnar vill taka fram, að á miðanum er sú innsláttarvilla, að þar er dagsetningin 5. júní í staðinn fyrir 5. júlí, sem er í dag.

 

„Nei, við gleymdum ekki að setja miðann í póst og pósturinn gleymdi ekki að bera hann út!“ segir hún. „Við bjóðum fólki að koma með miðann núna í dag og sjá hvaða góðgæti kynni að leynast á bak við hann.“

 

Miðarnir eru númeraðir á bakhliðinni.

 

Jafnframt gefst gestum tækifæri að hitta eitthvað af strákunum í Félagi áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar, sem eru á svæðinu þessa dagana. Vegna hinnar slæmu veðurspár um helgina hefur hins vegar verið ákveðið að fella niður Bátadagana sem fyrirhugaðir voru.

 

Starfsemin í húsakynnum Báta- og hlunnindasýningarinnar í Mjólkurbúinu gamla á Reykhólum er harla fjölbreytt. Þar eru auk sýningarinnar sjálfrar upplýsingamiðstöð ferðafólks og minjagripabúð og það nýjasta er Bátakaffið. „Það hefur farið mjög vel af stað frá því að það var opnað fyrir tæpri viku,“ segir Harpa. „Við erum mjög ánægð með móttökurnar hjá ferðamönnum.  Fólki finnst mjög flott að fá sér hressingu á milli báta.“

 

Matseðilinn á Bátakaffi er úr héraði og má þar nefna heimabakað rúgbrauð, reykta rúllupylsu og rauðmaga. „Líka er kaka dagsins í boði og kryddbrauð sem er frábært með smjöri. Við munum síðan einnig vera með súpu dagsins, pönnukökur með sykri og fleira sem okkur dettur í hug. Krækiberjasaft verður á boðstólum mjög fljótlega,“ segir Harpa.

 

Og hún bætir við: „Ef það eru einhverjir sem eiga bolla og eða eitthvað sem myndi sóma sér vel hjá okkur, þá þiggjum við allt svoleiðis!“

 

Síminn á Báta- og hlunnindasýningunni er 434 7830, netfangið info@reykholar.is og gemsinn hjá Hörpu 894 1011.

 

Sýningin er opin alla virka daga kl. 11-17 og um helgar kl. 11-18 fram á haust. Bátakaffi er opið á sama tíma.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« September 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30