Vongóð og hyggur á frekara nám
Á fb. síðu SFFV -Styrktarfélags fatlaðra á Vestfjörðum- er skemmtilegt viðtal við Guðnýju Sæbjörgu Jónsdóttur, sem er búsett á Ísafirði en uppalin á Reykhólum.
Þrátt fyrir að hafa þurft að glíma við heilsuleysi þá horfir hún fram á veginn, eins og kemur fram í viðtalinu, en gefum Guðnýju orðið:
Ég heiti Guðný Sæbjörg og er 33 ára. Ég ólst upp á Reykhólum ásamt 4 öðrum systkinum, en flutti til Ísafjarðar 2011. Eftir tveggja ára flakk á milli íbúða, eða 2013, fékk ég á leigu íbúð hjá Ísafjarðarbæ þar sem ég hef búið síðan. Þar líður mér mjög vel, fæ þjónustu og hef búið mér fínt og notalegt heimili.
Ég lauk grunnskólagöngu og þar sem enginn menntaskóli er á Reykhólum fékk ég fjarkennslu frá Menntaskólanum á Ísafirði og lauk þar starfsbraut. Það var frábært að geta fengið þá þjónustu. Mig langar mikið til að læra meira, eins og stærðfræði, íslensku, dönsku og ensku, en ég get lesið og talað ensku og smá í dönsku.
Ég er náin foreldrum mínum og koma þau oft í heimsókn og ég fer líka í heimsókn til þeirra ef ég get, en ég hef ekki komist síðastliðin þrjú ár. Vonandi kemst ég fljótlega.
Helstu áhugamál mín í dag eru:
að spila
að horfa á sjónvarpið
að elda og baka
að læra eitthvað nýtt
að leika í tölvunni og fara á facebook
að gera krossgátur
Þuríður Sigurðardóttir tók viðtalið.