19. febrúar 2010 |
Yfir 90 prósent í Reykhólaprestakalli í Þjóðkirkjunni
Hlutfallslega eru mun fleiri skráðir í Þjóðkirkjuna í Reykhólaprestakalli en í Vestfjarðaprófastsdæmi í heild og á landinu öllu, samkvæmt tölum frá 1. desember á vef Hagstofu Íslands. Þar er miðað við fólk 16 ára og eldra. Mörk Reykhólaprestakalls miðast ekki við Reykhólahrepp heldur eru innan þess einnig tvær sóknir í Dalabyggð, Staðarhólssókn í Saurbæ og Skarðssókn á Skarðsströnd. Í Reykhólahreppi eru fjórar sóknir, Garpsdalssókn, Reykhólasókn, Gufudalssókn og Flateyjarsókn á Breiðafirði. Reykhólaprestakall tilheyrir Vestfjarðaprófastsdæmi.
Samkvæmt fyrrgreindum tölum eru 78,9% landsmanna skráðir í Þjóðkirkjuna, 82,0% í Vestfjarðaprófastsdæmi en 90,6% í Reykhólaprestakalli.
Í sóknum prestakallsins er hlutfallið lægst í Reykhólasókn og Garpsdalssókn. Í Reykhólasókn eru 136 af 156 manns í Þjóðkirkjunni eða 87,2%. Í Garpsdalssókn eru 35 af 39 manns í Þjóðkirkjunni eða 89,7%. Í tveimur af sóknunum sex eru allir skráðir í Þjóðkirkjuna. Ítrekað skal að hér er átt við 16 ára og eldri.
Smellið á töfluna (myndina) til að gera hana læsilega.