Tenglar

10. desember 2014 |

Ýmislegt frá fyrri tímum

1 af 2

Á liðnu ári gáfum við út bókina Sveitin vestur lengst í sjá eftir Ara Ívarsson frá Melanesi. Er hér um að ræða úrval úr greinum hans um Rauðasand. Var hún gefin út til heiðurs Ara og var vel tekið. Nú kemur út önnur bókin út í þessum flokki heiðursbóka. Lýður Björnsson sagnfræðingur, sem alinn var upp í Fremri-Gufudal í Gufudalshreppi, varð áttræður á þessu ári, og í tilefni af því gefum við nú út heiðursbók hans sem við nefnum Ýmislegt frá fyrri tímum, Þættir úr verkum sagnfræðings.

 

Þannig hefst bókarkynning sem Vestfirska forlagið sendi vefnum til birtingar. Þar segir einnig:

  • Lýð Björnsson þarf ekki að kynna fyrir þeim sem unna svokölluðum þjóðlegum fróðleik og sögu landsins. Höfundarverk hans er ótrúlegt að vöxtum. Kennir þar ýmissa grasa. Er það Vestfirska forlaginu mikill heiður að gefa út valið efni frá ýmsum tímum eftir þennan vestfirska eljumann. En hér verður auðvitað að stikla á stóru.
  • „Það er ánægjuefni að enn skuli finnast á voru landi óskólagengnir múgamenn sem fást við slíkar skriftir“. Svo sagði einn fremsti fræðimaður þjóðarinnar, Kjartan Ólafsson, um Ara Ívarsson og skrif hans. Þetta má vel heimfæra upp á múgamanninn Lýð Björnsson. Þó með þeim fyrirvara að hann er að vísu skólagenginn.

 

Hér fer á eftir kafli úr bókinni, hluti samantektar um verslunarmál og fleira á tímum seinni heimsstyrjaldar, sem birtist í VR-blaðinu á sínum tíma.

 

Heimsstyrjöldin síðari hófst með innrás Þjóðverja í Pólland 1939 og hófst hún korteri fyrir sex árdegis. Hér á landi gerðu menn ráð fyrir því að áhrif stríðsins yrðu svipuð hvað Ísland snerti og fyrri heimsstyrjaldar, væntu siglingatregðu og vöruskorts, ekki síst skorts á eldsneyti, kolum og olíu, og á grænmeti. Við þessu var brugðist með því að hvetja landsmenn til að nýta landsins gæði sem best. Óvenju mikill mór var tekinn upp, mikið var gert af safti og sultum úr berjum og rabarbara.

 

Sumarið 1939 og raunar einnig sumarið 1940 var mjög gott og jarðargróður spratt því vel. Menn fóru að tína fjallagrös, en neysla þeirra var orðin mjög lítil þegar hér kemur sögu. Greinarhöfundi er í barnsminni að annað hvort þetta sumar eða næsta fór faðir minn ásamt vinnukonu og vinnumanni á grasafjall og var það í eina skiptið sem þetta var gert í hans búskapartíð. Grösin voru notuð í slátur, súpur og seyði og var ég lítt hrifinn af þessu. Útvarpið hvatti til nýtingar landsins gæða og flutti fræðsluþætti um það efni.

 

Í ullarsokkum

 

Menn reyndu að koma í veg fyrir eyðslu á fleiri vegu. Pálmi rektor Hannesson hvatti menntaskólastúlkur til að ganga í ullarsokkum eins og formæður þeirra og mun þessu hafa verið ætlað að draga úr kolanotkun. Stúlkurnar munu ekki hafa verið reiðubúnar til að undirgangast þetta og var árangur enginn að því er virðist. Norður á Akureyri flutti Erlingur Friðjónsson tillögu í bæjarstjórn þess efnis að samkomuhald yrði bannað og kvikmyndahúsum lokað og var þetta gert til að spara eldsneyti. Bæjarstjórn felldi tillöguna, flutningsmanni til talsverðrar gremju.

 

Fengust ekki skot

 

Lítið bar þó á tilfinnanlegum vöruskorti veturinn 1939-1940. Greinarhöfundur minnist þess þó, að bændur við norðanverðan Breiðafjörð tóku helgrímur í notkun við slátrun, en líklegast hefur þetta verið haustið 1940. Skot í kindabyssur fengust þá ekki, hafa sjálfsagt verið notuð til annars. Ekki hef ég oftar séð þetta tæki, enda átti faðir minn kindabyssu, sem hann lánaði stundum á aðra bæi. Ekki þurfti oftar að grípa til helgrímunnar, enda fengust næg skot næsta haust og upp frá því.

 

Hænsnarækt og hermannaþvottur

 

Margt breyttist með komu breska hersins 10. maí 1940. Atvinnuleysi hvarf og tækifæri gafst til að stunda aukabúgreinar. Margar konur tóku þvott af hernum og þvoðu gegn greiðslu. Aðrir seldu hernum vistir eins og eftirfarandi saga úr Kópavogi sýnir (Saga Kópavogs II):

 

„Digranesblettur 14. Þar bjó Sigríður Sigurðardóttir (f. 14.2.1882) í desemberbyrjun 1940 og lagði stund á hænsnarækt og þvoði af hernámsliðinu. Hún seldi hernámsliðinu einnig egg. Fyrrverandi nábúi Sigríðar, sem bjó á Digranesbletti 13, hefur sagt höfundi þessarar ritsmíðar frá því, að hún hafi einhverju sinni um haust fylgt Sigríði ásamt fleiri konum í eggjasöluleiðangur í herskálahverfi inn undir Elliðaám. Vörðurinn í hliði hverfisins vildi ekki hleypa þeim inn í hverfið, en þá gekk Sigríður spölkorn meðfram vírnetsgirðingu þeirri, sem umkringdi hverfið, og hinar konurnar fylgdu henni. Á einhverjum stað tók Sigríður að stinga eggjum inn um möskva á vírnetinu, og að skammri stundu liðinni var peningum stungið út um þann sama möskva. Væntanlega hafa hermennirnir getað gætt sér á hinum hefðbundna enska rétti, eggjum og baconi, næsta morgun. Sigríður var vel að sér í enskri tungu.“

 

Dýrt whisky og slæmur bjór

 

Byggð tók að þéttast í Kópavogi um eða laust fyrir 1939. Árið 1940 voru þar þrjú fornbýli, tæplega einn tugur nýbýla og allmargir sumarbústaðir, sumir þeirra voru ársbústaðir. Sigríður fyrrnefnd var systir Geirs Sigurðssonar skipstjóra.

 

Telja verður líklegt að 60-70 þúsund manns hafi verið í setuliðinu þegar það var fjölmennast, og skal þess getið til samanburðar, að landsmenn voru 121.474 árið 1940. Viðskiptavinum veitingastaða fjölgaði því mikið með komu setuliðsins. Ekki virðast þó hermennirnir hafa verið hrifnir af öllum veitingum á Íslandi. Whisky þótti mjög dýrt svo dæmi sé nefnt og bjórinn bæði bragðlítill og daufur. Engar sögur fara þó af því að hermennirnir hafi reynt að salta hann til að auka bragð, en þetta reyndu bandarískir hermenn fyrst eftir komuna til Englands á árunum 1943-1944. Þeim þótti enski bjórinn afar bragðlítill. Víst er að hermönnum tókst óhönduglega að matbúa suman íslenskan mat, þeir reyndu til dæmis að steikja skyr.

 

 

Mynd nr. 2 með þessari frétt er ein margra í bókinni. Textinn undir henni er á þessa leið: Ferðamenn á Vaðlinum í Þorskafirði. Þetta stytti mjög leiðina. Þrjár leiðir voru kunnar, Þrívörður og Stekkjarfjara nefnast tvær þeirra, en nafni hinnar þriðju hefur höfundur gleymt. Ferðafólkið hefur væntanlega komið norðan yfir Þorskafjarðarheiði og farið Þorgeirsdal. Væntanlega hafa Kinnarstaðir verið ákvörðunarstaður en þangað gekk áætlunarbíll Guðbrands Jörundssonar (Dala-Brands) 1938-1945. Nokkrir menn beggja megin við heiðina fluttu fólk að og frá Kinnarstöðum og hét þetta „að reiða“. Sunnan fjarðar grillir í Skóga, efst tróna Vaðalfjöll.

 

 

Sjá einnig:

14.12.2012 Lýður Björnsson: Þar minnast fjöll og firðir - Ýmislegt um Gufudalshrepp hinn forna í máli og myndum

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31