Ýmsar ábendingar varðandi Reykhóladagana 2011
Dagskrá Reykhóladaganna 4.-7. ágúst er fullmótuð og má finna hana í reitnum Tilkynningar hér neðst til hægri. Ýmis gagnleg atriði til viðbótar varðandi þessa afar fjölbreyttu héraðshátíð eru tilfærð hér að neðan og fólk beðið að kynna sér þau, svo sem um skráningar, efni til litskreytinga eins og í fyrra og varðandi súpu í heimahúsum. Ekki síst er fólk hvatt til að hugsa fyrir því í tíma að smíða kassabíla með krökkunum og hafa með sér rollu í Hvanngarðabrekkuna á Reykhólum.
Síðasti dagur til að skrá sig í spurningakeppnina er föstudagurinn 29. júlí þar sem spyrill og dómari þurfa svigrúm til undirbúnings. Skráning hjá Hörpu í síma 894 1011. Nánar í dagskránni.
Skreytingarefni er komið í hús og hægt að kaupa blöðrur og borða hjá Hörpu á Báta- og hlunnindasýningunni. Litaþemun í ár eru þau sömu og í fyrra, þ.e. appelsínugult, rautt og fjólublátt. Endilega kíkið við og kaupið skreytingarnar sem fyrst svo að hægt sé að panta meira ef þess þarf. Blöðrur kosta 40 kr. stykkið. Borðar kosta 25 kr. metrinn og hægt að fá hvaða lengd sem hentar.
Skráning í söngkeppnina er opin og mælt með því að krakkar skrái sig sem fyrst þar sem spilað verður undir á gítar. Hrefna Jónsdóttir annast undirleikinn og til að krakkar geti fengið að æfa sig með henni þarf hún að vita það með fyrirvara.
Foreldrar eru hvattir til að aðstoða krakkana við að smíða bílana fyrir kassabílakeppnina. Keppnin fer fram á beinni braut og foreldrar þurfa að aðstoða við að ýta enda er þetta fjölskyldukeppni.
Opið er fyrir skráningu í siglinguna út í Flatey á laugardeginum. Sætafjöldi er takmarkaður svo að fólk er beðið að skrá sig sem fyrst í síma 894 1011. Verðskráin er í dagskránni.
Þeir sveitungar sem vilja bjóða heim í súpu eða annað góðgæti á föstudegi og laugardegi kl. 12-13 hafi samband við Hörpu í síma 894 1011. Ekki þarf að vera með eitthvað báða dagana heldur er hægt að velja annan daginn. Báta- og hlunnindasýningin og SjávarSmiðjan verða með smakk báða dagana.
Skráning á kvöldskemmtunina á laugardagskvöldinu (hlaðborð, veislustjórn, skemmtiatriði og ball) er í síma 894 1011. Sætafjöldi er takmarkaður og fólk beðið að skrá sig sem fyrst. 16 ára aldurstakmark.
Skoðið dagskrána í heild hérna eða í reitnum Tilkynningar neðst til hægri.
Björk Stefánsdóttir, mivikudagur 27 jl kl: 23:51
Koma svo með lið í spurningakeppnina, það þarf alltaf að hringja og reka á eftir hópum í þetta hahahaha, koma svo Barmahlíð, Thorverk, vinafélögin, Reykhólaskóli, og fl. flottir hópar. Það verður svo gaman hjá okkur;-)