Tenglar

27. september 2011 |

„Yndislegar samverustundir“ á opnum húsum Össu

Handverksfélagið Assa í Reykhólahreppi verður með fyrsta opna hús vetrarins í Vogalandi í Króksfjarðarnesi kl. 20 annað kvöld, miðvikudagskvöld. Þar er tilvalið að koma með prjónana, saumadótið, skrappið og kortin - eða bara til að spjalla. Hingað til hefur enginn einasti karlmaður látið sjá sig á þessum samverustundum hjá félaginu en þeir eru að sjálfsögðu bæði velkomnir og vel þegnir. Yfirleitt stendur þetta í tvo til tvo og hálfan tíma og öllum er frjálst að koma og fara hvenær sem er. „Síðasta vetur voru konur duglegar að mæta, bæði héðan úr sveitinni og Saurbænum“, segir Erla Björk Jónsdóttir, gjaldkeri Össu. Allir eru velkomnir og þurfa alls ekki að vera félagsmenn.

 

„Þetta voru yndislegar samverustundir og mikið spjallað og hlegið. Stundum komu þær sem fóru í Húsmæðraskólann með dúka og fleira sem þær gerðu í skólanum og sýndu okkur sem yngri erum. Þær yngri hafa líka sýnt þessum eldri ýmislegt sem hefur komið í seinni tíð“, segir Erla Björk, og ítrekar að ekki koma allir með eitthvað til að gera í höndunum heldur til að sýna sig og sjá aðra, eins og stundum er sagt.

 

Næstu föndurkvöld Össu verða svo annað hvert miðvikudagskvöld fram á jólaföstu eða 12. og 26. október, 9. og 23. nóvember og 7. desember, en þá verður sérstakt jólaþema.

 

_____________________________________________

 

Viðhnýting:

 

Margar hannyrðasortir eru nefndar í smásögunni Úngfrúin góða og Húsið sem Halldór Kiljan Laxness skrifaði fyrir bráðum áttatíu árum. Ef til vill er eitthvað af þessum listum ræktað á samverustundunum hjá Össu en eflaust hafa margar nýjungar bæst við síðan.

 

Um ungfrúna góðu segir í sögunni: „Hún kunni einn og sérhvern saum sem þektur var á Íslandi í þann tíð, ekki aðeins flatsaum, kontórstíng, blómstursaum, krosssaum, klaustursaum, afturstíng og flos, heldur einnig enskan og franskan útsaum, góbelínsaum, feneyasaum, harðángurssaum og jafnvel heðibúsaum; hún heklaði heil sjölin og ábreiðurnar, prjónaði tíglaprjón, knúppaprjón, x-gataprjón og sílabeinsprjón, baldýraði með gulli og silfri, kniplaði heil millumverkin og gimbaði kvenna best. Og þó var hjartalag hennar fegra en allur útsaumur veraldarinnar.“

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31