Tenglar

19. febrúar 2016 |

Yngsti bóndinn á förum suður

Oddi og Svanshóll í Bjarnarfirði. Ljósmynd: Mats Wibe Lund 1993.
Oddi og Svanshóll í Bjarnarfirði. Ljósmynd: Mats Wibe Lund 1993.

Hvernig horfir framtíðin við sveitum landsins? Það er misjafnt eftir því hvar mann ber niður. Glötuð nettenging, slæmar samgöngur, aukin krafa um stærðarhagkvæmni, félagsleg einangrun, erfið nýliðun, ríkisjarðir sem fara í órækt og aldraðir bændur sem geta ekki hugsað sér að bregða búi. Þetta eru nokkur dæmi um vandamál sem plaga þær sveitir landsins sem standa höllum fæti. Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarmálastofu Matvælastofnunar er meðalaldur kúabænda á landsvísu 53 ár en sauðfjárbænda 56 ár.

 

Þannig hefst úttekt Arnhildar Hálfdánardóttur fréttamanns, sem hún flutti í Speglinum í RÚV í gær. Jafnframt ræddi hún við nokkra sem hlut eiga að máli. Fáeinar glefsur:

 

Yngsti bóndinn í Kaldrananeshreppi á Ströndum er á förum, það verða þá þrír eftir. Sauðfjárbændur í Árneshreppi vilja helst ekki tala um horfurnar. Kúabúum fækkar í Húnaþingi vestra. Í Skaftárhreppi fara ríkisjarðir í órækt.

 

„Það finnst náttúrlega öllum þetta frekar sorglegt, hvað þetta er að fara mikið niður á við. Það munu allir sakna þess að hafa góðan hóp af rollum í firðinum á sumrin, en þetta sýnist mér muni leggjast fljótt af hér í Kaldrananeshrepp, miðað við aldur á öðrum bændum. Fólk virðist ekki vera tilbúið að taka við,“ sagði Sölvi Þór Baldursson á Odda í Bjarnarfirði.

 

Alls er búið á fjórum bæjum í Kaldrananeshreppi. Sölvi er þar yngsti bóndinn, 34 ára. Hann hyggst bregða búi í haust og flytja til Reykjavíkur með kærustu sinni. Móðir hans ætlar að búa áfram á bænum og halda eftir nokkrum kindum. Sölvi hefði viljað búa áfram í Bjarnarfirði og kemur til með að sakna kyrrðarinnar, en dæmið gengur ekki upp. Reksturinn gefur lítið í aðra hönd og flestir þurfa að vinna með. Sölvi á erfitt með að ráða sig í aðra vinnu, þar sem ekki er hægt að reiða sig á samgöngur yfir vetrarmánuðina, vegurinn út á Drangsnes er bara mokaður á mánudögum og miðvikudögum.

 

„Fjarskiptamál eru eitt stærsta byggðastefnumálið sem ætti að taka gríðarlega alvarlega í dag. Þetta verkefni sem hefur verið lagt af stað með hjá ríkisstjórninni, það hefur ekki ræst úr því eins og við vorum að vonast til,“ sagði Finnur Ólafsson, oddviti í Kaldrananeshreppi. Þar á hann við átaksverkefnið Ísland ljóstengt og loforð forsætisráðherra um að árin 2015 til 2020 verði unnið að því að ljósleiðaravæða hvern dal og fjörð.

 

Ekkert hefur þokast í fjarskiptamálunum í hreppnum. Árið 2000 var lögð hitaveita á Drangsnesi og þá var komið fyrir rörum fyrir ljósleiðara samhliða, en þau hafa legið tóm síðan. Heildarfjárfestingin á landsvísu á að nema 6,5 milljörðum, en einungis voru settar 500 milljónir til málaflokksins á fjárlögum.

 

Úttektina og viðtölin má lesa hér í heild (og heyra í spilaranum þar fyrir neðan)

 

Sjá einnig: Netvæðingarloforðin lenda á sveitarfélögunum (reykholar.is) 

 

Athugasemdir

Kristjón Sigurðsson, laugardagur 20 febrar kl: 10:34

Það er eins með bújarðir og banka, ekki sama hver tekur við eða má kaupa.
Þegar sonurinn, dóttirinn eða einhver óviðkomandi er tilbúinn að taka við búinu þá eflist gamli bóndinn og telur sig geta búið nokkur ár í viðbót - - með smá hjálp - - og fer hvergi.
--Því miður fyrir hann og alla hina - - Fæstir þekkja sinn vitjunartíma. Það á ekki bara við um stjórnmálamenn.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29