Tenglar

18. júlí 2009 |

Ýtumaðurinn tók í ýtuna hálfri öld síðar

Um 300 manns sóttu hátíðina á sýslumörkum á Dynjandisheiði í fyrrakvöld í tilefni þess að á þessu ári er hálf öld liðin síðan vegur var lagður um heiðina og akvegasamband komst á milli byggðarlaga á Vestfjörðum og milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Á staðnum var jarðýta af gerðinni International TD-14, sem er sextug á þessu ári og var notuð á Dynjandisheiði fyrir hálfri öld. Ýtustjórinn á þeim tíma, Ásvaldur Guðmundsson á Núpi í Dýrafirði, var þarna líka og notaði tækifærið og tók í ýtuna, sem er í góðu lagi eftir að Jón Guðni Guðmundsson í Bolungarvík gerði hana upp.

 

Gamlir vegagerðarmenn á Dynjandisheiði sögðust hafa tárast af gleði þegar þeir fregnuðu að halda skyldi upp á 50 ára afmæli vegarins um heiðina. Þeir minntust með söknuði þeirra sem burt hafa verið kallaðir en hugsuðu jafnframt til þeirra með gleði í hjarta vegna samverustundanna við vegarlagninguna á Dynjandisheiði.

 

Meðal viðstaddra var Þorsteinn Ólafsson, sem var vegaverkstjóri á Dynjandisheiði fyrir 50 árum. Í máli manna á hátíðinni kom fram, að Þorsteinn hafi verið einstaklega vel látinn af öllum sem hjá honum unnu.

 

Á dagskránni voru ávörp, ljóð og tónlistaratriði. Boðið var upp á kjötsúpu, kaffi og gos á staðnum, sem framreitt var af starfsfólki frá hótelinu á Núpi í Dýrafirði.

 

Undirbúningshópur hátíðarinnar samanstóð af Kristni Gunnarssyni fyrrverandi alþingismanni, sem setti samkomuna, Hálfdáni Bjarka Hálfdánssyni á Ísafirði, Magnúsi Ólafs Hanssyni á Patreksfirði og Sigmundi Þórðarsyni á Þingeyri.

 

Meðfylgjandi myndir frá hátíðinni tók Óskar Steingrímsson á Reykhólum. Smellið á myndirnar til að stækka þær. Fjölmargar fleiri myndir frá samkomunni má sjá hér á Flickr-ljósmyndasíðu Óskars.

 

____________________________

 

Eftirfarandi skeyti barst einum af forsvarsmönnum hátíðarinnar frá Þórólfi Halldórssyni, fyrrverandi sýslumanni í Barðastrandarsýslu:

 

Frétti af merkilegri afmælishátíð í dag við sýslumörk á Dynjandisheiði. Á því miður ekki heimangengt en bið þig að færa heiðinni og gestum hennar mínar bestu kveðjur.

 

Viðeigandi hefði verið að við þetta tækifæri sprengdi samgönguráðherra fyrstu hleðsluna á nýjum jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og aðra á nýjum jarðgöngum undir Dynjandisheiði milli Dynjandisvogs og Vatnsfjarðar með vegamótum undir Lómfelli til Norðdals og Penningsdals.

 

Vonandi verður boðskapur dagsins ekki sá að Vestfirðingar skuli búa sig undir önnur 50 ár á malartroðningum Hrafnseyrar- og Dynjandisheiða.

 

        Alveg er það ægilegt

        eða frekar hlægilegt,

        að enn sé það svo

        að vegskriflið sko

        sé enn talið nægilegt.

 

- Þórólfur Halldórsson.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30