„... og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur“
Kúabændur á Miðjanesi síðustu átta árin eru Gústaf Jökull Ólafsson, dóttursonur Játvarðar Jökuls Júlíussonar og Rósu Hjörleifsdóttur sem þar bjuggu, og kona hans Herdís Erna Matthíasdóttir frá Hamarlandi, næsta bæ við Miðjanes. Þau Gústi og Herdís eru að vísu búsett á Reykhólum en eru með tuttugu og fimm mjólkandi kýr á Miðjanesi. Halldóra Játvarðardóttir (Lóa á Miðjanesi) móðursystir Gústa er hins vegar búsett þar eins og alla tíð og rekur bændagistingu auk sauðfjárbúskapar.
Hrefna Hugosdóttir, dótturdóttir Játvarðar og Rósu, gegnir sem fyrr í afleysingum starfi hjúkrunarforstjóra á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum. Hún dreif með sér bæði heimilisfólk og starfsfólk í Barmahlíð til að samfagna síðbúnu sumri með kúnum á Miðjanesi, þar á meðal einu hyrndu kúnni á bænum sem heitir Þyrnirós. Í vegarnesti fékk Hrefna myndavél og tók meðfylgjandi myndir. Auk þess voru þar ýmsir fleiri gestir. Gústi sá um drykkjarföngin og skenkti gestum mjólk í glös.
Miðjanes er landnámsjörðin á Reykjanesi í Reykhólasveit. Eins og nafnið gefur til kynna er bærinn miðsvæðis á nesinu, kannski fimm-sex kílómetra utan við Reykhóla. Landnámsmaðurinn á Miðjanesi samkvæmt Gull-Þóris sögu (Þorskfirðinga sögu) var Úlfur skjálgi (rangeygi). Samkvæmt þeirri sögu og Landnámabók nam hann Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells.
Vegna þess að sumarið er varla komið, hvað sem almanakinu líður, skal hér tilfærð til hughreystingar vísa eftir Halldór Kiljan Laxness (með rithætti hans) en fyrirsögn þessarar fréttar er tekin úr henni.
Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga
sæta lánga sumardaga.
Þá er gaman að trítla um tún og tölta á eingi,
einkum fyrir únga dreingi.
Folöldin þá fara á sprett og fuglinn sýngur
og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur.
Smellið á myndirnar til að stækka þær. Margar fleiri sem Hrefna tók við þetta tækifæri er að finna undir Ljósmyndir > Myndasyrpur > Kýrnar út á Miðjanesi 2011 í valmyndinni hér vinstra megin.
Játvarður Jökull Júlíusson á Miðjanesi heimsóttur (Morgunblaðið 1985)