Fuglatalning: Núna leyfðum við Eiríki að vera með
Þrír menn á Reykhólum fóru í gær í hina árlegu fuglatalningu, þeir Tómas Sigurgeirsson, Jón Atli Játvarðarson og Eiríkur Kristjánsson. „Það var óvenjumikið af fugli en oft hafa tegundirnar verið fleiri. Núna sáum við tuttugu og eina tegund en þær hafa stundum verið á bilinu 25 til 28“, segir Tómas. „Oft höfum við séð toppönd, tjald, auðnutittling, teistu, smyril og fálka en þessar tegundir vantaði núna.“ Sérstaklega sáu þeir félagar mikið af æðarfugli eða kringum tvö þúsund og síðan komu á fjórða hundrað stokkendur og eitthvað svipað af snjótittlingum.
Aðrar tegundir sem þeir sáu voru rjúpa (46 fuglar), hávella (35), svartbakur (18), hvítmávur (10), sendlingur (6), álft (4) og hrafn (4). Auk þess tvær urtendur, tvo músarrindla, tvo hrossagauka og tvær branduglur og einn fugl af hverri þessara tegunda: Rauðhöfðaönd, tildra, skógarþröstur, svartþröstur, gráþröstur (dauður), stelkur og örn.
Tómas (Tumi) byrjaði á þessu einsamall fyrir allmörgum árum og síðan kom Jón Atli til liðs við hann - „og núna leyfðum við Eiríki að vera með“, segir hann í gamansömum tón. „Reyndar vorum við heppnir að gera það því að hann er ungur og mjög glöggur.“
Sú spurning hlýtur að vakna hvort áhugi á fuglum og áhugi á skák fari að einhverju leyti saman. Þeir Jón Atli og Eiríkur voru báðir meðal keppenda á skákmótinu á Reykhólum á fimmtudagskvöldið en Tumi var reyndar fjarri góðu gamni í það skiptið. Vonandi verður hann með á fimmtudagskvöldið kemur. Þar sem myndir vantar af þeim félögum við fuglatalninguna fylgja hérna með myndir af Jóni Atla og Eiríki við talningu á taflmönnum en myndin af Tuma og branduglunni var tekin sumarið 2008. Frásögn af því ævintýri má lesa með því að smella á tengilinn hér neðst.
Á hverju ári eru sömu slóðirnar farnar á sama hátt með skipulegum hætti. „Við göngum frá fjalli ofan við Reykhóla og kringum þorpið með lækjum að Leggjabrjót niður við sjó og að höfninni. Síðan förum við inn í Þorskafjörð og teljum allt sem við sjáum frá bílnum. Þegar við erum búnir að fara upp í Töglin förum við inn í Króksfjarðarnes og teljum þaðan og eftir garðinum yfir Gilsfjörð.“ Talningarferðin tók að þessu sinni á sjötta klukkutíma.
Þegar Tumi er spurður hvort þetta sé ekki skemmtilegt svarar hann: „Jú, þess vegna erum við að þessu - auk þess sem við teljum að við séum þeir einu hér sem eru færir um þetta!“
Árlegar vetrarfuglatalningar hófust á Íslandi um jólaleytið 1952 að amerískri fyrirmynd. Þetta verkefni er ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda. Fyrsta árið var talið á 11 svæðum en þeim fjölgaði svo jafnt og þétt næstu árin og voru þau orðin 44 árið 1958 víðs vegar um land en fremur fá svæði bættust síðan við fram yfir 1970 (Ævar Petersen 1983).
Fuglaáhugamenn tóku þessu nýja verkefni fagnandi og töldu margir af upphafsmönnum svæði sín áratugum saman eftir það. Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á síðustu árum hafa hátt á annað hundrað manns tekið þátt í því. Talningar fóru lengst af fram á frídegi milli jóla og nýárs og oft varð annar dagur jóla fyrir valinu. Af þeim sökum voru talningar þessar oft nefndar „jólatalningar“.
Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar eru staðlaðar og geta því nýst til vöktunar einstakra stofna. Umsjón með þessum talningum hefur Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fagsviðstjóri dýrafræði á Náttúrufræðistofnun Íslands.
Sjá einnig:
13.01.2009 Óhemjumikið af fugli á svæðinu í grennd við Reykhóla
14.07.2008 Tumi bóndi á Reykhólum og leyndarmál branduglunnar