Kynningarfundur um fyrirhugaða flokkun sorps
Eins og hér hefur komið fram hefur Reykhólahreppur ákveðið að hefja um næstu mánaðamót flokkun sorps í samvinnu við Gámaþjónustu Vesturlands, íbúa, fyrirtæki og stofnanir. Annað kvöld, fimmtudaginn 3. maí, er efnt til íbúafundar í matsal Reykhólaskóla, þar sem fulltrúar frá Gámaþjónustunni kynna flokkunina og úrlausnir í þeim efnum. Fundurinn hefst kl. 20 og hvetur sveitarstjórnin íbúa sveitarfélagsins til þess að koma á hann.
Það er stefna Reykhólahrepps að minnka úrgang í sveitarfélaginu og draga úr magni sorps sem fer til urðunar. Flokkun sorps verði efld og endurnýting og endurvinnsla aukin. Hægt er að draga úr urðun um 60-80% með því að flokka sorp sem fellur til á heimilum. Stefnt er að því að flokka í tvo flokka, endurvinnanlegt sorp og almennt sorp.
► Framkvæmdir á sorpsvæði: Flokkun hefst í vor (13. apríl 2012)
Jafnframt er minnt á Umhverfisdaginn á laugardag.