Tenglar

30. september 2011 |

Mikil eftirspurn eftir mjöli úr hrossaþara

Þorgeir Már Samúelsson.
Þorgeir Már Samúelsson.

Þörungaverksmiðjan hf. á Reykhólum annar ekki vaxandi eftirspurn eftir mjöli úr hrossaþara. Í sumar var þess vegna tekinn tími í þá framleiðslu sem annars er eingöngu á veturna. Nýja flutningaskipið Grettir reynist mjög vel þrátt fyrir hrakspár. Þangslátturinn framan af sumri gekk ekki eins og skyldi. Þetta kemur m.a. fram í spjalli við Þorgeir Má Samúelsson framleiðslustjóra verksmiðjunnar, sem jafnframt hefur annast daglega stjórn frá því að Atli Georg Árnason lét af starfi framkvæmdastjóra fyrir þremur og hálfum mánuði. Einar Sveinn Ólafsson sem ráðinn hefur verið í stað hans er væntanlegur til starfa núna snemma í október.

 

„Nei, þangslátturinn hefur ekki gengið eins og skyldi að þessu sinni. Í seinni hluta maí og fram eftir júní var ótíðin með ólíkindum. Segja má að þess vegna vanti einn mánuð til að ná eðlilegum framleiðslutölum miðað við síðasta ár. Núna erum við búnir að landa á tíunda þúsund tonnum en á þrettánda þúsund tonnum á sama tíma í fyrra. Líka erum við aðeins með fjóra pramma af sex við sláttinn. Tveir fóru í endurbyggingu í Stykkishólmi. Annað hefur gengið þokkalega í sumar“, segir Þorgeir. „Nýja skipið plumar sig vel og samkvæmt öllum væntingum. Það kemur feiknavel út miðað við þær hrakspár sem voru í gangi. Afkastagetan er tvöfalt meiri en hjá því gamla.“

 

Mikið þarf að fara um grunnsævi til að sækja þangið og Þorgeir er spurður hvort Grettir sé ekki djúpristari en Karlsey gamla var. „Eitthvað djúpristari en ekkert sem munar. Skipstjórinn tekur bara tillit til þess varðandi sjávarhæð. Það fer allra sinna ferða og allar þær leiðir sem farnar voru á Karlsey en er fljótara í förum. Grettir lestar yfir þrjú hundruð tonn en Karlsey tók í mesta lagi um hundrað og áttatíu tonn.“

 

Aðspurður um þær hrakspár sem Þorgeir nefndi segir hann: „Þær gengu það langt að einhverjir höfðu samband við Byggðastofnun [sem á rúmlega fjórðungshlut í verksmiðjunni] og sögðu að verið væri að gera stórkostleg mistök. Þau áttu að vera fólgin í því að skipið væri svo djúprist að það kæmist aldrei um Breiðafjörðinn. Ég fékk í sumar símtal frá Byggðastofnun þar sem spurt var hvort þetta gæti staðist, að það vantaði sjó í Breiðafjörð svo að skipið flyti. En þetta hefur komið mjög vel út og ég hef ekki heyrt annað á skipstjóranum en að hann sé mjög ánægður með skipið.“

 

Þorgeir segir ekki hægt að anna eftirspurn eftir hrossaþara. „Nú er svo komið að við vorum að senda úr húsi síðustu kornin frá framleiðslunni núna í sumar. Við tókum í það svolítinn tíma í sumar til að hafa eitthvað fyrir kaupendur. Venjulega er hann aðeins unninn yfir veturinn. Núna þegar þangvertíðinni lýkur verðum við að snúa okkur snarlega að því að vinna hrossaþara í allan vetur. Eigendurnir vilja auka framleiðsluna á mjöli úr hrossaþaranum vegna sívaxandi umfjöllunar um efni úr honum sem m.a. má nota í varnarefni fyrir geislun eins og frá kjarnorkuslysinu í Japan. Það er verið að biðja um þetta í Austur-Asíu og líka meira en verið hefur í Bandaríkjunum þangað sem fara m.a. á annað þúsund tonn á ári af þangmjöli til notkunar í fóður fyrir nautgripi. Líka er vaxandi eftirspurn í Þýskalandi og þó enn frekar í Frakklandi þar sem verið er að gera tilraunir með notkun efnis úr hrossaþaramjölinu í fúkkalyf.“

 

Mest af framleiðslunni úr þanginu og þaranum fer í lyfjagerð og snyrtivörur og í heilsulindir, auk þess sem mikið er notað í dýrafóður. Markaður hérlendis er í mýflugumynd og nánast öll framleiðslan flutt út.

 

Engin hætta er á ofnýtingu þangsins eða þarans, að sögn Þorgeirs. „Nei, alveg afdráttarlaust ekki. Þetta er sjálfbært og miklu meira en það. Ekki er farið yfir nema eitthvert brot af þanglöndum hér í Breiðafirði á hverju ári. Á þeim blettum þar sem við höfum verið að taka hrossaþarinn er hann í hundruðum þúsunda tonna, segja vísindamenn eins og bæði Karl Gunnarsson og þeir hjá Hafrannsóknastofnun.“ Einkum er hrossaþarinn tekinn við Fagurey undan Fagradal á Skarðsströnd beint á móti Reykhólum en líka á Skálanesgrunninu og vestur af Sölvaskerjum í Skáleyjum.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30