Tenglar

14. desember 2011 |

Skipulagsstofnun bregst við gagnrýni

Núverandi vegur í vestanverðum Mjóafirði í Reykhólahreppi.
Núverandi vegur í vestanverðum Mjóafirði í Reykhólahreppi.

Skipulagsstofnun brást við harkalegri gagnrýni á umsögn hennar varðandi fyrirhugaða vegagerð vestast í Reykhólahreppi og að hluta innan marka Vesturbyggðar með því að senda frá sér tilkynningu sem hefst á þessa leið: „Þann 5. desember sl. gaf Skipulagsstofnun út álit vegna mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar milli Eiðis í Vattarfirði og Þverár í Kjálkafirði. Það álit hefur orðið tilefni til athugasemda þingmanns Vesturlands og ályktunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar, sem Skipulagsstofnun telur rétt að bregðast við.“

 

Í tilkynningunni segir m.a.:

 

„Því hefur m.a. verið haldið fram að Skipulagsstofnun hafi fyrirfram gefnar skoðanir á vegagerð á Vestfjörðum og leggist gegn þverun Mjóafjarðar og Kjálkafjarðar. Í matsskýrslu Vegagerðarinnar eru lagðir fram tveir veglínukostir, sem báðir gera ráð fyrir að þvera firðina, en í tilfelli Mjóafjarðar voru metnir kostir þess að þvera fjörðinn annars vegar í mynni hans og hins vegar nærri botni hans. Aðrir veglínukostir voru ekki metnir. Hvergi í áliti Skipulagsstofnunar er að finna skoðun stofnunarinnar á því hvorn kostinn skuli frekar velja.“

 

Einnig segir þar:

 

„Fyrirhugaður kafli Vestfjarðavegar hefur það markmið að stytta vegalengdir og bæta samgöngur á Vestfjörðum. Hins vegar er ljóst að þessi umfangsmikla framkvæmd getur ekki orðið að veruleika án þess að hafa í för með sér neikvæð áhrif á umhverfi sitt, s.s. á landslag og arnarvarp. Þau neikvæðu áhrif hvorki minnka né hverfa þrátt fyrir að markmiðið með framkvæmdinni sé jákvætt fyrir samfélag.“

 

Lokaorðin í tilkynningunni eru þessi:

 

„Skipulagsstofnun hefur það hlutverk að tryggja að farið sé eftir markmiðum og ákvæðum laganna þegar metin eru umhverfisáhrif framkvæmda og telur sig hafa uppfyllt það hlutverk sitt í þessu tilfelli. Í framhaldinu munu sveitarfélög sem í hlut eiga taka ákvörðun um hvort veita eigi leyfi fyrir framkvæmdunum og skulu þá taka mið af niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum. Við útgáfu leyfanna þarf m.a. að gera ráð fyrir samráði, skilyrðum og mótvægisaðgerðum sem matsferlið hefur leitt í ljós að sé nauðsynlegt til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og þar með er uppfyllt eitt af meginmarkmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum.“

 

Stefán Thors, forstjóri Skipulagsstofnunar, skrifar í framhaldi af þessu grein í Morgunblaðið í dag þar sem rakin eru helstu efnisatriði tilkynningarinnar. Jafnframt gagnrýnir Stefán skrif Sturlu Böðvarssonar fyrrverandi samgönguráðherra í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Þar segir Sturla meðal annars í tilefni af stórri blaðaauglýsingu þar sem álit stofnunarinnar var birt: „Skipulagsstofnun auglýsir fyrir skattpeninga okkar forneskju sína og fyrirlitningu á þörfum fólksins í hinum dreifðu byggðum.“

 

Einnig segir Stefán Thors m.a. í grein sinni:

 

„Reiði þingmanna, sveitarstjórnarmanna og íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum er skiljanleg þegar til þess er litið hversu hægt gengur að bæta úr vegasamgöngum á svæðinu. Það er líka eðlilegt að hluti reiðinnar beinist gegn Skipulagsstofnun þar sem það er hlutverk hennar að gera í áliti grein fyrir helstu forsendum umhverfismatsins og niðurstöðum þess. Það er hins vegar mjög mikilvægt að þeir sem vilja hella úr skálum reiði sinnar á opinberum vettvangi kynni sér áður málið með því t.d. að lesa álit Skipulagsstofnunar.

  

Sjá einnig:

08.12.2011  „Enn á að tefja möguleikana á vegabótum“

07.12.2011  Vegagerðin ætlar samt að halda sínu striki

07.12.2011  Skipulagsstofnun þversum gegn nýjum vegi

 

Fréttatilkynning Skipulagsstofnunar í heild

Álit Skipulagsstofnunar 5. desember 2011

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31