Þrautreynd í starf framkvæmdastjóra Vesturferða
Nancy Bechtloff hefur verið ráðin framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Vesturferða, en Reykhólahreppur er meðal nýrra hluthafa í skrifstofunni. Ráðgert er að Nancy hefji störf í lok janúar eða byrjun febrúar. Núna er hún markaðs- og sölufulltrúi meginlands Evrópu hjá Iceland Express. „Ég er mjög spennt að takast á við þetta verkefni og þar sem ég hef áður búið og unnið á Vestfjörðum, þá leggst þetta mjög vel í mig“, segir Nancy. Hún var valin úr hópi 22 umsækjenda en stjórn Vesturferða kallaði sex þeirra í viðtal.
„Stjórn Vesturferða var einróma að ráða Nancy í starfið og hlakkar til samstarfsins og telur ráðninguna vera til heilla fyrir vestfirska ferðaþjónustu,“ segir Guðmundur Helgi Helgason, hótelhaldari á Núpi í Dýrafirði, formaður stjórnarinnar.
Á þessu ári hafa orðið miklar breytingar hjá Vesturferðum. Í vor keyptu Ferðamálasamtök Vestfjarða 70% hlut í skrifstofunni af Hótel Ísafirði og Flugfélagi Íslands. Samtökin ákváðu svo að selja 45% af eignarhlut sínum til ferðaþjóna og sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Ríflega fimmtíu tóku þátt í hlutafjáraukningu Vesturferða, sem hafði það markmið að sameina þá sem koma að ferðaþjónustu á Vestfjörðum og bjóða viðskiptavinum upp á eina öfluga sölugátt inn á svæðið. Nancy segir að sér lítist mjög vel á þessar breytingar. „Mér finnst þetta nauðsynlegt skref, að sameina markmiðin og vinna saman að því að ná þeim. Þetta verður mjög spennandi verkefni og ég hlakka til að taka þátt í því“, segir hún í samtali við bb.is á Ísafirði.
Nancy hefur mikla reynslu af ferðaþjónustu og hefur til að mynda unnið hjá Ferðamálastofu Íslands í Þýskalandi. Einnig hefur hún áður komið að ferðaþjónustu á Vestfjörðum. „Ég var sú sem tók á móti fyrstu sjóstangaveiðimönnunum sem fóru til Tálknafjarðar og Súðavíkur sumarið 2006. Ég vann svo 2009 og 2010 á ferðaskrifstofu í Reykjavík og sá þá um sjóstangaveiðimenn sem fóru til Suðureyrar og Flateyrar.“
Sjá einnig:
24.09.2011 Reykhólahreppur kaupir hlut í Vesturferðum
31.08.2011 Framkvæmdastjóri Vesturferða ráðinn til bráðabirgða
25.03.2011 Vestfirsk ferðaskrifstofa með dreifðri eignaraðild?