Tenglar

21. desember 2011 |

Viðskiptavinir börðu harðfiskinn sjálfir í búðinni

X-unum hefur fjölgað á landakortum.
X-unum hefur fjölgað á landakortum.
1 af 3

Við erum á þjóðvegi númer 60, Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Flókalundar, sem margir telja með fegurstu þjóðleiðum á Íslandi. Hérna fara menn fjörð eftir fjörð án þess að sjá eitt einasta byggða ból. Á leið að vestan aka menn um samfelldar eyðibyggðir í einn og hálfan tíma áður en komið er að Skálanesi, sem nú er orðið útvörður byggðarinnar.

 

En þannig var það ekki þegar Hallgrímur Jónsson var þar að stíga sín fyrstu spor fyrir meira en áttatíu árum. Þegar hann var ungur var búið á um fjörutíu bæjum í Múlasveit og Gufudalssveit og í eyjunum úti fyrir sem heyrðu undir Flateyjarhrepp. Síðan hafa heimilin horfið hvert af öðru og X-unum fjölgað á landakortum, táknum eyðibýla.

 

Þannig kemst Kristján Már Unnarsson fréttamaður að orði í inngangi mannlífsmyndar í þættinum Íslandi í dag  á Stöð 2 í gærkvöldi. Mannlífsmynd þessi er frá heimsókn að Skálanesi yst við vestanverðan Þorskafjörð. Í haust ferðaðist Kristján Már ásamt tökumanni um sunnanverðan Vestfjarðakjálkann og hefur sú ferð orðið honum efniviður í fjölmargar fréttir og viðtöl sem birst hafa smátt og smátt.

 

Þessi heimsókn að Skálanesi er síðasti afraksturinn sem birtist úr þeirri fréttaferð. Áður hafa komið í fréttum Stöðvar 2 viðtöl við bæði Hallgrím og Andreu Björnsdóttur tengdadóttur hans, oddvita Reykhólahrepps. Hér er rætt við þá feðgana Hallgrím og Svein son hans.

 

Meðal annars rifjar Hallgrímur upp sögu útibús kaupfélagsins á Skálanesi. Hann segir ferðafólk sakna þess, ekki síst harðfisksins, sem var seldur óbarinn en viðskiptavinir fengu hamar lánaðan í búðinni til að berja hann sjálfir.

 

Skálanes er þekktast úr kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börnum náttúrunnar. Atriði í myndinni voru tekin þar upp fyrir rúmum tuttugu árum, um það leyti sem rekstri kaupfélagsútibúsins þar var hætt. Í viðtalinu rifjar Hallgrímur upp kynni sín af kvikmyndafólkinu sem dvaldi á Skálanesi í tvo daga við upptökur.

 

Ísland í dag - Skálanes:  Smellið hér til að sjá og heyra

 

Meðfylgjandi myndir eru skjáskot úr innslaginu í Íslandi í dag.

 

Sjá einnig:

04.10.2011  Múlasveit: Firðir brúaðir og mikil stytting (rætt við Andreu Björnsdóttur)

06.10.2011  Myndskeið um nýja veginn á Skálanesi

10.10.2011  Ekki pláss fyrir verðlaunin í bakpokaferð um heiminn (Ágústa Ýr Sveinsdóttir)

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31