Stofnanir vita alltaf betur, eða hvað?
„Þrátt fyrir alla þessa umferð með tilheyrandi umferðarhávaða hafa ernir við Vestfjarðaveg komið upp ungum ár eftir ár. Þessi vegagerðarhávaði sem Skipulagsstofnun virðist hafa uppgötvað hlýtur að vera alveg sérstakt fyrirbæri og sætir furðu að ekki hafi verið birtar um þetta lærðar greinar“, segir Þórólfur Halldórsson, fyrrv. sýslumaður í Barðastrandarsýslum og núverandi og frá upphafi nefndarmaður í Breiðafjarðarnefnd.
„Álit stofnunarinnar um áhrif framkvæmdarinnar á viðkomu arna hljómar eins og hvert annað svartagallsraus. Telur stofnunin að til að koma í veg fyrir að hávaði frá vegavinnuframkvæmdum styggi erni frá varpi þurfi að setja skilyrði í framkvæmdaleyfi um að vinna við vegaframkvæmdir verði bönnuð nærri virkum varpstöðum arna á þeim tíma sem varp stendur yfir?“
Enn spyr Þórólfur:
„Hvað með hávaðann frá flugvél Náttúrufræðistofnunar sem flýgur lágflug yfir arnarhreiðrin til að telja egg og unga? Hvað með hávaðann frá utanborðsmótorum báta þeirra sem fara á vegum Náttúrufræðistofnunar í hreiðrin sjálf til að merkja arnarungana? Hvað með hávaðann frá allri venjulegri umferð um Vestfjarðaveg gegnum árin? Hvað með hávaðann frá bátum sjófarenda, t.d. vegna veiða, þangsláttar, hlunnindanytja eða sports?“
Sjá nánar grein Þórólfs Halldórssonar fyrrverandi sýslumanns Barðstrendinga í heild undir Sjónarmið / Aðsent efni í valmyndinni vinstra megin.
Sjá einnig:
14.12.2011 Skipulagsstofnun bregst við gagnrýni
08.12.2011 „Enn á að tefja möguleikana á vegabótum“
07.12.2011 Vegagerðin ætlar samt að halda sínu striki
07.12.2011 Skipulagsstofnun þversum gegn nýjum vegi