Tenglar

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Það sem helst má draga fram sem ástæðu stjórnarslitanna og snemmbúinna Alþingiskosninga er gífurlega uppsöfnuð gremja almennings út í klíkuskap og sérmeðferð útvalinna í þjóðfélaginu. Skemmst er að minnast þingkosninganna í fyrra sem urðu af sömu ástæðu. Panama skjölin drógu fram að hópur fólks í þjóðfélaginu geymdi fé sitt erlendis og leyndi auðævum sínum. Ekki var endilega um lögbrot að ræða heldur fremur að vel tengdir og efnaðir einstaklingar nutu innherjaupplýsinga um stöðu fjármálakerfisins og nýttu sér rúmt svigrúm laganna til þess að flytja fé sitt milli landa í tæka tíð. Minna má á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem staðfestu að nokkrir stjórnmálamenn voru tengdir viðskiptabönkunum á ábatasaman hátt fyrir þá. 

Panama skjölin

Reiði almennings vegna uppljóstrunarinnar í Panamaskjölunum varð gífurleg og feykti tiltölulega vinsælum forsætisráðherra úr valdastólnum á augabragði og ríkisstjórnin varð að boða til kosninga. Þarna varð opinbert að til er á Íslandi þjóðfélagshópur sem deilir ekki kjörum með öðrum landsmönnum. Aðgangur að upplýsingum var lykilatriði og annað sem almenningi varð líka ljóst er að í þessum hópi auð- og valdamanna voru menn sem gátu ráðið miklu eða jafnvel öllu um löggjöf. Það er að sjálfsögðu mjög hentugt og skapar mikinn freistnivanda eins og það heitir á frekar kurteisu máli í hagfræðinni. Þegar menn svo falla í freistnina þá er það hreinræktuð spilling á öllum tungumálum, jafnvel íslensku.

Uppreistir en ærulausir

Að þessu sinni sauð upp úr þegar í ljós kom að afbrotamenn gagnvart börnum höfðu sumir hverjir fengið uppreista æru fyrr en meginregla laganna mælir fyrir um og án staðfestrar vitneskju um betrun. Fyrir almenningi birtist málið þannig að með því að þekkja réttu mennina væri hægt að fá sérmeðferð í kerfinu og því var svo reynt í lengstu lög að leyna. Annar Engeyingurinn í ríkisstjórninni var svo gersneyddur skilningi á alvarleik málsins að hann var settur af sem formaður flokksins til þess í nauðvörn að freista þess að bjarga flokknum undan reiði kjósenda. Í þessari atburðarás má segja að kristallist átakalínurnar í þjóðfélaginu. Það er uppreisn þjóðarinnar gegn sérstöðu og sérstakri aðstöðu útvalinna í þjóðfélaginu sem sigla annan sjó en almenningur.

Uppreisn gegn klíkuskap

Það er ekki aðeins klíkuskapur varðandi ærumálin heldur bætist sífellt í málafjöldann sem staðfestir að valdamiklir stjórnmálamenn hafa sérstakan aðgang að upplýsingum til þess að annað hvort að auðgast eða verjast fjárhagslegum skakkaföllum.
Engeyingarnir í ríkisstjórn eru svo umsvifamiklir í viðskiptalífinu að furðu sætir að þeir hafi nokkurn tíma til þess að sinna stjórnmálalegum skyldum sínum. Forsætisráðherrann er þó sýnu fremri að þessu leyti.
Upplýst er að hann fékk árið 2006, þegar allt var í vellukkunar standi 50 mkr kúlulán til þriggja ára til þess að kaupa ábatasöm hlutabréf. Skömmu fyrir hrun, þegar innvígðir höfðu upplýsingar sem almenningur hafði ekki um stöðu fjármálakerfisins, var skuldið færð yfir á félag og forsætisráðherrann losaður undan ábyrgð. Af því var svo afskrifað skuldbindingum upp á milljarða króna. 

Á þessum tíma var núverandi forsætisráðherra umsvifamikill á fjármálamarkaði og varði háum fjárhæðum í fjárfestingar til skamms tíma í von um ábata. Það þarf ekki að stafa ofan í fólk að fjárfestir sem jafnfram er innsti koppur í búri í stærsta stjórnmálaflokki landsins á þeim tíma er ekki líklegur til þess að skilja rétt á milli eigin hagsmuna og almannahags. 

Svo er hart barist fyrir auðmenn og spillta valdamenn að sett er lögbann á frekari upplýsingar um fjármálaumsvif Engeyinganna og sérstaklega um fráfarandi forsætisráðherra. Er nú bankaleyndin notuð sem skálkaskjól til þess að leyna sannleikanum í aðdraganda alþingiskosninga. 


Borgun

Borgunmálið er eitt málið sem þyrlar upp grunsemdum um innherjaupplýsingar fengnar í krafti ráðheraembættis hafi verið nýttar til fjárhagslegs ávinnings innan ættarinnar. Hlutur Landsbankans í Borgun var seldur á verði sem ekki tók tillit til vitneskju um að verðmæti Borgunar myndi hækka stórlega. Í Morgunblaðinu kom fram í ársbyrjun 2016 að ríkisbankinn Landsbankinn hefði tapað á annan tug milljarða króna á þessari „handvömm“. Fyrirtæki í eigu föðurbróður forsætisráðherrans, sem þá var fjármálaráðherra var aðili að kaupunum og hagnaðist vel.

Auðvitað er því haldið fram að allt séu þetta tilviljanir. Stundum má trúa því að svo hafi verið. En það þarf mikla trú til þess að afneita öllum þeim málum sem komið hafa upp og varðað hafa stjórnmálamenn og viðskiptalífið. Nóg er komið af gruggugum málum. Lögbannið tekur steininn úr ósvífninni. Heilbrigð stjórnmál verða fyrst með fullum aðskilnaði stjórnmála og viðskipta. Það er krafa almennings.

Kristinn H. Gunnarsson. 

 


10. október 2017

Rísið upp Vestfirðingar

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Alþingiskosningar brustu á fyrirvaralaust og þær verða fyrir lok næsta mánaðar. Trúnaðarbrestur milli manna í ríkisstjórninni varð ríkisstjórninni að falli. Það er sérstaklega athyglisvert að allar þrjár síðustu ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sæti í hafa hvellsprungið áður en kjörtímabilið var liðið. Fráfarandi ríkisstjórn er skammlífasta meirihlutastjórn sem sögur fara af. Frá hruni fjármálakerfisins 2008 hefur verið mikill óróleiki í þjóðfélaginu. 

Vantraust

Vantraust almennings í garð auðs og valds, þar með pólitískra valdhafa, er mikið og fer frekar vaxandi með árunum. Krafa kjósenda til stjórnmálamanna er um heilindi og trúnað við almenna hagsmuni. Stjórnmálaflokkarnir eiga í erfiðleikum með að laga sig að þessum kröfum almennings eftir hrun eins og sést á miklum fylgissveifum, stofnun nýrra flokka og sundrungar í eldri flokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er fastheldnari en aðrir flokkar á fyrirhruns viðmið og það hefur orðið samstarfsflokkum hans um megn í stjórnarssamstarfi. Þeir stjórnmálaflokkar sem leita aftur fyrir hrun að pólitískum viðmiðunum og starfsháttum standa helst í vegi fyrir réttlátari leikreglum í þjóðfélaginu, en þær eru forsenda þess að gjáin milli þings og þjóðar verði brúuð.

Tækifæri Vestfirðinga

Í komandi kosningum , sem verða þær fjórðu frá hruni fjármálakerfisins, takast á þeir sem vilja að stjórnmál mótist fyrst og fremst af almennum hagsmunum þar sem jafnræði ríkir um tækifærin og gæðin í þjóðfélaginu og hinna gömlu viðhorfa um sérreglur fyrir innvígða og innmúraða. Almannahagsmunir gegn sérhagsmunum. Hagur almennings gegn gengdarlausri auðsöfnum kvótagreifa og ættstórra fjármálamanna. Sömu reglur fyrir háa sem lága. Þessar Alþingiskosningar verða tækifæri fyrir Vestfirðinga til þess að rétta sinn hlut. Gengið hefur verið á hlut þeirra í hverju málinu á fætur öðru. Nú eiga Vestfirðingar að rísa upp sem einn maður og krefjast jafnréttis á við aðra landsmenn. Þeir eiga að krefjast sömu tækifæra og öðrum standa til boða og þeir eiga að krefjast sömu lífskjara og aðrir búa við. Það er sama hvar í flokki menn standa, ranglætið brennur á þeim öllum. Það er sama að hvaða flokki kröfunni er beint, þeir eiga allir að vinna að jöfnum rétti og tækifærum Vestfirðingum til handa. 

Jaðarsettir Vestfirðingar 

Þrjú mál hafa brunnið heitast á Vestfirðingum síðustu mánuði. Áralöng árangurslaus barátta fyrir góðum vegi um Teigsskóg í Gufudalssveit, virkjun Hvalár í Ófeigsfirði og áframhaldandi uppbygging laxeldis í sjó. Ákveðin atriði koma fram í þeim öllum og eru sameiginleg. Einstaklingar, samtök og stofnanir hafa lagst gegn framgangi þeirra af mikilli hörku í nafni umhverfis- og náttúruverndar. Það má ekki spilla gróðri í Þorskafirði, vatnafari og ásýnd fossa í Ófeigsfirði og ekki heldur má ala lax í Ísafjarðardjúpi. Hvert þessara mála mun færa aðstæður á Vestfjörðum nær því sem annars staðar gerist. Vegir munu batna, raforkuöryggi mun aukast og atvinna mun verða meir og fjölbreyttari. Þetta eru eðlileg framfaraskref sem hafa verið tekin annars staðar á landinu íbúunum þar og þjóðinni allri til hagsbóta. Okkur Vestfirðingum er neitað um framfarir og of margir stjórnmálamenn verða þvöglumæltir og jafnvel óskiljanlegir þegar þeir eru krafðir um stuðning. Vestfirðingar eru jaðarsettir í eigin landi og neitað um sömu tækifæri og öðrum bjóðast. 

Tvöfeldni í náttúru- og umhverfisvernd

Langflestir andstæðingar framfaranna á Vestfjörðum búa á höfuðborgarsvæðinu við bestu aðstæður. Gildir það um landeigendur, embættismenn, lækna og stjórnmálamanna sem horfa til atkvæðastuðnings á mölinni. Svo virðist sem þessi stóri hópur hafi tekið upp tvöföld viðhorf í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Á heimaslóðum stendur ekkert í vegi fyrir framförum og nýjum atvinnurekstri. Það má alls staðar leggja vegi, yfir holt, hraun, fjörur og annað sem fyrir verður. Gálgahraun hvað? Það má alls staðar byggja hótel, sneinsnar frá hinu stílhreina Alþingishúsi og jafnvel kirkjugarði er sópað burt án þess að nokkur Teigsskógarvinurinn depli auga. Þar eru framfarir og tekjusköpun í fyrirúmi. Þegar komið er út fyrir höfuðborgarsvæðis breytist hljóðið í þessum hópi landsmanna. Þá fer gróður og náttúra að verða mikilvægari en allt annað, þar með talið mannfólkið. Vestfirðingar hafa lent illilega í þessum tvískinnungi. Það er eins og andmælendur Vestjarða bæti sér upp virðingarleysið við náttúruna á heimaslóðum með því að hefja upp til skýjanna náttúruna á Vestfjörðum. Öfgarnar slá þá út í hina áttina.

Kannski er þetta sálfræðilegt atriði sem minnir á syndina og yfirbótina í kaþólskunni þar sem syndararnir teka yfirbótina út á Vestfirðingum. En þessi tvöfeldni getur aldrei verið ásættanleg fyrir Vestfirðinga né heldur aðra landsmenn sem verða fyrir þessari sömu ógæfu. Það verða að gilda sömu viðhorf um allt land, sömu tækifæri til þess að lifa og starfa á landinu og auðlindum þess. Vestfirðingar vilja hafa vinnu, aka vegi og framleiða orku á hagkvæman hátt rétt eins og aðrir landsmenn og vera hluti af samofnu neti samskipta og viðskipta þar sem hver landshluti er órjúfanlegur þáttur í þjóðfélaginu. Fyrir þessari kröfu eiga Vestfirðingar að rísa upp, sem einn maður. Eigi víkja! 

Kristinn H. Gunnarsson 

7. október 2017

Vaskur hópur VG

Bjarni Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rúnar Gíslason og Dagrún Ósk Jónsdóttir
Bjarni Jónsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Rúnar Gíslason og Dagrún Ósk Jónsdóttir

Kosningar til alþingis á hverju ári er ekki óskastaða en bregðast verður við þegar ríkisstjórnin ræður ekki við hlutverk sitt eins og raun ber vitni.

Nú liggur fyrir öflugur listi VG í  norðvesturkjördæmi sem ætlar að berjast fyrir hag landsbyggðarinnar og réttlátu og heiðarlegu samfélagi sem gerir ungu fólk kleift að mennta sig og stofna heimili og öldruðum og öryrkjum fært að lifa mannsæmandi lífi. Fátækt er óásættanleg í ríku samfélagi.


Við viljum færa íslenskt samfélag af braut eiginhagsmunahyggju og græðgisvæðingar og byggja á samfélagslegri ábyrgð og félagshyggju þar sem afrakstur sameiginlegra auðlinda og skattfés nýtist almenningi í landinu í alhliða innviðauppbyggingu.

Við viljum að landsbyggðin byggi á styrkleikum sínum í sátt við umhverfið og fái að njóta auðlinda sinna í sínu nærumhverfi á sjálfbæran hátt.


Við viljum styðja við nýsköpun og framþróun sem nær til landsins alls og jafna búsetuskilyrðin.

Hvert og eitt einasta samfélag á Íslandi er dýrmætt atvinnulega, menningarlega, félagslega og sögulega. Hellissandur, Hofsós, Þingeyri, Akranes eða Árneshreppur; allt eru þetta staðir sem okkur sem samfélagi ber að standa vörð um þegar erfiðleikar steðja að. Það sama á við um aðra bæi, sveitir og þorp um allt land sem geta lent í áföllum.

Því oftar en ekki eru áföllin komin til af mannanna verkum, leikreglum sem settar hafa verið af stjórnmálamönnum og leiða til afleiðinga sem bitna harkalega á fólki og fyrirtækjum.

Við verðum að taka á vitlausu kvótakerfi sem stuðlað hefur að samþjöppun í greininni og bitnað harkalega á mörgum byggðarlögum sem geta ekki rönd við reist þegar fjármagnið eitt stjórnar ferðinni og ekkert tillit er tekið til fólksins sem skapað hefur arðinn. Þessi þróun hefur leitt til auðs og valda fárra aðila sem eru ráðandi í greininni í dag og skapað óvissu og óöryggi íbúa sjávarbyggða sem vita ekki hvort eða hvenær kvótinn verður seldur úr byggðarlaginu.

Það er nauðsynlegt að byggðafesta aflaheimildir að hluta og að ríkið geti leigt og úthlutað aflaheimildum úr leigupotti og að strandveiðar verði efldar og kerfið opnað fyrir nýliðun. Þá þurfa veiðigjöldin að endurspegla hagnað í greininni eftir útgerðarflokkum.


Landbúnaðurinn er okkur mikilvægur og fólk er orðið meðvitað um hve mikilvægt er að neyta heilnæmra afurða sem framleiddar eru í nærumhverfinu. Það er umhverfisvænt að flytja ekki matvæli um hálfan hnöttinn sem við getum framleitt sjálf og tryggir okkur matvælaöryggi og grundvöll fyrir matvælaiðnaði í landinu með fjölda afleiddra starfa. Það þarf að vinna að varanlegri lausn á vanda sauðfjárbænda í samvinnu við greinina og neytendum til hagsbóta og koma í veg fyrir þá miklu kjaraskerðingu sem blasir við sauðfjárbændum og er óásættanleg.


Það þarf virkilega að spýta í lófana hvað varðar viðhald helstu innviði landsins svo sem vega, hafna, flugvalla og fasteigna ríkisins. Uppsöfnuð þörf þar er talin vera hátt í 400 milljarðar sem sýnir að það verður okkur dýrt ef við förum ekki að forgangsraða og taka til hendinni nú þegar vel árar. Það er óásættanlegt að fjöldi fólks búi enn við malarvegi og ótryggt rafmagn og hafi ekki möguleika á að tengjast þriggja fasa rafmagni eða góðum háhraðatengingum.  

Fjárlagafrumvarpið sem fráfarandi ríkisstjórn mælti fyrir sýndi að áfram ættu t.a.m heilbrigðisstofnanir, menntastofnanir, löggæslan og nátttúrustofurnar að vera fjársveltar og samgöngur vanfjármagnaðar. Það er ólíðandi þegar svokallað góðæri ríkir.

Hvenær ætlum við að endurreisa innviðina eftir hörmungar hrunsins ef ekki þegar betur árar og skilað þjóðinni til baka hagnaði af betra árferði?


Við Vinstri græn höfum haldið uppi öflugum málflutningi á Alþingi m.a. fyrir alþýðu þessa lands, fyrir nátttúruna, fyrir landsbyggðina, fyrir öflugt heilbrigðis- og menntakerfi, fyrir femínisma og réttindum minnihlutahópa og talað fyrir samfélagslegri ábyrgð.

Við getum gert svo miklu betur í okkar góða samfélagi og byggt á réttlæti og jöfnuði.

Gerum betur með Vinstri grænum.


Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður norðvesturkjördæmis.

 

 

Gunnar Sveinsson
Gunnar Sveinsson

Eftir Gunnar Sveinsson: "Gagnrýni á tillögu kirkjuráðs og biskupafundar að leggja niður Reykhólaprestakall og flytja prest til Patreksfjarðar og prestakallið til Hólmavíkur."

 

Ýmsar eru sendingarnar að sunnan. Sumar góðar, aðrar miður góðar en fleiri arfavondar og vitlausar. Ein slík sending kom 1. maí nú í vor til Reykhólaprestakalls og Vestfjarðaprófastsdæmis frá „sérfræðingunum fyrir sunnan“ eins og bóndinn í Flatey kallar ýmsa „fræðimenn“ í Reykjavík. Þessi sending hljóðaði upp á það að leggja niður prestakall á Vestfjörðum, nánar tiltekið Reykhólaprestakall í Austur-Barðastrandarsýslu.

Kirkjuráð – hvað er það?

Þessi ólánssending kom frá ráði sem almenningur veit trauðla hvert er eða hvað stendur fyrir. Það ráð sem gaf upp þennan ólánsbolta er kirkjuráð sem kosið var 2014 og heyrir undir kirkjuþing. Í kirkjuráði sitja tveir prestar sem fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna ásamt biskupi Íslands. Til vara eru tveir fulltrúar vígðra og tveir fulltrúar leikmanna. Í reynd fer þetta ráð með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar. Helstu viðfangsefni ráðsins eru; kirkjuþing, fjármál, nýsköpun og aflvaki, yfirumsjón staða og stofnana, þjónusta við sóknir og önnur verkefni.

Kirkjustarfið heima í héraði

Heima í héraði hefur tekist að halda uppi öflugu kirkju- og safnaðarstarfi. Okkar ágæti prestur hefur verið ötull að rækta barnastarfið og sinna öldruðum á dvalar- og hvíldarheimilinu Barmahlíð svo eftir er tekið. Messað er reglulega og yfirleitt er allt safnaðarlíf í góðum uppgangi í þessu víðfeðma prestakalli. Það sem hefur varpað skugga á þetta góða starf er ástand prestsbústaðarins. Eins og svo fjölmargar byggingar í þessu landi hefur bústaðurinn undanfarin ár verið undirlagður af myglu og rakaskemmdum svo hann hefur nú verið dæmdur óíbúðarhæfur og presturinn neyðst til að flytja með fjölskyldu sína í örlitla íbúð á dvalarheimilinu Barmahlíð. Og hvað er til ráða hjá „Sérfræðingunum fyrir sunnan“? Réttast væri að leggja þetta prestakall niður, flytja prestinn hreppaflutningum „yfir fjöllin“ til Patreksfjarðar og flytja prestakallið eins og hvern annan ómaga yfir „alla Þröskulda“ til Hólmavíkur. Í stað þess að byggja myndarlega upp prestsetrið á Reykhólum með nýju húsi sem gæti kostað um 30 milljónir og um leið selja gamla bústaðinn fyrir ca. 4-5 milljónir og koma hinu nýja húsi fyrir á hinni rúmgóðu lóð sem umlykur gamla prestsbústaðinn vill þetta kirkjunnar fólk í Reykjavík leggja niður prestkallið og um leið eyðileggja allt það góða safnaðarstarf sem búið er að byggja upp í áratugi á Reykhólum. Sér er nú hver viskan hjá þessum kirkjunnar þjónum.

Vér mótmælum öll

Um leið og sendingin að sunnan barst vestur hófust miklar umræður og skoðanaskipti í sóknum Reykhólaprestakalls og reyndar meðal sókna á Vestfjörðum og niðurstaðan var öll á einn veg. Vér mótmælum þessu öll. Prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis tók í sama streng og skrifaði Biskupsstofu snarlega bréf þar sem þessu var mótmælt. Héraðsfundur Vestfjarðaprófastsdæmis sem haldinn var í byrjun september sendi frá sér skorinorða ályktun þar sem þessu var sterklega mótmælt og allar sóknir í prestakallinu sendu frá sér ályktanir sem allar voru á einn veg. Vér mótmælum þessum tillögum öll.

Ályktanir heimamanna

Fróðlegt er að grípa niður í þessar ályktanir. Í ályktun héraðsfundar Vestfjarðaprófastsdæmis segir m.a. „Héraðsfundur andmælir framkomnum hugmyndum biskupafundar um að leggja niður embætti sóknarprests á Reykhólum. Niðurlagning þess embættis mun rýra kirkjulega þjónustu í Reykhólaprestakalli....Héraðsfundur væntir þess að í stjórn kirkjunnar séu menn orða sinna og standi við skuldbindingar sínar.“

Í ályktun frá Flateyjarsókn segir m.a. „Hér eru á ferðinni afar róttækar tillögur sem í reynd fela í sér að leggja niður Reykhólaprestakall en um leið er ekki nefnd sérstaða Flateyjarsóknar. Tillögur þessar bera með sér að hafa ekki verið vel ígrundaðar eða hugsaðar til enda og settar fram af aðilum sem ekki þekkja nægilega til í Reykhólaprestakalli....Flateyjarsókn leggst alfarið gegn þessum tillögum biskupafundar...“

Hvað er til ráða?

Það hefur verið áhyggjuefni hjá kirkjunnar fólki hve mikil fækkun hefur orðið í þjóðkirkjunni á tiltölulega fáum árum. Þessar tillögur biskupafundar munu því miður stuðla að enn frekari fækkun í þjóðkirkjunni en um leið eyðileggja það mikla og góða kirkjustarf sem hefur verið stundað í Reykhólaprestakalli á umliðnum árum. Nú verður kirkjuráð, fasteignasvið biskupsembættisins, framkvæmdastjóri kirkjuráðs og okkar þrír biskupar á biskupafundi að bretta upp ermarnar og sýna landsbyggðarfólki samhug í verki og skilning og stuðla að endurreisn prestsbústaðarins á Reykhólum. Ég þykist vita að Reykhólahreppur muni leggja þessu lið, kirkjusóknir sem aflögu eru munu rétta fram hjálparhönd og íbúar Reykhólahrepps sem og brott fluttir Barðstrendingar muni koma til hjálpar til að halda presti sínum heima í sínu kirkjuprestakalli á Reykhólum.


Höfundur er viðskiptafræðingur er situr í kirkjustjórn Flateyjarkirkju en Flateyjarsókn er hluti Reykhólaprestakalls. gunnarsv@landspitali.is

 

 

Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson

Nýkjörið Alþingi er skipað nýju fólki í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Það er löngum haft á orði að nýir vendir sópa best og vafalaust er mörg dæmi unnt að tilfæra því til stuðnings. Nýju vendirnir á Alþingi eru teknir til við að sópa út af borðinu því sem áður hefur verið talið svo naglfast að aldrei myndi losna - að lög gildi ekki aftur í tímann. Bann við íþyngjandi afturvirkni laga hefur hingað til verið grundvallaratriði í túlkun dómstóla á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur hefur í ýmsum dómum áréttað að Alþingi geti ekki sett íþyngjandi ákvæði í lög gagnvart borgurum landsins.

 

Óumdeilt hefur verið að Alþingi geti sett lög og rýmkað afturvirkt rétt svo sem hækkað bætur almannatryggingar en öðru máli gegnir þegar skerða á réttindi. Þá stöðvar bann við afturvirkni laga slíkt áform varðandi liðinn tíma. Skerðingar geta því aðeins gilt fram í tímann.

Dæmi um þetta eru mýmörg. Nefna má t.d. réttindi í lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þau réttindi, sem starfmenn ávinna sér, hafa löngum verið meiri en iðgjöldin standa undir. Því hefur safnast upp skuld sem ríkið stendur í byrgð fyrir og verður að greiða. Breytingar sem fyrirhugað er að gera og breytingar sem hafa verið gerðar ná aðeins til framtíðarinnar. Engin löggjöf um þetta efni kveður á um að skerða réttindin afturvirkt. Jafnvel þótt það sé freistandi fyrir fjármálaráðherra á hverjum tíma að strika út mörg hundruða milljarða króna skuldbindingu ríkissjóðs með einni löggjöf þá hefur enginn lagt í það til þessa. 

 

Lögum ekki framfylgt

 

Nýju vendirnir hafa brugðið á alveg nýtt ráð. Þegar svo vill til að löggjöf er á annan veg en til stóð skal lögum ekki framfylgt. Lög sem samþykkt voru 13. október 2016 - það er fyrir Alþingiskosningarnar - og tóku gildi 1. janúar 2017 - það er eftir Alþingiskosningar - gerðu ýmsar breytingar á almannatryggingunum. Í ljós kom að samkvæmt nýju lögunum myndu greiðslur úr lífeyrissjóðum ekki skerða ellilífeyri. Upp varð bæði fótur og fit í velferðarráðuneytinu og Tryggingarstofnun ríkisins. Hefur komið fram opinberlega að ráðuneytið hafi falið Tryggingarstofnun að láta eins og lögin væri ekki eins og þau voru samþykkt á Alþingi heldur eins og þau hefðu átt að vera. Með öðrum orðum þá var lögunum sópað undir teppið - með nýju vöndunum - og látið eins og ekkert væri. Þetta er alveg ný lagaframkvæmd á Íslandi. Lög eru ekki það sem samþykkt er, heldur það sem samþykkja hefði átt. Ellilífeyrisþegar fengu því ekki ellilífeyri sinn greiddan að fullu þrátt fyrir óumdeild ákvæði laga. Með lögum skal land byggja - stundum.

 

Lögum breytt afturvirkt

 

Annar kaflinn í sögu nýju vandanna hófst svo í febrúar 2017. Þegar liðnir voru nærri tveir mánuðir síðan nýju lögin tóku gildi var flutt frumvarp til þess að „leiðrétta þessi lagatæknilegu mistök þar sem miklir hagsmunir eru í húfi“. Þar voru mættir allir borgaralegu flokkarnir Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Björt framtíð. Ný lög voru samþykkt þar sem „leiðréttingin“ var látin ná aftur til áramóta. Afturvirkni laganna er annað afrek nýju vandanna. Þar er lagatúlkuninni snúið við. Í stað þess að einstaklingarnir, borgararnir njóti verndar gegn ríkinu með banni við afturvirkni laga þá er látið eins og ríkið þurfi vernd gegn óhóflegum útgjöldum til gamals fólks og sú vernd er sótt með lögum eftir á.

 

Þetta er auðvitað pólitískt verkefni að koma í veg fyrir að aldraðir einstaklingar fái ellilífeyri sinn óskertan af greiðslum úr lífeyrissjóði hvers og eins. Þetta varðar fjóra tugi þúsunda einstaklinga og hver mánaðargreiðsla er 5 milljarðar króna. Þetta heitir leiðrétting á máli þessara flúnkandi nýju sópa rétt eins og það sé fullkomlega út í hött að gamalt fólk fái ellilífeyri sem það hefur með skattgreiðslum sínum á langri starfsævi unnið sér inn fyrir. 

 

Ísland verst

 

Á upplýsingavef um lífeyrismál er að finna athyglisverðar niðurstöður starfshóps sem bar saman lífeyriskerfi og samspil þess við opinbera kerfið í fimm löndum, Íslandi, Bretlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sláandi eru þær upplýsingar að Íslenska kerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr opinbera kerfinu. Ísland er jafnframt eina landið þar sem lífeyrir úr opinbera kerfinu fellur niður ef tekjur frá lífeyrissjóðum fara yfir tiltekin mörk. Það væri kannski rétt að nýju vendirnir færu í heimsókn til þessara landa og reyndu að tala um „leiðréttingu“ og sópuðu svo þessari villu sinni út af borðinu í eitt skipti fyrir öll.

 

Kristinn H. Gunnarsson.

 

Leiðari í blaðinu Vestfirðir 30. mars 2017 

Stefán Skafti Steinólfsson
Stefán Skafti Steinólfsson

 

Góðir lesendur.

Nú hefur Skipulagsstofnun skilað af sér áliti vegna vegagerðar frá Bjarkarlundi til Skálaness. Sveitarstjórn Reykhólahrepps stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun hvort hún á að gefa framkvæmdaleyfi fyrir leið Þ-H eða horfa til framtíðar og velja leið D2. Það má telja stórundarleg vinnubrögð vegagerðar ríkisins að gefa út sitt álit einungis nokkrum dögum fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Vegagerðin einblínir á leið Þ-H og segist ætla að „rýna“ í niðurstöður Skipulagsstofnunar. Með öðrum orðum þeir ætla að virða niðurstöðu skipulagsstofnunar að vettugi.

 

Ég vona að sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi hafi ekki gert upp hug sinn. Margir halda að allt snúist um Teigsskóg en svo er alls ekki. Misþyrming hans væri enn eitt umhverfisslysið, en margt kemur til er hvetur til gangnagerðar til framtíðar. Þar verður að ríkja víðsýni og fyrirhyggja.

 

Vegagerðin gekk gegn áliti Skipulagsstofnunar við þveranir Kjálka og Mjóafjarðar og sveik loforð um bátsgengar brýr svo hægt væri að slá þang með viðunandi hætti. Lokuðust þar inni u.þ.b. 2 % af þangafla Breiðafjarðar. Því ætti sveitarstjórn Reykhólahrepps að hafa áhyggjur af. Ekki síst ætti hún að hafa áhyggjur af því að með framkvæmd á leið Þ-H er verið að loka inni jafnmikið magn eða meira 2-3 % af þangbreiðum Breiðafjarðar.

 

Þess má geta að ef þessi svæði eru lögð saman með því er lokaðist inni í þverun Kolgrafarfjarðar eru þetta rúmlega 6 % af þangbreiðum Breiðafjarðar. Það kann að vera ekki stór prósenta á prenti,en „dýr myndi Hafliði allur“. Þörungaverksmiðjan á Reykhólum er stærsti vinnuveitandinn í hreppnum og dýrgripur í vinnslu sjávarfangs. Hennar veiðilendur ber að vernda og það er óskynsamlegt að gelda bestu mjólkurkúna. Skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um svæðið tekur af allan vafa um slæm og ófyrirséð áhrif á lífríkið. Ekki sé hægt að segja til um skaðann vegna straumhraða á seti.

 

Það er talað um að brunaslys séu hættuleg þegar 9 % líkamans séu brunnin. Í samlíkingunni er búið að brenna Breiðafjörð um rúmlega 10 - 15% og hætta á ferðum. Er ekki rétt að umhverfið njóti vafans og við keyrum frekar eftir góðum göngum í stað þess að flengjast út um nes.

Með leið Þ-H verða tún og ræktunarmöguleikar bænda á Skálanesi lögð í rúst. Búskap trúlega sjálfhætt. Er það enn eitt örið í þessa fallegu jörð en vegurinn fyrir nesið er eitt samfellt umhverfisslys. Farsælla hefði verið að gera stutt göng frá Gufudal til Galtarár eins og ég hef áður komið að.

 

Leiðir skólabíla munu víða lengjast og er ekki ábætandi. Leið barna til skóla mun verða rúmlega klukkutími við bestu aðstæður. Ekki er snjómokstur og hálkuvarnir til þess fallnar að batna nema síður sé. Það eru nefnilega börn í hreppnum og mikið af þeim miðað við íbúafjölda. Ekki horfir vænlega fyrir íbúa í Djúpadal og Gufudal með lengri tengingar við aðalveginn með tilheyrandi þjónustuleysi við þá vegi. Ætlar sveitarstjórn að leggja til tvo skólabíla á svæðið ?

 

Það er undarlegt að gera leið D2 tortyggilega með veghalla og skeringum. Hver hannaði veglínuna ? Var haft samband við heimamenn ? Var tekið inn i myndina að nota vegskála eftir nýjustu tækni ? Sporin frá Klettshálsi hræða. Rætt var við ágætan vörubílstjóra í útvarpi um daginn,hann tók dæmi um veginn um Arnkötludal,eða Þröskulda. Hann væri það hátt uppi að þar væri alltaf kolvitlaust veður og ófært,þó ágætt væri í byggð. Líkti því við nýja veglínu og hæð á Ódrjúgshálsi. Hann gleymdi að minnast á það að á Þröskuldum var EKKI farið eftir ráðleggingum heimamanna sem gjörþekktu svæðið.

 

Niðurstaðan var „vitlaust“ vegstæði sem skapar hættu og kostnað,gríðarlegan kostnað við snjómokstur,slys og örkymsl. Hví hefur vegagerðin hundsað ráð heimamanna er gjörþekkja svæðið bæði á láði og legi. Er hægt að fullyrða að ný veglína upp Ódrjúgsháls yrði með 8% halla ? Hvers vegna hefur vegagerðin stungið ofan í skúffu veglínu um Ódrúgsháls er nær aðeins í 90 metra hæð og er því alls ekki fjallvegur. Samt kemur vegmálastjóri í fjölmiðla og fyllyrðir að aðeins sé ein leið á láglendi.( til samanburðar er Ártúnshöfði í 70 metra hæð yfir sjó) Einnig hefur verið á teikniborðinu mun styttri göng sem hafa farið í skúffuna líka. Er hugsanlegt að verið sé að láta eina veglínu líta illa út til að hygla annari ? Svari nú hver fyrir sig. Kunnugir telja vel framkvæmanlegt að bættur vegur á Ódrjúgshálsi yrði tilbúinn síðla árs 2018.

 

Það er einfaldur fyrirsláttur að segja að ekki séu til peningar fyrir göngum í leið D2. Eru til peningar í framtíðinni til snjómoksturs eða hálkuvarna á leið Þ-H ? Svo ekki sé minnst á viðhald. Hvað hefur sparast í minni snjómokstri í vetur á landsvísu ? Er það kannski ein göng eða svo ? Þær álögur sem lagðar eru á bíleigendur fara létt með að bæta vegakerfið svo um munar. Það eina sem vantar er kjarkur að taka á málunum. Vegagerð ríkisins ætti að bjóða út 15-20 jarðgöng til að ná fram góðum samningum og stíga inn í nýja öld. Ég óska sveitarstjórn Reykhólahrepps velfarnaðar í störfum sínum og bið þau að gæta vel að ákvörðunum sínum er þau ganga til verka. Verka sem munu hafa áhrif á lífríki og mannlíf í Reykhólahreppi um aldir alda.

 

Virðingarfyllst. Stefán Skafti Steinólfsson. Breiðfirðingur.

Lilja Rafney Magnúsdóttir oddviti VG í NV kjördæmi
Lilja Rafney Magnúsdóttir oddviti VG í NV kjördæmi

Umræðan um fátækt fólk kemur alltaf reglulega upp á yfirborðið. Öll erum við sammála um að sá er veruleikinn og einnig að það sé ekki líðandi að tæp 10 % barna líði skort á Íslandi.


En það virðist vera með fátækt í íslensku samfélagi eins og óhreinu börnin hennar Evu. Enginn vill vita af fátæktinni þrátt fyrir að 7 til 9 % þjóðarinnar búi við þetta böl og um 5.000 manns við sára fátækt.

...
Meira
10. mars 2017

Fólki er nóg boðið !

Lilja Rafney Magnúsdóttir oddviti Vinstri grænna í NV kjördæmi
Lilja Rafney Magnúsdóttir oddviti Vinstri grænna í NV kjördæmi

Fjárveitingar og geðþóttaákvarðanir.


Fyrir síðustu kosningar töluðu allir flokkar um að nú þyrfti virkilega að spýta í lófana og setja meiri fjármuni í fjársveltar samgöngur og innviði almennt. Samgönguáætlun til fjögurra ára var loks afgreidd eftir mikið þóf. Þar var horfst í augu við vandann og forgangsraðað í þágu þeirra landsvæða þar sem þörfin var brýnust.


Að kosningum loknum afgreiddi þingið fjárlög sem endurspegluðu ekki samgönguáætlun en niðurstaðan byggðist á því að ný ríkisstjórn myndi taka upp fjárlögin og fullfjármagna samþykkta samgönguáætlun. Það varð nú aldeilis ekki raunin heldur tók samgönguráðherra með ábyrgð ríkisstjórnarinnar sér það geðþóttavald að gjörbreyta þeirri forgangsröðun sem Alþingi hafði samþykkt með samgönguáætlun sinni sem hefur að sjálfsögðu lögformlegt gildi. Það vantar 10 milljarða til að fjármagna samgönguáætlun og menn geta ekki boðið almenningi upp á þann málflutning að engir fjármunir séu til framkvæmda þegar upplögð tækifæri til að afla nægra fjármuna til framkvæmda blasa við.

...
Meira
Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti Vinstri grænna í NV-kjördæmi.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, oddviti Vinstri grænna í NV-kjördæmi.

Mér gafst kostur á að sækja friðarráðstefnuna World Summit 2017 í Seoul í Suður-Kóreu í byrjun þessa mánaðar. Yfirskrift hennar var Friður, öryggi og jöfnun lífskjara. Að ráðstefnunni stóðu alþjóðleg friðarsamtök og alþjóðlegt samband þingmanna fyrir friði. SunHak-friðarverðlaunin eru kennd við upphafsmenn þessara samtaka, sem voru hjónin dr. Sun Myung Moon og dr. Hak Ja Han Moon, eftirlifandi kona hans.

...
Meira
Stefán Skafti Steinólfsson.
Stefán Skafti Steinólfsson.

Það má teljast furðulegt að eftir að hafa verið flengd í Hæstarétti skuli Vegagerðin þráast við og ætla að ryðjast út um nes og eyðileggja Teigsskóg, búa til enn eitt verkfræðiklúðrið og snjóagildru. Því miður með fulltingi einhverra heimamanna, oftar en ekki embættismanna sem koma og fara. Eins og segir í skýrslu Umhverfisstofnunar: Leið B mun eyðileggja Teigsskóg í núverandi mynd. Ég hvet forsvarsmenn Vegagerðarinnar til að snúa af villu síns vegar og velja þá leið sem mun verða landi og þjóð til heilla.

...
Meira

Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30