Samræmd móttaka flóttafólks
Á fundi sveitarstjórnar í gær, 10. mars, var tekið fyrir erindi frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti um samræmda móttöku flóttafólks frá Úkraínu.
Málefni flóttafólks hafa verið áberandi í umræðunni síðustu daga og vikur, hafa sveitarfélög lýst yfir áhuga á að taka á móti flóttafólki, bæði í fjölmiðlum og samtölum við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Afgreiðsla sveitarstjórnar var svohljóðandi:
„Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og vill leggja sitt af mörkum og hvetur félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga að bregðast við brýnni þörf.“
Allir eru hvattir til að íhuga hvað þeir mögulega gætu lagt af mörkum og er skráning húsnæðis einn liður í því. Hlekkur á síðu Fjölmenningaseturs þar sem hægt er að skrá húsnæði er hér.
Gert er ráð fyrir að fjöldi fólks muni koma hingað í leit að skjóli vegna stríðsátaka.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur verið að þróa samræmda móttöku flóttafólks í samstarfi við 5 sveitarfélög. Að verkefninu koma einnig Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur, auk þess sem ráðuneytið er með samning við Rauða krossinn um félagslegan stuðning.
Nú þegar hefur fjöldi aðila boðið fram húsnæði um land allt.
Dugleg skíðakona
Íþróttamaður vikunnar er nýlegur liður í blaðinu Skessuhorni. Þar leggja þau 10 spurningar fyrir íþróttafólk úr alls konar íþróttum, á öllum aldri á Vesturlandi.
Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni er gönguskíðakonan Elísa Rún úr Reykhólasveit.
Nafn: Elísa Rún Vilbergsdóttir.
Fjölskylduhagir? Ég á heima á sveitabæ með mömmu, pabba og tveimur systrum mínum. Amma mín og afi búa líka í næsta húsi.
Hver eru þín helstu áhugamál? Teikna/mála og ljósmyndun.
Hvernig er venjulegur dagur hjá þér um þessar mundir? Ég vakna og fer í skólann, borða morgunmatinn í skólanum. Eftir skóla kem ég heim, klæði mig í skíðafötin og fer á æfingu. Það tekur sirka 45 mínútur að keyra þangað og æfingin tekur eina og hálfa til tvær klukkustundir. Þegar ég kem heim fæ ég mér kvöldmat, læri og fer að sofa.
Hverjir eru þínir helstu kostir og gallar? Kosturinn minn er að ég er dugleg að ná markmiðum mínum, en ég get stundum verið óþolinmóð.
Hversu oft æfir þú í viku? Þrisvar til fjórum sinnum.
Hver er þín fyrirmynd í íþróttum? Raggi þjálfarinn minn.
Af hverju valdir þú gönguskíði? Af því að frændi minn var á skíðum, ég prufaði og fannst það gaman og hélt áfram.
Hver er fyndnastur af þeim sem þú þekkir? Pabbi minn.
Hvað er skemmtilegast og leiðinlegast við þína íþrótt? Veðrið getur verið mjög leiðinlegt og kalt, en félagsskapurinn er skemmtilegur og mikill stuðningur frá liðsfélögum mínum.
Stöður stefnuvotta auglýstar
Sýslumaðurinn á Vestfjörðum auglýsir stöður aðalstefnuvotts og varastefnuvotts í Reykhólahreppi lausar til umsóknar.
Verkefni stefnuvotta er að birta stefnur, kvaðningar og aðrar tilkynningar í sveitarfélaginu, samanber 81. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Þar segir að til að annast þessar birtingar skipi sýslumaður a.m.k. einn mann í hverju sveitarfélagi í umdæmi sínu og annan til vara til að gegna þeim störfum í forföllum.
Greitt er fyrir starfann skv. gjaldskrá fyrir stefnuvotta sem ráðherra gefur út og er nú nr. 892/2020.
Ekki fylgja starfinu önnur laun eða tekjur en þau sem þar eru ákvörðuð.
Leitað er að heiðarlegum og áreiðanlegum einstaklingi með góða framkomu, sem æskilegt er að hafi ökutæki til umráða. Stefnuvottur þarf að hafa
náð 25 ára aldri og má ekki hafa hlotið refsidóm fram yfir fjögurra mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Stefnuvottur skal undirrita drengskaparheit um að hann
muni rækja starfann af trúmennsku og samviskusemi.
Umsóknarfrestur er til 15. mars nk. og berist umsóknir til Sýslumannsins á Vestfjörðum í netfangið jg@syslumenn.is. Öllum umsóknum verður svarað eftir að ráðið hefur verið í stöðuna/stöðurnar.
Nánari upplýsingar veitir sýslumaður, Jónas B. Guðmundsson, í síma 458 2400 eða með svari við erindum sem berast í netfangið jg@syslumenn.is
Bankinn lokaður í dag, 28. feb.
Svipmyndir milli veðra
Tafir á sorphirðu vegna veðurs
Læknisheimsókn fellur niður 21. febrúar.
Böðvar Jónsson fjallar um hitt og þetta
Böðvar Jónsson er mörgum hér af góðu kunnur eftir að hafa varið kröftum sínum við skógrækt í Skógum liðlega 4 áratugi. Hann ætlar að deila með lesendum þessarar síðu hugrenningum sínum og er fyrsti pistillinn kominn. Hann er hér, undir sjónarmið.
Böðvar segir þar meðal annars:
Kæru sveitungar
Mig langar að kynna mig til leiks hér á heimasíðunni ykkar
sem farfugl, sem kemur á vorin til Skóga en hverfur
á haustin austur á bóginn til annarra heimkynna.
Þegar sólin fer að hækka á lofti fer eitthvað innra með mér
að ókyrrast, ekki eftir því að komast til sólarlanda,
heldur í Þorskafjörðinn að Skógum.
Það sem mig langar að gera er að senda pistla og myndir
um hitt og þetta, sem safnast hefur í sarpinn á liðnum árum
með það í huga að vekja athygli ykkar á því sem sjá má í Skógum bæði smátt og stórt, gamalt og nýtt, og þar
ber fyrir augu og eyru.
Þórisstaðir - Hallsteinsnes boðið út
Vegagerðin óskar eftir tilboðum í nýbyggingu Vestfjarðavegar (60) í Þorskafirði á um 10,4 km kafla og um 0,2 km
kafla á Djúpadalsvegi.
Helstu magntölur eru:
- - Bergskering í vegstæði 262.000 m3
- - Fyllingar úr skeringum 208.100 m3
- - Fláafleygar úr skeringum 56.200 m3
- - Grjótvörn 21.000 m3
- - Ræsalögn 966 m
- - Styrktarlag, efnisvinnsla 46.600 m3
- - Styrktarlag, útlögn 43.200 m3
- - Burðarlag, efnisvinnsla 14.700 m3
- - Burðarlag, útlögn 18.300 m3
- - Klæðing 78.800 m2
- - Vegrið 2.840 m
Verkinu skal að fullu lokið 15. október 2023.
Útboðsgögn eru aðgengileg og verða afhent í rafræna útboðskerfinu TendSign frá og með miðvikudeginum 16. febrúar 2022 og skal tilboðum skilað rafrænt í því útboðskerfi fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 22. mars 2022.
Ekki verður haldinn sérstakur opnunarfundur en eftir lok tilboðsfrests verður bjóðendum tilkynnt um nöfn bjóðenda og verðtilboð.
Leiðbeiningar fyrir útboðsvefinn TendSign.
Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Eins og kemur fram í útboðinu er hér um að ræða 10,4 km. kafla, áframhald af þverun Þorskafjarðar sem er unnið við núna. Þá er eftir að bjóða út þveranir Djúpafjarðar og Gufufjarðar til að klára þennan hluta Vestfjarðavegar.
Gert er ráð fyrir að leggja háspennustreng og ídráttarrör fyrir ljósleiðara meðfram veginum.
Til að viðhalda sem best staðbundnum gróðri á vinnusvæðinu eru fyrirmæli í útboðsgögnum um að taka upp gróðurtorfur úr vegstæði og af skeringarsvæðum og setja þær yfir aftur við lok frágangs.