Tenglar

1 af 3

Þær Yrja Kristinsdóttir og Marit Davíðsdóttir komu vestur og voru með tveggja daga námskeið í skólanum, fyrir foreldra og kennara annars vegar og svo krakkana.

 

Yrja og Marit standa fyrir Gleðiskruddunni, þær halda námskeið og umfjöllunarefnið er, eins og segir á heimasíðu þeirra:

Gleðiskruddunámskeiðið byggist á jákvæðri sálfræði og leggur áherslu á að efla sjálfsþekkingu og auka vellíðan. Á námskeiðinu er lögð áhersla á gleði og að hafa gaman og blöndum við saman fræðslu og leik. Ef að veður leyfir förum við jafnvel eitthvað út í náttúruna. Helstu áherslur eru að efla; Sjálfsþekkingu, bjartsýni og von, styrkleika, trú á eigin getu, gróskuhugarfar og núvitund.

Einnig eru þær með dagbók, Gleðiskrudduna, fyrir börn á aldrinum 6 - 15 ára sem byggir á hugmyndafræði jákvæðrar sálfræði.

 

Fyrri daginnn, 8. feb. voru þær með fyrirlestur fyrir foreldra og kennara en vegna veðurs urðu að vera með hann á teams. Síðari daginn voru þær með námskeið fyrir krakkana, skipt eftir aldri, 2. til 4. bekk, 5. til 7. bekk og 8. til 10. bekk. Þær komu með dagbækur sem þær voru með til sölu. Allir voru sammála um að þetta væri frábært námskeið.

 

Ungmennafélagið Afturelding stóð fyrir námskeiðshaldinu og var það styrkt af Lions, kvenfélaginu, tómstundastarfinu, foreldrafélaginu og skólanum.

Myndir eru af heimasíðu Gleðiskruddunnar og frá Herdísi E. Matthíasd.

 

 

 

Við verðum því miður að fresta rúlluplast hreinsun fram yfir helgina. Byrjum á mánudaginn og klárum væntanlega líka þá.

Við erum enn að reyna að klára síðustu viku í Borgarfirðinum en það gengur hægt vegna óveðurs og færðar heim á bæi.

 

Það er verið að vinna í að búa til hóp í síma bílstjórans til að senda skilaboð á alla sem eru á plast listanum. Þeir ættu að fá

skilaboð í dag um þetta og þá getum við líka sent daginn áður en farið er af stað og látið vita að komið verði næsta dag.

 

Vonum að veðrið verði svo aðeins skaplegra því snjórinn er eitt en þessi ófriður setur allt úr skorðum.

 

Föstudag 4. febrúar 2022 rituðu f.h. Þörungamiðstöðvar Íslands Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. annars vegar, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, rannsókna og ráðgjafastofnun hafs og vatns hins vegar undir viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum og vöktun þörunga í vistkerfi Breiðafjarðar. Tilgangur samstarfsins er að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun einkum úr þangi og þara og sýna með rannsóknum að þessi sjávarauðlind sé nýtt á sjálfbæran hátt.

...
Meira
8. febrúar 2022

HVE Búðardal /Reykhólum

Bólusetningar gegn Covid-19 fyrir 12 ára og eldri fara fram flesta fimmtudaga á Heilsugæslustöðinni í Búðardal. Hafa þarf samband í síma 432 1450 til að skrá sig.

 

Næsta bólusetning barna 5-11 ára verður föstudaginn 11. febrúar. Þau börn sem eru að koma í sprautu 2 þarf ekki að skrá aftur (þurfa ekki nýtt strikamerki) haft verður samband við foreldra/forráðamenn með tímasetningu. Vegna fyrstu sprautu þurfa þau sem fara með forsjá barns að skrá barnið í bólusetninguna á skraning.covid.is og fá strikamerki – síðan þarf að panta tíma á heilsugæslustöðinni í síma 432 1450.

 

Börnum sem hafa fengið Covid-19 býðst að fá bólusetningu 3 mánuðum eftir staðfest smit – gildir það bæði um óbólusett börn og þau sem hafa fengið eina sprautu. Finna má upplýsingar fyrir börn og fullorðna um bólusetningar barna gegn COVID-19 á mörgum tungumálum á covid.is/barn

 

 

Næsta mánudag er áætluð hreinsun á rúlluplasti.
Vegna slæmrar veðurspár þá munum við fresta henni og vonandi bara til næsta dags, en við verðum eiginlega bara að taka stöðuna á því á mánudaginn. Það er spáð þónokkurri snjókomu og vindi svo við verðum bara að meta það eftir helgina hvernig verður að komast um á bæjum til að sækja plastið. 

 

1 af 2

Matís, Reykhólahreppur og Þörungaverksmiðjan hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í rannsóknum á vegum nýstofnaðrar Þörungamiðstöðvar Íslands á Reykhólum.

 

Í dag rituðu Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitastjóri Reykhólahrepps og Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar hf. f.h. Þörungamiðstöðvar Íslands annars vegar, og Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, hins vegar undir viljayfirlýsingu um samstarf við rannsóknir og vöktun í tengslum við Þörungamiðstöð Íslands á Reykhólum í þeim tilgangi að auka þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun úr þangi og þara með rannsóknum, fræðslu, nýsköpun og vöruþróun. 

 

Þörungamiðstöð Íslands er ætlað að vera hlutafélag með lögheimili í Reykhólahreppi í eigu Þörungaverksmiðjunnar hf. og Reykhólahrepps sem og fleiri aðila. Samkvæmt drögum að stofnsamningi er tilgangur félagsins m.a. að stuðla að aukinni þekkingu og safna í þekkingarbanka um öflun og nýtingu sjávarþörunga við Ísland, bæði ræktaðra og villtra, stunda rannsóknir með áherslu á sjávarþörunga, vera í samstarfi við rannsóknarstofnanir og fyrirtæki, veita þjónustu til rannsóknarstofnana og fyrirtækja  taka þátt í mennta- og fræðastarfi, efla ræktun þörunga og þróa afurðir úr þeim til að auka verðmætasköpun úr þessu sjávarfangi um leið og  stuðlað er að fjölbreyttari atvinnu í Reykhólahreppi. 

 

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, mun móta starfsemi Þörungamiðstöðvar Íslands. Hólmfríður stýrði uppbyggingu á rannsóknastarfssemi í kringum sjávarútveg í Verinu á Sauðárkróki þar sem starfstöð Matís á Sauðárkróki var mikilvæg svo að sprotafyrirtækið Protis var hleypt af stokkunum.  Hólmfríður var hugmyndarsmiður Protis Fiskprótín framleiðslunnar. Protis var fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem setti upp framleiðsluferil fyrir þurrkað fiskprótín og fiskkollagen sem unnið er úr hliðarafurðum fiskvinnslu og selt undir vörumerkinu Protis Fiskprótín.

 

Saga þörungavinnslu á Reykhólum er orðin 50 ára og staðbundin þekking á auðlindinni hefur safnast upp. Leitun er að heppilegri stað á landinu fyrir rannsóknastarfssemi og hagnýtri vöruþróun á sjávarþörungum. Við Breiðafjörð er um fjórðungur strandlengju Íslands og vaxtarskilyrði einstök. Fram til þessa hefur Þörungaverksmiðjan stutt rannsóknir í firðinum með því að bjóða farartæki, reynda sæfara og öryggisbúnað til að athafna sig við rannsóknir. Byggst hefur upp mikil þekking á vinnsluferli  innan Þörungaverksmiðjunnar. Með þátttöku í stofnun Þörungamiðstöðvar Íslands vill Þörungaverksmiðjan hf. efla stuðning við rannsóknir á auðlindinni og nýjar úrvinnsluleiðir, enda er  Reykhólahreppur heimavöllur hennar og íbúarnir undirstaða starfseminnar.

Þörungaverksmiðjan  framleiðir og selur hágæða þurrkað og malað klóþang og hrossaþara úr Breiðafirði. Þörungamjölið er vottað sem óblönduð lífræn vara og sjálfbær uppskera. Með aukinni tækniþróun hafa skapast gríðarleg tækifæri til fjölbreyttari nýtingar á þörungum og vinnslu verðmætra efna í matvæla-, snyrti og lyfjaiðnað með tilheyrandi verðmæta- og atvinnusköpun.

 

Þörungamiðstöð Íslands í samstarfi við atvinnulífið, háskóla og rannsóknastofnanir er einmitt ætlað að stuðla að sjálfbærrri nýtingu sem hvílir á niðurstöðum rannsókna, auka þekkingu, veita fræðslu, fjölga atvinnutækifærum og verðmæti vöru sem unnin er úr þangi og þara.

 

Reykhólahreppur stefnir að því að styðja við fjölbreyttara atvinnulíf, betri nýtingu auðlinda svæðisins, breiðara mannlíf í sveitarfélaginu með aukinni rannsókna- og þróunarstarfsemi og góðri aðstöðu fyrir nýbúa og þá sem fyrir eru.

Undirritunin í dag er mikilvægt skref í uppbyggingu á rannsókna- og þróunarstarfsemi á Reykhólum þar sem mikil þekking og reynsla er til staðar hjá Matís í rannsóknum á þörungum þar sem áhersla hefur verið lögð á vísindalega nýsköpun og hagnýta þekkingu og verðmætaaukningu.

 

Í viljayfirlýsingunni segir að sameiginlegt markmið aðilana sem að samkomulaginu standa sé að efla rannsókna- og þróunarstarfsemi í tengslum við sjálfbæra nýtingu þörunga og stuðla þannig að aukinni þekkingu, verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu á sviði sjávarþörunga. 

 

Á meðfylgjandi mynd eru; María Maack verkefnisstjóri Þörungaklausturs, Finnur Árnason framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðunnar h/f, Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri Reykhólahrepps, Oddur Már Gunnarsson forstjóri Matís og Anna Kristín Daníelsdóttir rannsókna og nýsköpunarstjóri Matís.

 

 

 

Komin er niðurstaða úr sýnunum sem tekin voru úr 45 kindum á Kambi. Engin þeirra reyndist vera með ARR arfgerðina sem er verndandi gegn riðuveiki.

Það voru að sögn Karls Kristjánssonar bónda ákveðin vonbrigði, en fyrst búið er að finna genið á Þernunesi í Reyðarfirði eru líkur á að það leynist víðar.

 

Þó að ARR arfgerðin fyndist ekki núna er rétt að halda því til haga að féð á Kambi er í góðri rækt og líflömb þaðan eftirsótt.

 

Myndin er eins og áður tekin traustataki af fb. síðu Kalla á Kambi.

 

31. janúar 2022

Bóklestur er góð skemmtun

Bókasafnið á Reykhólum er opið alla virka daga,

mánud. – fimmtud. kl. 9 – 15 og föstud. kl. 9 – 14.

Fólk er hvatt til að nota sér það og ekki spillir að ekkert kostar að fá lánaðar bækur núna.

 

Það er fullt af nýjum bókum, kannski eitthvað sem einhvern langaði til að fá í jólagjöf en fékk ekki, hellingur af barnabókum og auðvitað lesefni fyrir fólk á öllum aldri.

Slökkvilið Reykhólahrepps fær á morgun afhentan nýjan slökkvibíl. Íbúum er velkomið að koma og skoða bílinn, sem verður staddur á bílaplaninu við Reykhólaskóla, kl.11 í fyrramálið laugardaginn 29. janúar.

 

Athygli er vakin á því að slökkviliðsæfing verður á morgun og þá verður kveiktur eldur. Slökkviliðsstjóri vill koma á framfæri að það verður opinn eldur, þannig að fólk hringi ekki í 112. 

 

Nýi slökkvibíllinn er af gerðinni FORD F450 Super Cap árg. 2005, einungis ekinn 19 þús. km. Bíllinn er útbúinn með svonefndu One - Seven froðukerfi, en með því er froðuefninu blandað við vatn með þrýstilofti. Við það sjöfaldast rúmmál vatnsins, en jafnframt er notkun á froðuefninu u.þ.b. 9 sinnum minni en með eldri búnaði.

 

Nánast eins bíll er í Búðardal, með slökkvibúnaði frá sama aðila og hefur hann reynst vel.

Fordinn leysir af hólmi eldri bíl af gerðinni Magirus Deutz árg. 1978, hann er til muna hraðskreiðari og þar af leiðandi með betri viðbragðstíma og meiri slökkvimátt að auki.

 

Húsnæðisáætlun Reykhólahrepps er aðgengileg hér.


Nokkur atriði sem áætlunin er byggð á.

 

Markmið sveitarfélagsins varðandi íbúðauppbyggingu

Markmið Reykhólahrepps er að byggja minni íbúðir, 2 - 3 herbergja fyrir yngra fólk og einstaklinga sem vöntun er á í störf á Reykhólum.

 

Mannfjöldaþróun

Í töflunni má sjá áætlaða íbúafjölgun næstu ára miðað við óbreytta meðalfjölgun á ári (0,3%) og jafnframt 0,5% og 1% árleg fjölgun. Miðað við þær forsendur myndi fjölga um 8 til 23 manns á næstu átta árum.

 

Atvinnuástand

Flest ársverk eru við landbúnað í sveitarfélaginu. Störf við opinbera þjónustu, einkum Reykhólaskóla og Hjúkrunar- og dvalarheimilið Barmahlíð hafa mikið vægi í atvinnulífinu. Tæp 60 manns starfa hjá sveitarfélaginu. Aðrir mikilvægir vinnustaðir eru Þörungaverksmiðjan og Norðursalt.

Lítið sem ekkert atvinnuleysi er í sveitarfélaginu. Vöntun hefur verið á starfsfólki hjá Reykhólahreppi og hjá Þörungaverksmiðjunni. Ekki hefur fengist fólk til starfa vegna húsnæðisskorts.

Í desember 2021 voru 2 störf í auglýsingu hjá sveitarfélaginu og 1 starf hjá Þörungaverksmiðjunni. Viðvarandi vöntun á starfsfólki hefur verið hjá Norðursalti.

 

Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30